Borgarahreyfingin þurrkast út

Sjálfstæðisflokkurinn myndi bæta við sig sex þingmönnum yrðu niðurstöður kosninga í takt við nýja könnun Fréttablaðsins sem gerð var í gærkvöldi. Vinstri grænir og Borgarahreyfingin myndu tapa þingmönnum.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru með nauman meirihluta þingmanna samkvæmt könnuninni, 32 af 63. Samanlagt fylgi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna mælist 50 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn styrkir stöðu sína frá síðustu könnun, og mælist nú með 34,7 prósenta fylgi. Flokkurinn mældist með 30,4 prósenta fylgi í könnun Fréttablaðsins sem gerð var 28. júlí, og fékk 23,7 prósent í síðustu kosningum. Yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnun Fréttablaðsins fengi flokkurinn 22 þingmenn, en er með 16 þingmenn nú.

Litlar breytingar mælast á stuðningi við Samfylkinguna frá síðustu könnun Fréttablaðsins. Flokkurinn fengi stuðning 30,8 prósenta kjósenda yrði kosið nú, en naut stuðnings 29 prósenta í síðustu könnun. Flokkurinn fékk 29,8 prósent atkvæða í kosningunum í vor. Samfylkingin myndi miðað við þessa niðurstöðu halda óbreyttum fjölda þingmanna, og ná 20 mönnum á þing.

Vinstri græn mælast með svipað fylgi og í síðustu könnun, fengju 19,2 prósent nú en mældust með 18,8 prósent í könnun í lok júlí. Það er nokkuð frá 21,7 prósenta kjörfylgi. Flokkurinn fengi 12 þingmenn kjörna yrðu þetta niðurstöður kosninga, en er með 14 í dag.

Framsóknarflokkurinn bætir örlítið við fylgi sitt frá síðustu kosningum, en hefur enn ekki náð kjörfylgi. Flokkurinn mælist með 14,1 prósenta fylgi í nýrri könnun Fréttablaðsins, en 13,5 prósent í síðustu könnun. Framsóknarmenn fengu 14,8 prósenta fylgi í kosningunum í vor. Flokkurinn fengi óbreyttan fjölda þingmanna, níu talsins.

Borgarahreyfingin mælist með stuðning 0,8 prósent þeirra sem tóku þátt í könnun Fréttablaðsins, en mældist með 8,2 prósent í síðustu könnun, einu prósentustigi yfir kjörfylgi. Flokkurinn fékk fjóra þingmenn í kosningum, en engan miðað við nýja könnun.

Hreyfingin mælist með 0,4 prósenta fylgi, en munur á fylgi Hreyfingarinnar og Borgarahreyfingarinnar er innan skekkjumarka.

Hringt var í 800 manns fimmtudaginn 15. október. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var; Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga nú? Alls tóku 64,4 prósent afstöðu til spurningarinnar.(visir.is)

Það kemur ekki á óvart,að Sjálfstæðisflokkurinn vinni á í þessari könnun og stjórnarflokkarnir tapi,þar eð stjórnin hefur verið að kynna mjög óvinsælar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hitt kemur meira á óvart,að Borgarahreyfingin skuli missa allt sitt fylgi en það er vegna innri óeiningar.

 

Björgvin Guðmundsson




 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband