Sunnudagur, 19. október 2008
Fjármálakreppan: Hverjir bera ábyrgðina?
Þjóðin spyr nú hverjir beri ábyrgðina á fjármálakreppunni á Íslandi? Það er spurt um þetta í fjölmiðlum,á útifundum,á alþingi og Jón Baldvin spurði þessarar spurningar,þegar hann ávarpaði stóran hóp jafnaðarmanna í gær.
Ég ætla að reyna svara spurningunni í þessum pistli: Upphafið felst í einkavæðingu bankanna. Þar voru að verki stjórnarflokkarnir,Sjálfstæðisflokkur og Framsókn undir forustu Davíðs og Halldórs. Þeir einkavæddu bankana og opnuðu flóðgáttirnar.Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn áttu að hafa eftirlit með starfsemi bankanna.Þessar eftirlitsstofnanir brugðust.Þær horfðu aðgerðarlausar á bankakerfið þenjast út þar til það var orðið tólfföld þjóðarframleiðslan.Bankastjórarnir bera einnig ábyrgð.Seðlabankinn afnam bindiskyldu bankanna í stað þess að auka hana.Seðlabankinn gafst upp við að koma böndum á bankana.Síðan segir Seðlabankinn að hann hafi varað við.En Seðlabankinn átti ekki að vara við. Hann átti sjálfur að taka í taumana. Slökkvilið kallar ekki aðgerðarlaust til annarra aðila og segir að það sé eldur. Það ræðst sjálft gegn eldinum.En Seðlabankinn gerði ekkert.Ríkisstjórnir voru einnig aðgerðarlausar.Þær höfðu einnig eftirlitsskyldu og ráð yfir fjármálaeftirliti og Seðlabanka. Ríkisstjórnir áttu að víkja yfirmanni Fjármalaeftirlits og bankastjórum Seðlabanka frá þegar í ljós kom,að þessir aðilar gerðu ekki neitt. Ríkisstjórnirnar bera einnig ábyrgð.Þær voru einnig aðgerðarlausar.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Facebook
Athugasemdir
Seðlabankinn afnam ekki bindiskylduna, heldur lækkaði hana niður í það, sem hún er í grannríkjunum. Bindihlutfallið, 2%, er hið sama og evrópski seðlabankinn notar. Og hvaða valdheimildir hafði Seðlabankinn til að banna bönkunum að lána Jóni Ásgeiri Jóhannessyni? Hvernig hefði óskum um það verið tekið í landi, þar sem Jón Ásgeir átti marga helstu fjölmiðlana? Hafði forseti Íslands ekki neitað að skrifa undir lög til að takmarka kost Jóns Ásgeir og annarra auðmanna á að eiga alla fjölmiðla og hafa þannig óeðlileg áhrif á skoðanamyndun? Hafði formaður Samfylkingarinnar ekki kvartað undan því í frægri Borgarnesræðu, að sumir ráðamenn skyldu ala með sér efasemdir um viðskiptahætti Jóns Ásgeirs?
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 19.10.2008 kl. 13:11
Athyglisvert en telurðu þá að útrásarvíkingar beri enga ábyrgð ? með krosseignatengslum og öðrum aðgerðum til að auka gengi félaga sinna og ná peningum úr bönkunum þeir voru jú lika eigendur að þeim og þeirra fyrirtæki lánþegar kannski stundum á ekkert of góðum veðum.
Jón Aðalsteinn Jónsson, 19.10.2008 kl. 14:11
Sæll frændi!
Ég er ekki að tala um að Seðlabankinn hefði átt að banna lánveitingar til einstakra aðila.Ég er að tala um að það hefði átt að takmarka lántökur bankanna erlendis,þegar í ljós kom hvert stefndi.Banki bankanna hefði átt að hafa ráð til þess og ef lagaheimildir hefði skort átti Seðlabankinn að leggja til,að lagaheimilda væri aflað.Seðlabankinn átti ekki að horfa aðgerðarlaus á það að umsvif bankanna yrðu 12-föld þjóðarframleiðslan.Bindiskyldan hefði einnig átt að vera mikið hærri og það hefði mátt nota hana til þess draga inn fjármagn frá bönkunum.Bankarnir hér voru mikið veigameiri þáttur í efnahagslífinu en í grannlöndum okkar og því alls ekki unnt að hafa bindiskyldu hina sömu hér og erlendis. Mál þetta snýst ekkert um Jón Ásgeir eða einstak lántekendur. Það snýst um það hvort Fjármálaeftirlit og Seðlabanki hafi sinn eftirlitsskyldu sinni og hvort ríkisstjórn hafi fylgst nægilega vel með.
Kveðja BG
Björgvin Guðmundsson, 19.10.2008 kl. 14:43
Sæll Jón Aðasteinn!
Jú vissulega bera útrásarvíkingarnir ábyrgð.En ég tel,að eftirlitsstofnanir og bankar beri meiri ábyrgð. Við getum litið í eigin barm. Við förum ef til vill í banka og biðjum um lán,ef til vill meira en við ráðum vel við. En það er bankastjóranna að lána ekki af ávarkárni.Ég tel,að vísu að bankarnir hafi gætt þess betur að lána ekki einstaklingum of mikið en stórfyrirtækjum eins og þeim sem voru í útrás.
Kv. BG
Björgvin Guðmundsson, 19.10.2008 kl. 14:48
Sé að Hannes Hólmsteinn er upprisinn! Langar að spyrja hann og alla aðra: Hvað er Hannes Hólmsteinn að gera í stjórn Seðlabanka Íslands? Hvaða sérfræðiþekkingu býr hann yfir sem gerir hann hæfan til að sitja þar?
Viðar Eggertsson, 19.10.2008 kl. 15:09
Skrítið að enn skilji Hannes Hólmsteinn ekki að mál snúist ekki um einstaka þátttakendur og sérstaka hagsmuni og jafnvel ekki um eistaka atburði heldur almennar meginreglur sem duga og framkvæmd sem er blind á nöfn og sérhagsmuni.
Hannesi og félögum í Seðlabankanum virðist hinsvegar fyrirmunað að skoða ákvarðanir og regluverk án þess að máta það við tiltekna einstaklinga og sérhagsmuni þeirra, og þá væntanlega í þágu vina sinna og andstætt skilgreindum erki „óvini“ sem Hannes kemst ekki hjá að nefna hér.
Helgi Jóhann Hauksson, 19.10.2008 kl. 15:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.