Ætlar félagsmálaráðherra að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja?

Nú eru tæpir 6 mánuðir frá því félags-og tryggingamálaráðherra skerti kjör aldraðra og öryrkja fyrirvaralaust 1.júlí sl. sama dag og launþegar  fengu kauphækkun. En þá voru kjör þessara lífeyrisþega skert um rúma  4 milljarða.Þessi  árás á kjör aldraðra og öryrkja var réttlætt með því að það þyrfti að skera niður og allir yrðu að taka þátt í niðurskurðinum.Samkvæmt mannréttindasáttmálum,sem Ísland er aðili að  má ekki færa réttindi aldraðra og öryrkja til baka nema áður séu kannaðar allar aðrar leiðir til sparnaðar og að þær séu ekki fyrir hendi. Þetta var ekki gert í félagsmálaráðuneytinu.Þvert á móti gekk félagsmálaráðuneytið fram fyrir skjöldu í niðurskurðarherferðinni og var jafnvel á undan öðrum ráðuneytum í niðurskurði.Hvers vegna lá félagsmálaráðherra svona mikið á að skerða kjör aldraðra og öryrkja?Félagsmálaráðherra hefði ekki þurft að leita lengi annarra leiða til sparnaðar, ef hann hefði gert það.Í ljós hefði komið og í ljós kom,að 4 milljarðar "fundust" í auknum skerðingum tryggingabóta lífeyrisþega vegna meiri fjármagnstekna þeirra en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta er nánast sama upphæðin og nam niðurskurði  á lífeyri  aldraðra og öryrkja,sem leiðir í ljós,að niðurskurðurinn á lífeyri var óþarfur og má flokkast undir fljótfærni.Auk þess "fann" Steingrímur fjármálaráðherra 20 milljarða þar eð atvinnuleysi var minna en áætlað hafði verið og samdráttur þjóðarbúsins minni en reiknað hafði verið með. Eru þá ótaldir allir  þeir milljarðar ( 250 milljarðar) sem ríkið græddi þar eð það þurfti að leggja bönkunum til minna fé en áætlað hafði verið.Þessar tölur leiða í ljós,að það skipti ekki sköpum í sparnaði og niðurskurði að hafa af öldruðum og öryrkjum 4 milljaða. Þar hefur eitthvað annað búið að baki og verður  það rætt síðar.

Landssamband eldri borgara, 60 + stjórn eldri borgara í Samfylkingunni og fleiri aðilar hafa skorað á félagsmálaráðherra að afturkalla kjaraskerðinguna frá 1.júli og að veita öldruðum og öryrkjum sambærilega hækkun á lífeyri og launþegar hafa fengið á kaupi sínu á árinu.Þetta hefur ráðherra ekki gert enn. En þess verður að vænta að það verði gert um áramót. Það er ekki unnt að hækka laun launþega en lækka laun lífeyrisþega. Aldraðir og öryrkjar eiga sögulegan og lagalegan rétt á sambærilegri hækkun og launþegar hafa fengið.Jafnvel örgustu íhaldsstjórnir hafa ekki svipt lífeyrisþega þessum rétti.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband