Íslenskir neytendur svartsýnir

Íslenskir neytendur eru langt frá því að vera bjartsýnir á horfur í efnahags- og atvinnumálum nú í árslok samkvæmt Væntingavísitölu Gallup sem birt var í hádeginu. Annan mánuðinn í röð lækkar vísitalan sem að mati Greiningar Íslandsbanka bendir til þess að svartsýnin í garð efnahags- og atvinnuástandsins sé að aukast og ráði ríkjum á meðal íslenskra neytenda um þessar mundir. Í Morgunkorni bankans kemur fram að þetta er svipuð þróun og annars staðar.

„Þessi niðurstaða kemur eflaust fáum á óvart enda mjög erfitt ár að baki í efnahagslegu tilliti. Væntingavísitalan mælist nú í desembermánuði 34 stig og lækkar um rúm 10 stig milli mánaða," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar segir jafnfram að þrátt fyrir þessa miklu lækkun mælist gildi vísitölunnar nú nokkuð hærra en á sama tíma fyrir ári og er jafnframt svipað og það hefur verið að jafnaði frá hruni bankanna. Í desember í fyrra mældist vísitalan 25,3 stig og frá hruni bankanna hefur hún að meðaltali verið um 33 stig.

Þá eru allar undirvísitölur á niðurleið. „Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar lækkuðu á milli nóvember og desember sem bendir til þess að væntingar neytenda til núverandi ástands í efnahags og atvinnumálum jafnt og ástandsins eftir sex mánuði séu minni nú en fyrir mánuði síðan."

Í Morgunkorninu kemur jafnframt fram að þetta sé svipuð þróun og annars staðar. „Það eru ekki einvörðungu íslenskir neytendur sem hafa verið svartsýnir frá því að hin alþjóðlega fjármálakreppa skall á enda hefur hún vart látið nokkurn neytanda ósnertan."

Þannig hafi bandarískan væntingavísitalan náð sínu lægsta gildi í 28 ár í febrúar síðastliðnum og mældist hún þá 25,3 stig. Á undanförnum mánuðum hefur hún verið að sveiflast í kringum 50 stig. Því sé ljóst að þó dregið hafi úr svartsýni á meðal bandarískra neytenda þá eigi þeir enn langt í land að teljast bjartsýnir. Svipaða sögu sé að segja um þróunina á evrusvæðinu. Þar hafi væntingar neytenda náði lágmarki í mars síðastliðnum en hafa síðan þá aukist nokkuð.(visir.is)

Það kemur ekki  á óvart,að væntingarvísitalan hafi   lækkað.Í fyrsta lagi er ástandið ekki gott en við það bætist,að fjölmiðlar,einkum Mbl. eru með stanslausar fréttir um slæmt og versnandi ástand og góðar fréttir fá ekki mikið rúm í fjölmiðlum.

Björgvin Guðmundsson


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband