Mánudagur, 13. október 2008
Kaupa lífeyrissjóðir Kaupþing?
Nokkrir stærstu lífeyrissjóðir landsins kanna möguleika á að kaupa starfsemi og eignir Kaupþings. Það skýrist á næstu dögum hvort af þeim kaupum verður. Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir að fyrst og fremst yrði um að ræða innlendan hluta Kaupþings, en að einhverju leyti einnig erlendan hluta. Með kaupunum vilji lífeyrissjóðirnir bjarga miklum verðmætum, sem í Kaupþingi búi.
Málið á sér stuttan en snarpan aðdraganda, Þorgeir segir að umræður meðal lífeyrissjóðamanna hafi hafist þegar er Kaupþing féll um miðja síðustu viku. Miklum verðmætum yrði bjargað næðu kaupin fram að ganga, segir Þorgeir.
Strax hafi verið farið út í það að finna leiðir til að bjarga verðmætum lífeyrissjóðanna til að tryggja hagsmuni sjóðsfélaga sem best.
Auk Lífeyrissjóðs verslunarmanna koma að málinu Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir. Engar fjárhæðir eru enn á lofti, enda kannski ekki fyllilega ljóst á þessu stigi hve stór hluti bankans verði keyptur, en hryggurinn í því sem verði keypt sé innlend starfsemi bankans.
Ætlunin er að lífeyrissjóðirnir kaupi meirihluta í fyrirtækinu, sem yrði hið nýja Kaupþing. Hafa verður hraðar hendur, segir Þorgeir, því ef af verður þarf að ganga frá kaupunum áður en nýr banki verður stofnaður, líkt og gert hefur verið við Landsbankann og Glitni. Því eru aðeins fáeinir dagar til stefnu og stjórnir lífeyrissjóðanna fimm sem um ræðir verða að gera upp hug sinn í kvöld, um það hvort láta eigi reyna á að þessi leið sé fær. Lífeyrissjóðirnir kanni nú grundvöll fyrir því að skrifa sameiginlega á morgun formlegt erindi til stjórnvalda þar sem óskað sé eftir viðræðum um kaup á eignum og rekstri Kaupþings. Lífeyrissjóðirnir hafi fundað með forsætis-, viðskipta-, iðnaðar-og menntamálaráðherra í gær og fengið jákvæð viðbrögð við þessum þreifingum sínum. Ljóst sé að fleiri fjárfestar þurfi að koma að kaupunum.(ruv.is)
Það er vel til falliö,að lífeyrissjóðir kaupi starfsemi og eignir Kaupþings hér á landi. Lífeyrissjóðir áttu mikið hlutafé í Kaupþingi og ef til vill geta þeir bjargað miklum verðmætum með því að kaupa bankann. Margir launþegar mundu beina viðskiptum sínum til banka í eigu lífeyrissjóðanna.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.