Ráðherra lætur rannsaka afskriftir í Kaupþingi

Reynist það rétt að stjórn Kaupþings hafi afskrifað skuldir starfsmanna vegna hlutabréfakaupa í bankanum munu stjórnvöld sækja það fast að samningum þar að lútandi verði rift, segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.

Fjármálaeftirlitið (FME) rannsakar nú fréttir um að stjórn Kaupþings hafi látið afskrifa skuldir starfsmanna.

Fram kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2 í gær að um hafi verið að ræða skuldir fjölda starfsmanna, og að um háar upphæðir hafi verið að ræða. Fréttablaðið hefur ekki fengið það staðfest hjá heimildarmönnum.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagðist í gær ekki hafa heimild til að tjá sig um málið. Vísaði hann til þess að lán til starfsmanna séu viðskipti, og í viðskiptum við banka sé trúnaður áskilinn.
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að samkvæmt upplýsingum sem hann hafi fengið frá FME hafi allar skuldir Kaupþings verið færðar í Nýja Kaupþing.

„Þetta þarf að rannsaka hratt og leiða strax til lykta," segir Björgvin. Ef um eitthvað óeðlilegt hafi verið að ræða verði þess freistað að rifta þeim gjörningi.

„Það verður enginn steinn látinn óhreyfður í þessu máli, og það verður aldrei nokkurn tímann látið líðast að neitt óeðlilegt hafi átt sér stað," segir Björgvin. „Allir skuldarar verða að njóta jafnræðis, engir fá að njóta sérmeðferðar."

Þeir fyrrverandi stjórnarmenn í Kaupþingi sem Fréttablaðið náði sambandi við í gær könnuðust ekki við að stjórnin hafi samþykkt að fella niður skuldir starfsmanna.

„Ég get staðfest að það hefur ekki verið tekið fyrir í stjórninni," segir Brynja Halldórsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður.

Aðrir stjórnarmenn, sem tjáðu sig með því skilyrði að ekki yrði vitnað í þá undir nafni, könnuðust við að skuldastaða starfsmanna hefði verið rædd í stjórninni. Þeir fullyrtu þó að ekki hefði verið tekin nein ákvörðun um að afskrifa skuldirnar.

Nýja Kaupþing yfirtók öll lán eins og þau stóðu þegar tekið var við, segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings. Hann vildi í gærkvöldi ekki upplýsa hversu háar upphæðir starfsmenn skuldi Nýja Kaupþingi vegna hlutabréfakaupa.

Ekki náðist í Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra bankans, við vinnslu fréttarinnar.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að bankinn hafi ekki veitt starfsmönnum lán fyrir hlutabréfakaupum sem hluta af starfskjörum. Því hafi ekki verið um niðurfellingar slíkra skulda að ræða hjá bankanum.(mbl.is)

Ég fagna því að viðskiptaráðherra hafi ákveðið að láta rannsaka þetta mál og  vilji rifta samningum,ef gerðir hafa verið um afskrift  skulda starfsmanna vegna hlutabréfakaupa.Það eiga allir skuldarar að sitja við   sama borð.

 

Björgvin Guðmundsson




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband