Miðvikudagur, 30. júlí 2008
Talsmaður neytenda tekur olíufélögin á teppið
Talsmaður neytenda hefur boðað til sín á fundi fulltrúa olíufélaganna fjögurra, hvers um sig, í byrjun ágúst í því skyni að ræða verðmyndun gagnvart neytendum á bensíni og dísilolíu.
Um er að ræða eftirfarandi olíufélög á neytendamarkaði: Atlantsolía, N1 ásamt Ego, Olís ásamt ÓB og loks Skeljungur ásamt Orkunni.
Fram kemur í tilkynningu frá talsmanni neytenda að boðað sé til fundarins í því skyni að fá upplýsingar um verðmyndun á olíu á neytendamarkaði í ljósi umræðu sem lengi hefur staðið og fer vaxandi með flökti á gengi og heimsmarkaðsverði á olíu.
Fram kemur í fundarboði að á þessu stigi sé fyrst og fremst spurt um eftirfarandi:
1. Hvernig er verðmyndun á bensíni og díselolíu á neytendamarkaði háttað hjá félaginu (t.d. ef eitthvert sérstakt módel er viðhaft)?
2. Er samkvæmni í því hvort og þá hversu fljótt verði á þessum vörum á neytendamarkaði er breytt við breytingar á gengi og við breytingar á heimsmarkaðsverði - annars vegar þegar verð í IKR hækkar og hins vegar þegar verð í IKR lækkar?
Viðmiðunartímabil sem talsmaður neytenda vísar til í væntanlegri athugun eru fyrstu sjö mánuðir ársins 2008.
Fram kemur að ekki liggi fyrir á þessu stigi hvort einhverjar upplýsingar frá fundunum - og þá hvaða upplýsingar - verði birtar opinberlega.(mbl.is)+
Þetta er gott framtak hjá talsmanni neytenda. Neytendum ofbýður framganga olíufélaganna í verðlagningu olíuvara. Þau hækka alltaf öll í takt,þannig,að ljóst er að um samráð er að ræða,sem er að mínu mati ólöglegt.Nú hefur verð á olíu erlendis hríðfallið en olíufélögin lækka lítið hér heima. Væntanlega verður talsmaður neytenda harður við olíufélögin og krefst lækkunar í samræmi við lækkun heimmarkaðsverðs
Olíufélög boðuð á fundi um verðmyndun gagnvart neytendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.