Dagur:Njótum góðra verka ríkisstjórnarinnar

Þetta er auðvitað mjög ánægjuleg vísbending þó að þetta sé vissulega bara skoðanakönnun. Reynslan kennir manni að það þurfi að hafa fyrir hlutunum og heyja kosningabaráttuna af krafti fram á síðasta dag,“ segir Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar um fylgi flokksins á landsvísu. Samfylkingin mælist nú með 32,6 prósenta fylgi, bætir við sig 3,2 prósentustigum frá síðustu könnun Capacent.

Dagur segir að Samfylkingin sé að njóta þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi látið hendur standa fram úr ermum á sínum stutta starfstíma. Það sé ákall eftir áframhaldandi ábyrgð og festu við landsstjórnina. Síðan skipti máli að Samfylkingin er búin að leggja fram skýra sýn á það hvernig hægt sé að ráða fram úr málum og komast sem þjóð út úr kreppunni.

„Við höfum með öðrum orðum framtíðarsýn og kosningar snúast ekki síst um framtíðina. Það er það erindi sem við eigum núna við óákveðna kjósendur og fólkið í landinu, að tala fyrir þessari sýn. Við vorum að gefa hana út á bók í gær, efnahagsáætlunina okkar og þó að þetta séu fínar tölur þá held ég að við eigum ennþá eftir að ræða við ýmsa sem ég vona að muni slást í för með okkur fram að kosningum,“ segir Dagur B. Eggertsson. (mbl.is)

Ég er sammála   Degi.Samfylkingin er að njóta góðra verka ríkisstjórnarinnar og stefnu Samfylkingarinnar.

 

Björgvin Guðmundsson

 

Fara til baka 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver er stefnan Björgvin.

ESB aðildarviðræður? Þrepaskattur?

Ef S settu það sem skilyrði fyrir stjórnarsamstarfi að fara í viðræður strax og þau myndu hætta þessari þvælu um þrepaskatt sem engu skilar, þá myndi ég kjósa flokkinn.

Hef hingað til kosið D en hef enga löngun til þess lengur. Sá flokkur hefur algerlega brugðist mér og  öllum þeim sem núna segjast ætla að kjósa S.

Þess nýtur S núna, ekki endilega "góðra verka" eins og froðusnakkurinn Dagur segir, heldur þess að meðvitaðir sjálfstæðismenn eru að hverfa frá sínum flokki.

Skila auðu ef Samfylkingarfólk heldur áfram að aulast.

Margret (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 01:31

2 Smámynd: Björgvin Guðmundsson

Sæl Margrét!"

Sendi þér hér með stefnu Samfylkingarinnar  í efnahagsmálum ogEvrópumálum:

Treysta þarf stoðir efnahagslífsins með almennum aðgerðum sem tryggi almannahag en hygla ekki sérhagsmunahópum. Sú grunnregla jafnaðarstefnunnar að þeir sem þurfi eigi að njóta fyrirgreiðslu á að vera leiðarljós í aðgerðum til að létta skuldsettum fjölskyldum leið út úr núverandi erfiðleikum.

Í endurreisn atvinnulífsins þarf að tryggja að rekstrarhæf fyrirtæki fái nauðsynlegt fjármagn til rekstrar. Þar megum við engan tíma missa. Ríkið þarf að taka með gagnsæjum hætti á skuldamálum fyrirtækja og tryggja jafnræði í meðferð sambærilegra mála. Þannig verða almannahagsmunir best tryggðir við endurreisn efnahagslífsins.
Allar aðgerðir til að brúa tímabil erfiðleika fyrir fyrirtæki og heimili verði ábyrgar og markvissar svo hér skapist hagstæð skilyrði til hagvaxtar, niðurgreiðslu skulda  og upbyggingar um leið og komist er yfir erfiðasta farartálmann. Að samhliða aðgerðaráætlun liggi fyrir skýr framtíðarsýn í grundvallaratriðum á borð við peningastefnu, framtíðargjaldmiðil og umgjörð efnahagslífsins í endurreisninni.

Efnahagsleg endurreisn þarf að haldast í hendur við opnara og lýðræðislegra stjórnkerfi. Pólitísk afskipti af mannaráðningum hjá hinu opinbera hafa veikt stjórnkerfið og grafið undan sjálfstæði faglegrar stjórnsýslu. Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskrá til að tryggja þjóðareign á sameiginlegum auðlindum, rétt almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna og gera kleift að breyta stjórnarskrá með samþykki þings og þjóðar, án þingkosninga. Samfylkingin leggur áherslu á að boðað verði til stjórnlagaþings sem sett verði eigi siðar en 1. desember 2009, eins og lagt er til í stjórnarfrumvarpi fyrir Alþingi. Fulltrúar þjóðarinnar munu sitja stjórnalagaþing og gera tillögu að nýrri stjórnarskrá sem síðan verður lögð í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eftir bankahrunið lagði Samfylkingin höfuðáherslu á að Íslendingar gættu að samskiptum við nágrannaríki og segðu sig ekki úr lögum við alþjóðasamfélagið. Lítið land í vanda, sem á afkomu sína undir milliríkjaviðskiptum, getur ekki virt að vettugi almennar leikreglur í samskiptum ríkja. Með samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn tókst að leggja grunn að efnahagslegri endurreisn landsins í samvinnu við nágrannaríki. Viðsnúningur í efnahagsmálum byggir framar öðru á traustum aðgangi að erlendum mörkuðum og góðu orðspori Íslands erlendis.

Evrópa
Fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að skapa þjóðarsátt um ábyrga efnahagsstjórn.

Liður í því er að hefja sem fyrst aðildarviðræður við Evrópusambandið og leggja að þeim loknum samningsniðurstöðu fyrir þjóðaratkvæði. Að viðræðum við ESB skal koma samráðshópur hagsmunaaðila, þar á meða fulltrúar atvinnuveganna og launafólks, samtaka sveitarfélaga og umhverfis- og jafnréttissamtaka.

Samfylkingin mun í viðræðum tryggja grundvallarhagsmuni atvinnuveganna, sérstaklega íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar, og standa vörð um náttúruauðlindir landsins. Hún mun hefja þegar í stað undirbúning að gjaldmiðlaskiptum.

Umsókn um aðild að ESB og undirbúningur að upptöku Evru mun styrkja efnahag heimilanna og fyrirtækja í landinu þar sem gengi krónunnar er líklegt til að styrkjast og vextir að lækka vegna bættra lánskjara landsins erlendis.

Staða heimilanna mun batna verulega með Evrópusambandsaðild þar sem matvælaverð, vaxtagjöld og almennar neysluvörur munu lækka auk þess sem verðtrygging leggst af með upptöku nýs gjaldmiðils. Full þátttaka í samstarfi Evrópuríkja mun auk þess tryggja áframhaldandi ferðafrelsi, aðgang að menntastofnunum og vísindasamstarfi og aðgengi að stærsta vinnumarkaði og markaðssvæði heims. Aðild að Evrópusambandinu er lýðræðismál sem mun bæta réttarstöðu launafólks og minnihlutahópa og styrkja öryggi þjóðarinnar.

Samfylkingin mun beita sér fyrir því að aðild feli í sér uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á landsbyggðinni með þátttöku í byggðastefnu sambandsins og tryggja aðkomu sveitarfélaga að ákvaðanatöku um mál sem þau varða. Evrópusambandsaðild mun leiðrétta þann lýðræðishalla sem EES-samningurinn felur í sér og tryggja aðkomu Íslendinga að setningu allra laga sem gilda á landinu.

áætlunum ríkisstjórnarinnar

Bestu kveðjur

Björgvin

Björgvin Guðmundsson, 10.4.2009 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband