Laugardagur, 25. október 2008
Aldraðir og láglaunafólk geta ekki tekið á sig neinar byrðar
Það er farið að tala um það,að þjóðarframleiðslan muni dragast saman um 10% næsta ár.Sagt er,að ráðstöfunartekjur geti dregist saman enn meira.Þó á ekki að leggja neina skatta á þjóðina vegna lántökunnar hjá IMF. En atvinnuleysi eykst nú ört og gengishrun krónunnar hefur valdið mikilli kjaraskerðingu.Talið er líklegt að ríkið verði að taka á sig einhverjar byrðar vegna Ice save reikninga Landsbankans í Bretlandi.Hrun bankakerfisins veldur atvinnulífinu og almenningi miklum erfiðleikum.Lífeyrissjóðirnir hafa tapað miklum fjármunum.Talið er víst,að fljótlega verði að draga úr ríkisútgjöldum eða hækka skatta.Allt er þetta þó óljóst enn. En auknar byrðar munu örugglega leggjast á þegna þjóðfélagsins. En þá er áríðandi að dreifa byrðunum réttlátlega. Hinir lægst launuðu geta ekki tekið á sig neinar byrðar.Það gildir um lægst launuðu launþega,aldraða og öryrkja. Þessir aðilar hafa aðeins 130 þús. kr. á mánuði eftir skatta. Það lifir enginn af lægri tekjum og raunar er ekki unnt að lifa sómasamlegu lífi af þessum tekjum. Þess vegna verður að leggja byrðarnar á þá betur settu.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Björgvin
Ég er nú yfirleitt sammála þér, en ekki í þetta skipti. Ég er þeirrar skoðunar að alveg eins væri hægt að fullyrða, að barnafólk gæti ekki tekið neina skerðingu á sig eða bara einhver annar hópur fólks í þjóðfélaginu.
Sannleikurinn er sá að þetta hefur ekkert að gera með aldur, fjölda barna eða tekjur. Í þetta skipti er þetta flóknara en þetta, þar sem sumir eru mjög skuldsettir og þrátt fyrir góð laun, þá duga þau skammt, þegar verðbólga gerir það að verkum, að verðtryggðar skuldir hækka hratt og svo allar nauðsynjar.
Auðvitað eru eftirlaunaþegar ekki öfundsverðir að sínum lífeyri, en það er venjulegt launafólk ekki heldur, sem kannski er með skuld upp á 1/2 íbúðina sína og 1/2 bílinn sinn og síðan nokkur börn.
Ég held að margur eftirlaunamaðurinn, sem á sína skuldlausu íbúð og hugsanlega einhver varasjóð, sé betur stæður en mörg fjölskyldan, sem að auki er með skuldahala. Kreppa með óðaverðbólgu er öðruvísi, en þegar pabbi minn og mamma voru með okkur strákana á sínu framfæri milli 1953-80.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.10.2008 kl. 17:59
Ég held það séu fæstir öfundsverðir á þessum síðustu og verstu. Ég leigði 2ja herb. 68 m2 íbúð í Grafarvogi og borgaði 105.000 fyrir hana og þótti það vel sloppið. Þó var sú leiga vísitölutengd sem gerði að hún hækkaði hægt og rólega. Sem betur fer flutti ég erlendis í maí sl. svo ég slapp við skellinn. En á meðan ég borgaði þessa leigu, var ég menntaður ríkisstarfsmaður og hafði um 160.000 útborgað á mánuði. Ég gat bjargað mér... eða... ég lifði af. Ég veit um mjög marga sem voru í verri stöðu en ég var og því vorkenni ég þeim sem sjá ekki fram á að geta borgað leigu, afborganir af húsinu eða hvað það kann að vera. Það eina góða í þessu er að lánið mitt hjá Kaupþingi hefur nú lækkað um helming þar sem ég hef tekjur erlendis. Svo ekki þurfa allir að kvarta.
Snowman, 26.10.2008 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.