Þriðjudagur, 2. desember 2008
Ísland í 2.sæti hjá OECD varðandi framlög til fræðslumála
Heildarútgjöld til fræðslumála námu 106,4 milljörðum króna eða 8,2% af landsframleiðslu árið 2007, eftir því sem fram kemur í nýrri útgáfu af Hagtíðindum Hagstofunnar. Þar af var hlutur hins opinbera 96,3 milljarðar króna en hlutur einkaaðila 10,1 milljarður eða 9,5% af útgjöldunum. Af heildarútgjöldum hins opinbera árið 2007 runnu 18,8% til fræðslumála. Sem hlutfall af landsframleiðslu hafa heildarútgjöld til fræðslumála hækkað úr ríflega 7,1% af landsframleiðslu 1998 í rúmlega 8,2% á árinu 2007 eins og áður segir.
Heildarútgjöld til fræðslumála í aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) voru að meðaltali 5,7% af landsframleiðslu ríkjanna árið 2005 en mikill munur er á því hlutfalli milli einstakra ríkja. Í Ísrael var hlutfallið hæst eða 8,3% árið 2005 en 3,4% í Grikklandi það ár. Á þennan mælikvarða litið var Ísland í 2. sæti OECD-ríkjanna en hér runnu 8% af landsframleiðslu til fræðslumála á árinu 2005.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.