Ingibjörgu Sólrúnu líður vel.Heldur áfram störfum i New York

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir heldur áfram fundum og viðræðum í New York þrátt fyrir veikindi sín og átti í gær fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, þar sem meðal annars var undrritað samkomulag um vegabréfsáritanir sem greiðir fyrir ferðum milli ríkjanna. Ingibjörg Sólrún er væntanleg heim á mánudag einsog ráðgert hafði verið, en fer í frekari rannsóknir á Mount Sinai-sjúkrahúsinu á morgun, föstudag.

Á fundinum með Lavrov í höfuðstöðvum SÞ voru rædd ýmis hagsmunamál ríkjanna, meðal annars möguleikar á frekara samstarfi í menningar-, umhverfis- og orkumálum, segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Utanríkisráðherra gerði alvarlegar athugasemdir við flug rússneskra herflugvéla í kringum Ísland. Þá lýsti ráðherra afstöðu íslenskra stjórnvalda til átakanna milli Rússlands og Georgíu og sagði að óviðunandi væri að stór ríki neyttu aflsmunar gagnvart minni ríkjum. 

Í samtali við S-vefinn í morgun sagði Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, að Ingibjörg Sólrún héldi nú nær óbreyttri dagskrá. – Ingibjörgu Sólrúnu líður vel, sagði Kristrún, – og lyfin sem hún fær virka ágætlega. Meinið er lítið og viðráðanlegt að sögn læknanna, en það verður að taka sem fyrst, og aðgerð af þessu tagi fylgir að sjálfsögðu nokkur áhætta.

Í dag sækir utanríkisráðherra fund kven-utanríkisráðherra sem Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur boðað til, og síðan taka við fundir með ráðherrum einstakra ríkja, einir þrír eða fjórir. Á morgun fer Ingibjörg Sólrún í frekari rannsóknir á Mount Sinai-sjúkrahúsinu, þar sem færustu sérfræðingar eru með í ráðum, þar á meðal íslenskur læknir þar, Kristján Ragnarsson. Eftir þær rannsóknir verða teknar ákvarðanir um næstu skref, sagði Kristrún, en þangað til væri dagskránni einfaldlega fylgt og þar á meðal gert ráð fyrir kvöldverði kven-ráðherranna í boði Ingibjargar annað kvöld og flugi heim á mánudaginn.

Ekki hefur verið ákveðið hvenær Ingibjörg Sólrún gengst undir aðgerð, en það verður væntanlega hér heima. Búast má við að eftir það þurfi hún að fara sér hægt nokkrar vikur en nái síðan fullri starfsorku.(S-vefur)

Það er ánægjulegt að heyra,að Ingibjörgu Sólrúnu líður vel þrátt fyrir veikindin og hún sýnir mikinn kjark og atorku að halda nær fullri dagskrá í New York.

 

Björgvin Guðmundsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband