Halli Reykjavíkurborgar 12,7 milljarðar fyrstu 6 mánuði ársins

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar (A og B-hluta), þar sem fyrirtæki í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar eins og Orkuveita Reykjavíkur eru talin með, var neikvæð um 12,7 milljarða kr. á fyrstu sex mánuðum ársins.

 

Í tilkynningu um uppgjörið segir að það megi rekja til fjármagnsliðar sem er neikvæður um 15,9 milljarða kr. vegna gengis íslensku krónunnar og erlendra skulda samstæðunnar. Þar vegur staða OR þyngst eins og þegar hefur komið fram í árshlutauppgjöri fyrirtækisins. Um leið og gengið tekur að hækka að nýju mun hagur fyrirtækisins vænkast hratt og miðað við spár um gengisþróun gæti eiginfjárhlutfall orðið ásættanlegt þegar á árinu 2011.


Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar (A-hluta) fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs er mun betri en samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir tímabilið eða sem nemur 227 milljónum króna. Rekstrarniðurstaðan fyrir fjármagnsliði eftir fyrstu 6 mánuði ársins er 1,2 milljörðum betri en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borgarstjórn. Þar segir að fjármagnsliðurinn skilar minni tekjum vegna meiri verðbólgu, veikara gengis og minni sölu skipulagseigna en skv. áætlun. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar til júní 2009 sem lagður var fram í borgarráði í dag.

 

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri segir árshlutauppgjörið staðfesta ábyrgð og árangur hjá Reykjavíkurborg: „Þökk sé auknu aðhaldi í rekstri Reykjavíkurborgar, sem ráðist var í þegar um mitt síðasta ár, hefur tekist að ná verulegum árangri. Starfsmenn og stjórnendur hafa lagst á eitt til að halda kostnaði niðri og standa vörð um grunnþjónustu, störf og gjaldskrár. Væntingar um styrkingu gengis og lægri verðbólgu hafa hins vegar ekki gengið eftir, sem hefur áhrif á Eignasjóð og fyrirtæki borgarinnar, rétt eins og öll önnur fyrirtæki landsins."

 

Rekstrarniðurstaða Aðalsjóðs er 2,1 milljarði betri en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir sem hlýtur að teljast mjög góður árangur. Niðurstaða Aðalsjóðs vegur upp lakari afkomu Eignasjóðs sem rekja má til lakara gengis og meiri verðbólgu en spáð var og lítillar sölu byggingaréttar. (visir.is)

Orkuveitan er talin með í þessu uppgjöri og á slæm afkoma hennar stóran þátt í uppgjörinu.

 

Björgvin Guðmundsson




 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband