Ríkisstjórn Íslands hafnar áliti Mannréttindanefndar Sþ.!

Stjórnvöld hafna kröfu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að greiða tveimur íslenskum sjómönnum bætur. Vísað er í gagnstæðan úrskurð Hæstaréttar og því eigi kröfur um skaðabætur ekki stoð í landsrétti. Þá er því hafnað að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu verði umbylt í einu vetfangi, en breytingar á því boðaðar. Svar til nefndarinnar fór í póst um helgina.

Nefndin hafði úrskurðað að íslenskum stjórnvöldum bæri að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið og greiða tveimur sjómönnum bætur fyrir að njóta ekki jafnræðis við kvótaúthlutun. Nefndin er alþjóðleg stofnun og Ísland hefur skuldbundið sig til að hlíta úrskurðum hennar.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að hann sé þess fullviss að nefndin fallist á útskýringar íslenskra stjórnvalda. „Það er ekki hægt að búast við því að á sex mánuðum komum við fram með fullmótaðar hugmyndir um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur verið við lýði í um aldarfjórðung," segir Einar.

Hann segir að í svarinu hafi verið vísað í stjórnarsáttmála þar sem segir að gerð verði sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu og áhrifum þess á þróun byggða. Sú athugun fari í gang á næstu vikum og verði lokið á kjörtímabilinu.

„Ég vil hafa áhrif á það hvernig fiskveiðistjórnunarkerfið mun líta út til framtíðar og tel mikilvægt að á því verði ekki kollsteypa, heldur verði því leyft að þróast. Ég mun því beita mér fyrir því að þeirri vinnu verði lokið á kjörtímabilinu."

Einar segir ítarlega lögfræðilega greinargerð hafa fylgt svarinu og sé það til marks um hve alvarlega íslensk stjórnvöld hafi tekið málið.
„Ég átti náið samráð við forystumenn stjórnarflokkanna og við þrjú vorum sammála um það álit sem ég sendi mannréttindanefndinni," segir Einar.- 

Þetta svar sjávarútvegsráðherra er til háborinnar skammar. Þetta er ekkert annað en kattarþvottur. Vísun í stjórnarsáttmála þess efnis,að athugað verði hvaða áhrif kvótakerfið hafi haft á dreifðar byggðir landsins leiðir í ljós,að sjávarútvegsráðherra er engin alvara með raunverulega endurskoðun og uppstokkun kvótakerfisins.Hann boðar breytingar á kerfinu en þær eru einhvers staðar inni í framtíðinni. Mér þykir ólíklegt,að mannréttindanefndin láti þessi svör duga. Ég fæ ekki séð að neitt komi fram í svarinu um að ísenska ríkið ætli að láta af mannréttindabrotum við framkvæmd kvótakerfisins.

Greinilega hefur Samfylkingin orðið undir í ríkisstjórninni í þessu máli. Svarið er í engu samræmi við álit sjávarútvegsnefndar Samfylkingarinnar.

 

Björgvin Guðmundsson



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband