Bygging hjúkrunarheimilis hafin

Byrjað er nú að framkvæma kosningaloforð Samfylkingarinnar  um byggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma.Byrjað hefur verið á 110 hjúkrunarrýmum í Reykjavík

Framkvæmdir við byggingu Hjúkrunarheimilis á Suðurlandsbraut  hófust fyrir skömmu. Um er að ræða nýbyggingu á fjórum hæðum auk kjallara þar sem verða 110 hjúkrunarrými auk 3 hjúkrunarrýma fyrir skammtímavistun.

Verkkaupi er félags- og tryggingamálaráðuneytið og Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar. Aðdragandi að verkefninu var hugmynd sjálfseignarstofnunarinnar Markarholts ehf. að byggja húsnæði fyrir aldraða við Suðurlandsbraut (Sogamýri) þar sem yrði fjölbreytt starfsemi, þar á meðal þjónustubúðir aldraðra og hjúkrunarheimili. Reistar voru þjónustuíbúðir en verkkaupar ákváðu að sjá um að reisa hjúkrunarheimilið.

Árið 2004 var mat heilbrigðisráðuneytisins að þörf væri á 250 nýjum hjúkrunarrýmum í Reykjavík. Viðræður við Markarholt leiddu til þess að ráðuneytið og Reykjavíkurborg ákváðu að annast framkvæmdir við hjúkrunarheimilið. 

Eins og fyrr segir hafði Markarholt ehf. annast að hluta undirbúning. Deiliskipulagsvinna hefur þróast og hafa lóðir verið aðgreindar fyrir þjónustuíbúðirnar (Suðurlandsbraut 58-64) og hjúkrunarheimilið (Suðurlandsbraut 66). Aðkoma bíla að lóðunum verður samnýtt og er frá Suðurlandsbraut. Aðalinngangur og vörumóttöku verður vestanmegin við húsið.

Hjúkrunarheimilið sem byggt verður er nýbygging þar sem verða 110 hjúkrunarrými auk 3 hjúkrunarrýma fyrir skammtímavistun. Öll rými hjúkrunarheimilisins sem eru aðgengileg vistmönnum eru hönnuð með tilliti til þarfa hreyfihamlaðra.

Byggingin er á fjórum hæðum ofanjarðar og með kjallara sem er að hluta til niðurgrafinn. Samkvæmt aðaluppdráttum er fyrirkomulag starfseminnar á einstökum hæðum í húsinu eftirfarandi:

Í kjallara eru skrifstofur/ stjórnun og móttaka, matsalur sjúkra- og iðjuþjálfun, hárgreiðslu- og fótaaðgerðarstofa, búningsherbergi starfsfólks, geymslur, sorp og tæknirými.

Á 1., 2. og 3. hæð eru 30 hjúkrunarrými á hverri hæð. Þar af má sameina fjögur hjúkrunarrými í tveggja herbergja hjúkrunarrými. Á hverri hæð er borðstofa og setustofur, fylgirými, sjúkrabað og skrifstofa deildarstjóra.

Á 4. hæð eru 20 hjúkrunarrými, borðstofur og setustofur, fylgirými, sjúkrabað og skrifstofa deildarstjóra svo og reykingarherbergi. Gert er ráð fyrir að 4. hæðin verði notuð sem geðdeild.
Brúttóflötur hjúkrunarheimilisins er 7.687,5 m² en brúttórúmmál 28.938,5 m³. 

Það er mikið fagnaðarefni,að bygging umrædds hjúkrunarheimilis skuli hafin. Að visu verður það ekki tilbúið fyrr en 2010. Samfylkingin talaði í þingkosningunum um 400 ný hjúkrunarrými á 2 árum.Í stjórnarsáttmálanum var talað um að flýta byggingu 400 hjúkrunarrýma.

 

Björgvin Guðmundsson



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband