Ráðherrar Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins í hár saman!

Þeir Benedikt fjármálaráðherra og Bjarni forsætisráðherra eru komnir í hár saman opinberlega vegna krónunnar.Fjármálaráðherra skrifaði grein í Fréttablaðið í gær og sagði,að hann teldi,að krónan dygði ekki lengur.Það þyrfti að taka upp annan gjaldmiðil eða tengja krónuna við annan gjaldmiðil,t.d. evru í myntráði.Benedikt færði mörg rök fram fyrir nauðsyn þess að skipta um gjaldmiðil,m.a. að vextir væru alltof háir hér vegna krónunnar.Krónan sveiflaðist til og frá eins og best hefði sést undanfarið. Krónan skaðaði sjávarútveginn og ferðaiðnaðinn nú.Hún dygði ekki.Bjarni forsætisráðherra svaraði í sjónvarpsviðtali og sagði,að ríkisstjórnin væri ekki að fara að taka upp annan gjaldmiðil.Hann nánast sagði,að þetta væri bull í fjármálaráðherra.

Það mundi áreiðanlega ekki geta gerst í neinu öðru landi,að fjármálaráðherrann lýsti eigin gjaldmiðil ónýtan og forsætisráðherra setti ofan í við hann.Grein eins og sú,sem fjármálaráðherra skrifaði í gær, verður til þess að menn hætta að taka mark á honum.

Björgvin Guðmundsson


Vill,að Bretar gangi í EFTA.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vill,að Bretar gangi í EFTA,Fríverslunarsamtök Evrópu,þegar þeir fara úr Evrópusambandinu.EFTA eru fríverslunarsamtök,sem fella niður tolla á iðnaðarvörum og öllum helstu sjávarafurðum í viðskiptum milli aðildarlandanna en þau samræma ekki ytri tolla eins og ESB gerir.Auk þess er EFTA aðeins viðskiptabandalag en ekki einnig efnahagsbandalag eins og ESB. En ég tel þetta samt góða tillögu hjá utanríkisráðherra.Þetta er gott frumkvæði hjá ráðherra. En ég er ekki mjög bjartsýnn á,að Bretar samþykki  tillöguna.Þeim þykir þetta sjálfsagt skref til baka.Ég reikna ekki með, að það verði mikið vandamál fyrir Breta að fá einhvers konar fríverslunarsamning við ESB.Vandamálið verður að fá aðild að innri markaði ESB  en á því er mikil nauðsyn fyrir Breta vegna hins mikla fjármálamarkaðar,sem er í London og vegna allra stórfyrirtækjanna,sem þar eru staðsett.Ef þeir fá ekki aðild að innri markaði ESB má telja víst,að mörg stórfyrirtækja Breta muni flytja höfuðstöðvar sínar til ESB.Það yrði mikið áfall fyrir Breta og staðfesting á því,að þeir geti ekki staðið utan ESB.En það yrði mikil lyftistöng fyrir EFTA að fá Bretland í samtökin.

Björgvin Guðmundsson

 


Öryrkjabandalagið beitt hefndaraðgerðum!

Einn aðaltilgangur nýrra laga um almannatryggingar var að afnema svonefnda krónu á móti krónu skerðingu í almannatryggingum.Þetta var gert gagnvart öldruðum en ekki gagnvart öryrkjum.Hvers vegna ekki? Skýringin er þessi.Fyrrverandi ríkisstjórn (einkum Eygló og Bjarni) lögðu mikla áherslu á það,að Öryrkjabandalagið samþykkti, að tekið yrði upp svokallað starfsgetumat í stað læknisfræðilegs örorkumats.Öryrkjabandalagið var ekki tilbúið að samþykkja þetta starfsgetumat; taldi,að það þyrfti mikið lengri tíma og undirbúning til þess að  samþykkja slíka byltingu í örorkumati.Þáverandi félagsmálaráðherra,Eygló Harðardóttir,tók þessari andstöðu Öbi mjög illa.Er skemmst frá því að segja að vegna andstöðu Öbi við starfsgetumatið var bandalagið og öryrkjar allir beittir hefndaraðgerðum: Krónu móti krónu skerðingin var látin haldast gagnvart öryrkjum enda þótt hún væri afnumin gagnvart öldruðum!Þetta var fáheyrt og óheimil mismunun,hreint brot á stjórnarskránni.En við þetta stóð og stendur enn. Á heimasíðu Öbi má sjá nokkur dæmi þess hvernig krónu móti krónu skerðingin skerðir kjör öryrkja. Sýnt er hvernig tekjur af lífeyrissjóði,atvinnu og greiðslur dánarbóta skerða lífeyri hlutaðeigandi öryrkja um nákvæmlega sömu fjárhæðir og nemur greiðslum úr lífeyrissjóði,vegna atvinnu og dánarbóta. Þessar hefndaraðgerðir eru eins og við séum í gömlu Sovetríkjunum en ekki á Íslandi!

Björgvin Guðmundsson


Lífeyrissjóðirnir eiga að vera hrein viðbót við almannatryggingar!

 

 

 

Er í lagi að skerða lífeyri aldraðra frá almannatryggingum vegna þess að viðkomandi eldri borgari fær lífeyri úr lífeyrissjóði? Nei, það er ekki í lagi.Það er sambærilegt og  ef stjórnvöld færu beint inn í lífeyrissjóðina og tækju hluta þeirra traustataki.Sjóðfélagar,eldri borgarar, eiga lífeyrinn i lífeyrissjóðunum.Ekki má skerða hann, hvorki beint né óbeint.Lífeyrissjóðirnir áttu að vera viðbót við almannatryggingar.Það var grundvöllur stofnunar lífeyrissjóðanna, að svo yrði.Það var óskráð samkomulag um það.Stjórnvöld hafa rofið þetta samkomulag.Það er því engan veginn öruggt,að launafólk haldi áfram að greiða í lífeyrissjóð,15,5%. Það er há uphæð.Ef launafólk á að halda áfram að greiða i lífeyrissjóði, verður að hætta skerðingum.Það verður að hætta þeim strax. 

Aldraðir eiga inni tugi milljarða hjá ríkinu 

Búið er að stefna ríkinu vegna þess, að í janúar og febrúar á þessu ári skerti Tryggingastofnun  í  heimildarleysi  lífeyri eldri borgara    hjá almannatryggingum, ef þeir höfðu lífeyri úr lífeyrissjóði.Þarna tók ríkisvaldið 5 milljarða af öldruðum ófrjálsrrei hendi. Ég tel, að  þetta  sé gjörunnið mál.Síðan þarf einnig að stefna ríkinu vegna    skerðinga tryggingalífeyris á  undanförnum áratugum.Þar er ekki um að ræða eins gjörunnið mál, þar eð lítið finnst af skriflegum gögnum um það  hvaða áhrif lífeyrissjóðirnir ættu að hafa á réttindi aldraðra þar.Það er um tugi milljarða að ræða.Það eru gífurlega háar fjárhæðir,sem eldri borgarar telja sig eiga inni hjá ríkinu. 

Fyrri ríkisstjórn vildi,að aldraðir hefðu 185 þús á mánuði! 

Þegar nýtt frumvarp um  almannatryggingar var lagt fram 2016 var ekki gert ráð fyrr neinni hækkun lifeyris til þeirra,sem voru á „strípuðum“ lífeyri.Þeir áttu áfram að hafa 185 þúsund kr. á mánuði eftir skatt,ef þeir voru i hjónabandi eða sambúð og 207 þúsund á mánuði eftir skatt,ef þeir voru einhleypir.Allar „kjarabæturnar“ ,sem fyrri ríkisstjórn bauð upp á voru í formi minni skerðinga  tryggingalífeyris vegna greiðslna  úr lífeyrissjóði.En það voru ekki kjarabætur.Ef þú tekur fjármuni af eldri borgara og skilar síðan hluta þess til baka ertu ekki að veita honum kjarabætur.Það er líkara þvi, að verið sé að skila hluta af þýfi!1000 manna baráttufundur Félags eldri borgara í Reykjavik í Háskólabíó knúði fyrri ríkisstjórn til þess að breyta frumvarpinu og setja inn örlitlar kjarabætur til lægst launuðu lífeyrisþega. 

Skerðing verði stöðvuð strax! 

Krafa mín er þessi: Skerðing á lífeyri aldraðra hjá almannatryggingum verði strax stöðvuð og leiðréttingar veittar aftur í tímann.Ríkisvaldið er orðið vant því að veita afturvirkar launauppbætur.Það getur því eins veitt öldruðum þær.Mér er ljóst, að þessi leiðrétting kostar talsverða fjármuni.En það er ekki fyrirstaða. Það eru nógir peningar til í þjóðfélaginu.Og ríkið hefur sparað sér gífurlega fjármuni með því að skerða lífeyri aldraðra frá almannatryggingum áratugum saman.

 

Björgvin Guðmundsson

BirtíMbl.13.júlí 2017

www.gudmundsson.net

 

 

        

 


Algert tillitsleysi yfirvalda við aldraða!

 

                           Undanfarið hefur framkoma yfirvalda við eldri borgara verið  yfirgengileg.Það er ekki aðeins, að níðst hafi verið á kjörum aldraðra heldur hefur eldri borgurum á  höfuðborgarsvæðinu verið sýnt algert virðingarleysi og tillitsleysi. Nokkrir þeirra,sem hafa verið sjúklingar á Landspítalanum, hafa verið sendir á hjúkrunarheimili úti á landi, fjarri ástvinum sínum,einkum á Akranesi. Þetta er óviðunandi framkoma, þar eð í vissum tilvikum getur verið erfitt fyrir maka,sem yfirleitt eru á svipuðum aldri, að ferðast um göngin upp á Akranes. Sumir makarnir eru hættir að keyra. Það hefur ekki gerst áður, að eldri borgarar,sem  hafa verið að bíða eftir hjúkrunarrými, hafi verið sendir nauðugir,viljugir út á land.Ástandið í þessum efnum virðist verra en nokkru sinni fyrr,nú í uppsveiflunni. Þetta ástand leiðir athyglina að því hversu brýnt er orðið að skipa umboðsmann aldraðra.Slíkur umboðsmaður ætti að gæta hagsmuna aldraðra  ,í kjaramálum, í mannréttindamálum og í öðrum hagsmunamálum aldraðra.Umboðsmaður ætti að koma í veg fyrir, að aldraðir væru sendir „ nauðungarflutningum“ út á land.Í dag eru aldraðir varnarlausir.Stjórnendur Landspítalans og önnur yfirvöld beita eldri borgara þrýstingi og erfitt reynist að standast hann. Það er vissulega nóg að gera fyrir umboðsmann aldraðra.

Björgvin Guðmundsson

 


Almannatryggingar fyrsta stoð lífeyriskerfisins

 

 

 

Almannatryggingar voru stofnaðar 1946.Ríkisstjórn Alþýðuflokksins,Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins, svo kölluð nýsköpunarastjórn, kom tryggingunum á fót. Forsætisráðherra var Ólafur Thors,formaður Sjálfstæðisflokksins.Hann lýsti því þá yfir, að almannatryggingarnar ættu að vera fyrir alla, án tillits til stéttar eða efnahags.Og hann sagði, að almannatryggingarnar ættu að vera í fremstu rök slíkra trygginga í Vestur-Evrópu.Þetta voru skýr og ákveðin markmið. Almannatryggingarnar áttu því ekki að vera nein fátækraframfærsla.Þær áttu að vera fyrir alla.Almannatryggingarnar voru fyrsta stoð velferðar- og lífeyriskerfis á Íslandi. 

En ýmsir stjórnmálamenn á Íslandi hafa viljað breyta þessu.Þeir hafa viljað breyta almannatryggingum í einhvers konar fátækraframfærslu og eftir að lífeyrissjóðirnir efldust tala þeir um að  lífeyrissjóðirnr eigi að vera fyrsta stoð lífeyriskerfisins og almannatryggingar önnur stoðin.Einn þeirra, sem talar á þessum nótum, er félagsmálaráðherra Viðreisnar ,  Þorsteinn Víglundsson.En það hefur ekki verið samþykkt á alþingi, að lífeyrissjóðirnir eigi að vera fyrsta stoð lífeyriskerfisins.Upphaflegt markmið almannatrygginga er enn í fullu gildi.Almannatryggingar eiga að vera fyrir alla. Þeir,sem eru eldri borgarar í dag,byrjuðu að greiða til almannatrygginga 16 ára gamlir.Þá var lagt á sérstak t tryggingagjald, sem rann til almannatrygginga.Síðan greiddu þeir einnig til almannatrygginga gegnum skattakerfið.Þeir,sem greitt hafa til almannatrygginga alla sína starfsævi, eiga það inni að fá greitt úr almannatryggingum, þegar þeir fara á eftirlaun.En stjórnvöld felldu niður grunnlífeyrinn um síðustu áramót og strikuðu þar með 4500 manns út úr almannatryggingum.

Hvers vegna vilja misvitrir stjórnmálamenn, að lífeyrissjóðirnir verði fyrsta stoð lífeyriskerfisins en ekki almannatryggingar ? Það er vegna þess, að þeir vilja láta eldri borgara greiða sinn lífeyri sjálfa.Tölfræði sýnir,að nú þegar er það svo, að  eldri borgarar á Íslandi greiða meiri hluta lífeyris síns sjálfir gegnum lífeyrissjóðina og mun stærri hluta en gerist á hinum Norðurlöndunum.Samt leggur ríkið á Íslandi  miklu minna til almannatrygginga en gerist á hinum Norðurlöndunum. Og tekjutengingar eru miklu meiri  í tryggingakerfinu hér en gerist á hinum Norðurlöndunum.En hægri mönnum hér finnst ekki nóg að gert i þessu efni. Þeir vilja að eldri borgarar sjálfir greiði allan pakkann. 

Stórfelld skerðing á tryggingalífeyri þeirra eldri borgara,sem fá greiðslur úr lífeyrissjóði, er liður í því að koma allri eftirlaunabyrðinni yfir á eldri borgara sjálfa.Þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir var gert ráð fyrir því,að þeir yrðu viðbót við almannatryggingar.Það var ekki inni í myndinni, að þeir myndu valda skerðingu tryggingalífeyris.Það var óskráð samkomulag stjórnvalda og lífeyrissjóða að lífeyrissjóðirnir yrðu viðbót við almannatryggingar.Stjórnvöld hafa svikið þetta samkomulag með því að seilast bakdyramegin í lífeyrissjóðina.

                                                                 

 

Björgvin Guðmundsson

Birt í Fréttablaðinu 12.júlí 2017

www.gudmundsson.net

 

 

 

 

 

 

 

 


Yfir 600 greinar um kjaramál eldraðra á 14 árum

Á sl.14 árum hef ég skrifað yfir 600 greinar um kjaramál aldraðra.Fyrstu greinina skrifaði ég í desember 2003. Þar kom fram,að á tímabilinu 1995-2002 hefði kaupmáttur lágmarkslauna aukist um 44% en kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hefði aðeins aukist um 13,5%.Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sat þá að völdum. Ástandið í kjaramálum aldraðra var þá eins og nú.Það var níðst á kjörum aldraðra þá og það er níðst á kjörum aldraðra nú.Ég er stundum spurður að því hvort þessi kjarabarátta skili einhverjum árangri.Það er erfitt að svara því.Ég tel þó,að dropinn holi steininn. En margir leggja hönd á plóginn og erfitt er að segja,þegar einhver árangur verður hver á stærsta þáttinn í honum.Þetta er sameiginlegt átak margra. 2013 þegar grunnlífeyrir hafði verið endurreistur á ný hringdi til mín góður og gegn Sjálfstæðismaður og þakkaði mér fyrir,að grunnlífeyrir hafði verið endurreistur.Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík hafði barist fyrir því í mörg ár.Ég var formaður hennar og skrifaði auk þess margar blaðagreinar um málið.En fleiri lögðu hönd á plóginn.Nú hefur núverandi ríkisstjórn afnumið grunnlífeyrinn á ný.Kjarabarátta aldraðra og öryrkja verður að halda áfram þar til sigur er unninn.

Björgvin Guðmundsson


Er ekki röðin komin að öldruðum og öryrkjum?

Ein helsta röksemd kjararáðs fyrir miklum og afturvirkum hækkunum æðstu embættismanna ríkisins er sú,að þessir aðilar hafi ekki fengið eðlilegar hækkanir á krepputímanm.En lífeyrir aldraðra og öryrkja var frystur á krepputímanum á sama tíma og verkafólk fékk kauphækkanir.Röðin er því komin að lífeyrisþegum.Með því að kjararáð "leiðréttir" kjör embættismanna og stjórnmálamanna vegna kreppunnar ætti ríkisstjórnin að sjá sóma sinn í því að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja vegna kreppunnar.Ekki þýðir að minnast á hungurlúsina,sem aldraðir og öryrkjar fengu um áramót í  þessu sambandi en þá hækkaði lífeyrir giftra aldraðra um 12 þúsund kr á mánuði eftir skatt og lífeyrir einhleypra aldraðra hækkaði um 20 þúsund á mánuði eftir skatt.Sú hungurlús skiptir engu máli.Menn lifa ekki á 200 þúsund krónum á mánuði eftir skatt.

Björgvin Guðmundsson


Eldri borgarar fluttir "nauðungarflutningum" út á land!

Nýjasta úrræði heilbrigðisyfirvalda í góðærinu er að senda eldri borgara af Landspítalanum út á land til þess að losna við þá af Landspítalanum.Nokkrir hafa þegar verið fluttir á Akranes og stefnt er að því að flytja fleiri þangað.Hér er um að ræða eldri borgara,sem búsettir eru í Reykjavík eða nágrenni.Eins og framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík,Gísli Jafetsson,lýsti þessu í fjölmiðlum i gær er þetta ekkert annað en nauðungarflutningur.Eldri borgararni eiga ekkert val. Þeim er stillt upp við vegg og þeir nánast neyddir til þess að samþykkja flutning út á land.Ég tek undir með Gísla Jafetssyni,að þetta er algert virðingarleysi við eldri borgara.Þeir eru slitnir burtu frá ástvinum sínum,sem eiga eftir flutninginn erfitt með að heimsækja maka sinn,föður eða móður.Eldri borgarar,sem byggt hafa upp þetta þjóðfélag,eiga skilið betri meðferð en þessa.Það er yfirfljótandi í peningum í þjóðfélaginu í dag en samt er ekki unnt að koma sjúkum eldri borgurum fyrir á sjúkrastofnunum eða hjúkrunarheimilum í sinni heimabyggð.Forráðamenn Félags fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa komið með þá tillögu,að grípa til bráðabirgðaráðstafana vegna skorts á hjúkrunarrýmum og breyta eldra húsnæði í hjúkrunarrými.Það er eina leiðin úr því að Framkvæmdasjóður aldraðra er ekki notaður í samræmi við sín upphaflegu markmið heldur er 2/3 fjármagns sjóðins ráðstafað í rekstur en allt fjármagnið átti að fara í byggingu hjúkrunarheimila.

Björgvin Guðmundsson


Framkvæmdasjóður aldraðra átti eingöngu að fjármagna byggingu hjúkrunarheimila

Við Albert Guðmundsson stórkaupmaður sátum saman í borgarstjórn Reykjavíkur i nokkur ár.Við áttum þar gott samstarf enda þótt við værum í sinn hvorum flokki; í ólíkum llokkum.Mikið var rætt um hjúkrunarvanda aldraðra á þessum tíma.Það vantaði sárlega hjúkrunarrými fyrir aldraða en  einnig vantaði sjúkrarými fyrir langlegusjúklinga og aldraða. Ég beitti mér mjög fyrir byggingu B-álmu Borgarspítalans fyrir aldraða og langlegusjúklinga.Albert Guðmundsson átti hugmyndina að stofnun Framkvæmdasjóðs aldraðra,sem  fjármagna mundi byggingu hjúkrunarheimila og opinberaði hana í borgarstjórn.Hann vildi að allir skattgreiðendur greiddu ákveðið gjald,sem rynni til byggingar hjúkrunarheimila.Ekki átti að nota peningana í neitt annað.Og þannig var það í  nokkuð langan tíma. En stjórnmálamenn gátu ekki látið sjóðinn í friði og fóru að seilast í hann og nota í önnur verkefni svo sem rekstur hjúkrunarheimila,sem er víðs fjarri upphaflegu markmiði sjóðsins.Nú er svo komið,að eingöngu 30% framkvæmdasjóðs fer í byggingu hjúkrunarheimila.Stjórnmálamennirnir hafa tekið 70% traustataki og nota í ýmis konar rekstur.Það gengur í berhögg við upphaflegt markmið sjóðsins.Það er krafa eldri borgara,að allt fjármagn framkvæmdasjóðs renni óskipt til byggingar hjúkrunarheimila.

 

 

Björgvin Guðmundsson

www.gudmundsson.net


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband