Laugardagur, 6. desember 2008
Viðskiptaráðherra var haldið utan fundahalda um þjóðnýtingu Glitnis!
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, frétti síðdegis sunnudaginn 28. september, að til stæði að íslenska ríkið yfirtæki Glitni að stærstum hluta. Tilkynnt var morguninn eftir að ríkið myndi leggja bankanum til nýtt 80 milljarða króna hlutafé og fá 75% hlut í bankanum.
Björgvin sagði í Markaðnum á Stöð 2 í dag, að hann hefði frétt af því hvað til stæði þegar aðstoðarmaður hans, sem er einnig efnahagsráðgjafi Samfylkingarinnar, og annar ráðherra Samfylkingarinnar, voru kallaðir til funda vegna málsins.
Björgvin sagði að setja mætti spurningamerki við þessa atburðarás alla og að eðlilegt hafi verið, fyrst Seðlabankinn ætlaði að fara þessa leið, að kalla viðeigandi ráðherra mun fyrr að málinu. Þess í stað hefði þeim verið rutt inn í atburðarásina á lokasprettinum.
Hann sagði að erfitt væri að meta hvort þessi aðgerð hefði verið rétt en rannsaka þyrfti hver þáttur Glitnisaðgerðanna var í falli bankanna. Hins vegar blasti við öllum, að mun heppilegra hefði verið að þetta mál hefði verið unnið öðruvísi og stjórnvöld verið kölluð fyrr til leiks.
Björgvin sagði að pólitísk spenna væri milli seðlabankastjóra og þeirra, sem hefðu talað fyrir aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Þetta kunni að hafa orðið til þess að samskipti hans og Davíðs Oddssonar hefðu verið minni en ella. Hins vegar hefðu samskiptin milli Seðlabankans og forsætisráðuneytisins sjálfsagt verið eðlileg og góð enda heyri Seðlabankinn undir forsætisráðuneytið.
Björgvin sagði óheppilegt að seðlabankastjóri sé í hápólitískri þátttöku eins og hann sé á sumum sviðum. Heppilegra væri fyrir þá, sem taka við stjórnmálaflokkum, að þeir fái að gera það í sæmilegum friði fyrir fyrirrennurum sínum. Þá sagði Björgvin óheppilegt, að menn skuli blanda saman pólitík og peningastjórnun en á meðan bankastjórnin sitji njóti hún trausts ríkisstjórnar enda væru allir að fást við mikilvæg verkefni. Við verðum að þjappa okkur saman og treysta stjórnvöldum og stofnunum til að fást við kreppuna," sagði Björgvin.(mbl.is)
Þessi frásögn viðskiptaráðherra á Stöð 2 upplýsir undarlega atburðarrás. Eins og viðskiptaráðherra segir frá ákvað Seðlabankinn að þjóðnýta Glitni,eða að kaupa 75% af hlutafé bankans.Seðlabankinn hefur enga heimild til þess að kaupa fyrirtæki eða þjóðnýta þau. Það getur ríkið eitt gert. Svo virðist því sem Seðlabankinn hafi valtað yfir rikið í þessu máli,tekið málin í eigin hendur og farið út fyrir valdheimildir sínar. Síðan þurfti ríkið að blessa orðin hlut og samþykkja það sem Seðlabankinn hafði þegar ákveðið. "Lítil eru geð guma".Forsætisráðherra og viðskiptaráðherra létu það yfir sig ganga að Seðlabankinn tæki málin í sínar hendur og tæki ákvörðun um það sem var í verkhring ríkisstjórnarinnar. DV birti bréf Seðlabankans til Glitnis,þar sem Seðlabankinn tilkynnir,að bankinn hafi ákveðið að leggja Glitni til 80 milljarða hlutafé eða sem svaraði 75% af hlutafé bankans.Undir bréfið skrifaði Davíð Oddsson.Glitnir hafði aðeins farið fram á rúmlega 20 milljarða kr, lán. En talið er almennt,að þessi gerningur Seðlabankans hafi sett allt bankakerfið á hliðina,þar eða eftir að það spurðist,að Glitnir hefði verið þjóðnýttur hrapaði krónan og hlutabréf í verði og lánalínur til bankanna lokuðust.Þjóðnýting Glitnis virðist hafa sett bankana í þrot.
Björgvn Guðmundsson
Björgvin: Spurningarmerki við Glitnisatburðarás | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:27 | Facebook
Athugasemdir
Það virðist vera að við búum í stjórnlausu landi. Seðlabankastjóri fer sínu fram hvað svo sem lögum og reglum líður- eftir þessari lýsningu viðskiptaráðherra. Seðlabankastjóri virðist vera ofar ríkinu. Hann gefur alvarlega vitneskju til kynna sem varðar þjóðarhag en neitar að upplýsa alþingi um málið. Vitað er að seðlabankastjóri er mjög andvígur núverandi ríkisstjórn og vill hana feiga. Seðlabankastjóri er í stríði við löglega ríkisstjórn Íslands. Það eru erfiðir tímar hjá Samfylkingunni- vonandi fer að styttast í þessum fáránleika...
Sævar Helgason, 6.12.2008 kl. 18:25
Sæll Björgvin.
Hvernig á maður að geta trúað svona vitleysu. Maðurinn er núna fyrst að koma fram og segja að þessi atburðarrás hafi verið óheppileg. Hvernig væri nú ef menn tækju að sér að skoða hvernig komið var fyrir Glitni. Finnst ykkur það virkilega ekki meira mál, hvernig búið var að ræna í raun bankann af eigendunum og setja hálfa þjóðina á hausinn ? Meira að segja samflokksmaður Björgvins, Jón Sig. fyrrverandi Seðlabankastjóri, hefur gefið í skyn að þetta hafi í raun verið eina leiðin. Hann telur að fall bankanna hafi að öllu leyti verið þeirra eigin mistökum um að kenna. Það eru örfáir einstaklingar sem halda því fram að Seðlabankinn hafi sett bankana á hausinn með þessari þjóðnýtingu, þessari umræðu er stjórnað af þeim mönnum sem stjórnuðu bankanum, í ófrjálsum fjölmiðlum sem þeir eiga sjálfir, því miður.
Sigurður Sigurðsson, 7.12.2008 kl. 11:13
Gerðir og ábyrgðir.
Allur almenningur hlítur að sjá að Björgvin átti enga möguleika á að hnekkja ákvörðunum Davíðs eða Geirs. Davíð fer sínu fram í skjóli Sjálfstæðisflokksins og Geir er ónýtur pappír.
Ábyrgðin er fyrst og fremst þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn.
Eini möguleiki Björgvins til að stöðva framgöngu Davíðs var að gera hann óvígann.
Það gerir enginn.
Kjósandi, 7.12.2008 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.