Ítarleg rannsókn á orsökum bankahrunsins að hefjast

Rannsóknin á orsökum bankahrunsins á að ná aftur til þess tíma er bankarnir voru einkavæddir og horfa þarf til þeirra ásakana sem uppi voru á þeim tíma innan og utan þings. Um þetta voru Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, og Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, sammála á Alþingi í gær þegar rætt var um frumvarp sem felur í sér stofnun nefndar er rannsaka á bankahrunið og aðdraganda þess.

Þingmenn voru almennt jákvæðir í garð málsins og lögðu ríka áherslu á að allar staðreyndir yrðu dregnar fram í dagsljósið.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, mælti fyrir frumvarpinu en meðflutningsmenn eru formenn allra stjórnmálaflokkanna. Benti Sturla á að með skipan nefndarinnar væri Alþingi að fikra sig inn á nýjar brautir. Samkvæmt stjórnarskránni má skipa rannsóknarnefndir þingmanna til að skoða ákveðin mál en ljóst þótti að víðtækari sátt gæti náðst væri rannsóknin í höndum óháðra sérfræðinga.

Ögmundur Jónasson sagði rannsóknina hljóta að snúa að stjórnmálum og þá jafnt stjórn sem stjórnarandstöðu. „Nauðsynlegt er að spyrja um hvað var gert og hvað var ekki gert, hvaða lög og reglur voru settar og hvaða tillögur voru hunsaðar,“ sagði Ögmundur og lagði líka áherslu á að horft yrði til þess hvernig framkvæmdavaldið hefði farið með vald sitt.

Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins, sagði augljóst að væri Ísland ekki aðili að EES hefði bankahrunið ekki átt sér stað. Frjálst flæði fjármagns hefði gert bönkunum mögulegt að stækka svo mikið. Lagaumhverfið hér væri það sama og í öðrum Evrópulöndum. „Síðan er það spurningin hvers vegna í ósköpunum lagaramminn og lögin og reglurnar voru og eru þannig að svona hlutir geti gerst,“ sagði Valgerður og Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, sagði augljóst að regluverk ESB væri meingallað.

Þá lagði Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, áherslu á að ekki yrði gengið til kosninga fyrr en niðurstöður nefndarinnar lægju fyrir til þess að kosningar gætu orðið það uppgjör sem til þyrfti.(mbl.is)

Miklar umræður urðu um þetta mál á alþingi. Má segja,að þverpólitísk  samstaða hafi náðst um það. Rannsakað verður ítarlega hvað geti hafa farið úrskeiðis og störf ríkisstjórna,núverandi og fyrrverandi verða rannsökuð  í því sambandi.

 

Björgvin Guðmundsson

 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Var það ekki fyrst og fremst stjórnlaus græðgi sem stjórnaði hóflausri útrás bankanna? Með afnámi bindisskyldunnar varð að koma e-ð annað betra í staðinn. Enginn varasjóður var til en allt lagt undir.

Þá eru útlán til eigenda bankanna til fjárfestinga einungis gegn veði í hlutabréfum sem voru lítils virði þegar á reyndi. Það hlýtur að verða tekin upp sú stefna að fasteignir verði almennt settar að veði lána en að einhverju hámarki, t.d. 50% af brunabótamati eins og lengi reyndist bönkunum vel.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 28.11.2008 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband