Krónan fallið um tæp 40% frá áramótum

Gengi krónunnar lækkaði um 3% í dag og hefur ekki verið lægra frá árinu 2001. Evran hefur aldrei verið dýrari en hún kostaði ríflega 131 krónu við lok viðskipta í dag. Frá áramótum hefur krónan veikst um rúm 39%.

Í hálffimm fréttum Kaupþings segir að ástæða lækkunarinnar sé sú að hávaxtamyntir eins og íslenska krónan lækki þegar varkárni ríki á mörkuðum. Einnig hafi erlendir fjárfestar selt krónur fyrir Evrur. Í síðustu viku voru 15 milljarðar króna í svokölluðum krónubréfum á gjalddaga sem fjárfestar hafi ekki framlengt.

Evran skiptir verulegu máli í utanríkisviðskiptum Íslendinga og fara 60% inn- og útflutningsviðskipta fram í evrum. Til samanburðar fer ríflega fjórðungur viðskiptanna fram í bandaríkjadollurum. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir að til að gera sér betur grein fyrir sveiflunum í gengi íslensku krónunnar sé kannski best að skoða hana í samanburði við þessa tvo gjaldmiðla. Evran fór fyrst yfir 100 krónur fyrir tæpum 4 mánuðum. Við lok viðskipta í dag kostaði ein evra rúmlega 131 krónu og hefur ekki verið dýrari. 3. janúar, fyrsta viðskiptadag eftir áramót, mældist hún ríflega 92 krónur. Evran hefur því það sem af er ári hækkað um 39 krónur. Dollarinn kostaði hins vegar  rúmar 84 krónur við lok viðskipta í dag en kostaði hátt í 63 krónur í upphafi ársins. Alls munar þar rúmum 20 krónum á hálfu ári.

Ekki eru sérfræðingar á eitt sáttir um það hvert framhald gengismála verði.Flestir telja,að gengislækkunin gangi ekki til baka. En sumir telj,að þegar Ísland tekur stóra lánið,500 milljarða, muni það styrkja gengið og eitthvað af gengislækkuninni ganga til baka.Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar til eflingar Íbúðalánasjóði  hafa engin áhrif á gengismálin.Þær efla aðeins fasteignamarkaðinn og geta eflt  bankana vegna peninga sem Íbúðalánasjóður mun veita til þeirra til endurfjármögnunar íbúðalána.

Björgvin Guðmundsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég trúi ekki að það sé tilviljun að þessi lækkun eigi sér stað rétt fyrir árshlutalok og það í annað sinn. Eflaust eru aðrir þættir sem spila inn í þetta en augljóst að á meðan Bankarnir geta leiðrétt gengistap, vegna misvitura kaupa, með gengishagnaði af því að taka það sem þeir kalla "varnarstöðu gegn íslensku krónunni" þá munu þeir fórna hagsmunumí almennings í landinu fyrir sína eigin hvern einasta dag vikunnar. Það getur líka vel verið að króna eigi eftir að lækka til að komast í jafnvægi en það þarf ekki nokkrum einasta manni að láta sér detta í hug að það gerist með skörpum lækkunum í lok hvers árshluta að ástæðulausu.

Stefán (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband