Færsluflokkur: Bloggar

Bretar misreiknuðu Brexit

 

Bretar virðast hafa misreiknað Brexit,útgönguna úr ESB.Þeir hafa haldið,að þeir gætu fyrirstöðulaust verið í Evrópska efnahagssvæðinu ( EES) þó þeir færu  úr ESB. En svo er ekki. EES er samband ESB og EFTA.Það getur enginn verið í EES nema vera í öðru hvoru bandalaginu.Ef til vill munu þeir sækja um undanþágu en ég er ekki viss um,að hún fáist.Og ef svo ólíklega færi að þeir fengju undanþágu til þess að vera í EES þyrftu þeir áfram að samþykkja frjálsan flutning vinnuafls og frjálsa för fólks innan EES en  það var einn megin tilgangur Breta með úrsögn að minnka aðstreymi vinnuafls og fólks frá ESB til Bretlands.

Lilja Alfreðsdóttir alþingismaður gerði það að umtalsefni á alþingi,að  utanríkisráðherra og formaður utanríkismálanefndar væru ekki sammála í utanríkismálum.Formaður utanríkismálanefndar,Jóna Sólveig Elína, hefði sagt í viðtali við  fréttavef Washington Times, að EFTA dygði ekki lengur til þess að tryggja hagsmuni Íslands.En í stjórnarsáttmálanum segði,að ríkissjórnin mundi byggja samstarf við ESB á samningnumn um EES!

Björgvin Guðmundsson


Nýja stjórnin gerir ekkert í kjaramálum aldraðra og öryrkja

Það er ljóst,að nýja ríkisstjórnin gerir ekkert í kjaramálum aldraðra og öryrkja.Björt framtíð og Viðreisn töluðu mikið um það fyrir kosningar,að þessir flokkar vildu bæta stöðu aldraðra en ekkert hefur verið gert í því efni og ekki bólar á að neitt verði gert. Það eina,sem hefur verið gert er að setja ný lög um skerðingu lífeyris vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Með  þeirri lagasetningu eru kjör aldraðra skert um 5 milljarða á síðustu 2 mánuðum. En ekki var heimild í eldri lögum til þess að skerða; það hafði fallið niður að gera ráð fyrir heimild til skerðingar.Nýja stjórnin var fljót að setja inn skerðingarákvæði en hún er ekki eins fljót að gera eitthvað sem bætir kjör aldraðra og öryrkja. Staða þeirra versnaði frá áramótum,þar  eð þá lækkaði frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra úr 109 þúsund kr á mánuði í 25 þús kr á mánuði. Nýi félagsmálaráðherrann þykist ætla að gera eitthvað í því máli en hann segir,að það verði gert einhvern tímann á kjörtímabilinu.Það verður ekki eins mikill hraði á því eins og að setja inn skerðingarákvæði.

Ef einhver manndómur hefði verið í nýju stjórninni hefði hún strax sett lög til þess að bæta kjör þeirra,sem verst eru staddir meðal aldraðra og öryrkja með því að hækka lífeyri þeirra,svo hann væri nægur til framfærslu. En það er enginn manndómur í stjórninni og Sjálfstæðisflokkurinn ræður ferðinni. Björt framtíð og Viðreisn ráða litlu sem engu.

Björgvin Guðmundsson


Ófremdarástand í húsnæðismálum

Ófremdarástand ríkir í húsnæðismálum um þessar mundir.Íbúðarverð hefur stórhækkað og húsaleiga Hefur einnig hækkað mikið.Ungt fólk getur ekki keypt íbúð,þar eð það á ekki fyrir útborgun.Einnig er erfitt fyrir fólk að leigja.Þetta hefur valdið því að fleiri búa á Hótel Mömmu en áður.ASÍ stofnaði byggingarfélag,sem byggja á  leiguíbúðir.Um það var samið ï kjarasamningum 2016.Hið opinbera styrkir þessar byggingarframkvæmdir með 30% stofn framlagi,18% frá ríkinu og 12% frá sveitarfélögum.Félagið mun byggja 1150 íbúði á 4 árum í fjölbýli.Það verður byggð ein blokk í hverjum mánuði.Framkvæmdir eru að hefjast. þetta á að hjálpa en

 ekki nóg,þar  það vantar a.m.k 10.000 íbúðir.Opinberir aðilar hafa ekki verið nógu vel vakandi í húsnæðismálum.Það er til dæmis ekki ein setning um húsnæðismál í stjórnarsáttmálanum. Reykjavikurborg hefur stuðlað að byggingu leiguíbúða með úthlutun lóða undir slíkar íbúðir.Borgin vill þêtta byggðina og segir að unga fólkið vilji búa miðsvæðis og geti þá jafnvel sparað sér bilakaup..-Fjárfestingarfélög hafa keypt upp mikið húsnæði í Reykjavík og leigt út á háu verði.Hafa þessi félög spennt upp leigumarkaðinn.Frjálsræðið hefur marga galla i för með sér. Ef til vill þarf að reisa skorður við starfsemi þessara fèlaga á húsnæðismarkaði,alla vega þurfa opinberir aðilar að gera stærra átak í húsnæðismálum.Ekki er nóg að gert.

Björgvin Guðmundsson


Lífeyrissjóðir: Eigum við að taka upp blandað kerfi?

Ég hef lagt fram þá tillögu að við tökum upp blandað lífeyrissjóðskerfi,þ.e. að við verðum bæði með uppsöfnunarkerfi eins og nú en einnig gegnumstreymiskerfi.Aðeins lítill hluti verði í gegnumstreymiskerfi. Á hinum Norðurlöndunum er blandað kerfi í gildi.Ég legg þetta til,þar eð ekki er að sjá að stjórnvöld ætli að falla frá skerðingu lífeyris frá TR vegna lífeyrissjóðanna.Margir íslenskir fræðimenn hafa fjallað um gegnumstreymiskerfið svo sem Gunnar Tómasson hagfræðingur og Már Guðmundsson Seðlabankastjóri en Már skrifaði grein um málið,þegar hann var aðalhagfræðingur Seðlabankans.Í fljótu bragði virðist mér,að ávöxtun af báðum kerfunum sé svipuð.

 

Björgvin Guðmundsson


Laun hækkað 2,6 sinnum meira en lífeyrir öryrkja og aldraðra!

  

Teitur Björn Einarsson nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði við umræður á alþingi um kjör öryrkja,að kaupmáttur öryrkja hefði vaxið jafnt og þétt.Það kann að vera rétt.En spurningin er hvort hann hafi aukist eins mikið og hjá launafólki.Að mínu mati á að bæta kjör öryrkja og aldraðra jafnmikið og kjör launafólks og helst meira,þar eð kjör þessara hópa eru það léleg.

Benedikt Jóhannesson,Talnakönnun ( nú fjármálaráðherra) kannaði þessi mál fyrir öryrkja.Niðurstaðan var þessi: Lágmarkslaun hækkuðu um 54% á tímabilinu 2008-2013.En örorkulífeyrir hækkaði aðeins um 29% á sama tímabili.Neysluverð hækkaði á þessu tímabili um 42,8% og meðalvísitala um 33%.Hækkun lífeyris náði ekki launavisitölu.Samkvæmt lögum má lífeyrir aldrei hækka minna en neysluverð. Benedikt athugaði einnig tímabilið 2009-2013.Þá hækkaði neysluverð um 20,5% en meðaltekjur öryrkja eftir skatt um 4,1%.Bilið var rúm 15 prósent.Meðaltekjur öryrkja fyrir skatt hækkuðu um 4,7% á þessu tímabili.Launavisitala hækkaði á tímabilinu um 23,5%. Niðurstaða Benedikts var þessi: Kaupmáttarskerðing öryrkja er mikil.

Á þessu timabili hækkuðu lægstu laun tvöfalt meira en örorkulífeyrir.

Hefur þróunin verið hagstæðari öryrkjum síðan? Nei,öðru nær. Á árinu 2015 urðu miklar kaupækkanir hjá flestum stéttum;launafólk fékk 14,5% hækkun lágmarkslauna 1.mai það ár,kennarar fengu miklar launahækkanir,framhaldsskólakennar 44%,nýlæknar fengu 25% hækkun og læknar almennt yfir 40% hækkun og þannig mætti áfram telja. En á þessu ári mikilla launahækkana fengu öryrkjar og aldraðir 3% hækkun lífeyris.Sama þróun hélt því áfram. Árið 2016 hækkuðu lágmarklaun verkafólks um 6,2% 1.janúar og um 5,5% í mai.En lífeyrir aldraðra og öryrkja hækkaði um 9,7% 1.janúar og ekki meira allt árið ;sama þróun og áður að hækkun lífeyris nær ekki hækkun launa þó skýrt sé kveðið á um það í lögum að hækkun lífeyris eigi að fylgja launum eða verðlagi eftir því hvort hagstæðara sé öldruðum og öryrkjum.

Á tímabilinu 2009-2016 hækkuðu lágmarkslaun um 68% en lífeyrir aldraðra og öryrkja frá almannatryggngum hækkaði á sama tíma um 26% eftir skatt.Af þessum tölum má sjá,að stjórnvöld hafa stundað það enn að halda kjörum aldraðra og öryrkja niðri í samanburði við kjör launafólks.Áður sýndu tölur að lægstu laun hækkuðu 2-sinnum meira en lífeyrir en nú kemur í ljós,að lægstu laun hafa hækkað 2,6 sinnum meira en lífeyrir öryrkja og aldraðra (miðað við lífeyri eftir skatt).Þetta er alger svívirða.Þingmenn ættu fremur að snúa sér að því að leiðretta þetta í stað þess að dásama „kaupmáttaraukningu lífeyris“ á liðnum tíma.Það er ágætt að kaupmáttur aukist en það er enn mikilvægara að hækka lífeyri þannig að hann dugi til framfærslu og öryrkjar og aldraðir,sem verða að reiða sig eingöngu á lífeyri almannatrygginga geti leyst út lyfin sín og farið til læknis.Það er mikilvægt verkefni þingmanna að tryggja,að svo geti orðið.Þingmenn þurfa ekki að bíða eftir leyfi ráðherra til þess að tryggja það.

Björgvin Guðmundsson


4500 aldraðir missa grunnlífeyri almannatrygginga!

Um síðustu áramót var grunnlífeyrir almannatrygginga felldur niður.Við það misstu 4500 eldri borgarar lífeyri sinn hjá almannatryggingum.Þeir voru strikaðir út úr kerfi almannatrygginga; fá ekki krónu þar.Grunnlífeyrir hafði alltaf verið heilagur; hann var ekki skertur vegna greiðslna úr lífeyrissjóði (nema að hluta til á kreppuárunum).Félag eldri borgara i Reykjavík barðist harðlega gegn skerðingu grunnlífeyris í tíð ríkisstjórnar VG og Samfylkingar.Grunnlífeyrir var endurreistur eftir kosningarnar 2013.En það stóð ekki lengi.Grunnlífeyrir var felldur alveg niður um síðustu áramót. Félag eldri borgara gagnrýndi þetta harðlega.En allt kom fyrir ekki. 4500 eldri borgarar voru strikaðir út úr almannatryggingum þó þeir hefðu borgað tryggingagjald og skatta alla sína tíð og hafi átt rétt á lífeyri frá TR.Því var lýst yfir þegar almannatryggingar voru stofnaðar 1946 að þær ættu að vera fyrir alla án tillits til stéttar eða efnahags.En það er búið að svíkja það.

Björgvin Guðmundsson


Finna verður nýja leið til þess að tryggja,að aldraðir njóti allra réttinda sinna í lífeyrissjóðum

 

   

 

Íslensku lífeyrissjóðirnir eru orðnir gífurlega sterkir.Eignir þeirra nema orðið yfir 3500 milljörðum  króna.En hvernig stendur á því að sjóðfélagar ,þeir sem byggt hafa upp sjóðina, njóta ekki betur styrkleika sjóðanna? Það er vegna þeirrar miklu skerðinga,sem ríkið og alþingi hefur ákveðið að framkvæma gagnvart sjóðfélögum. Enda þótt það kæmi skýrt fram, þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir, að þeir ættu að vera viðbót við almannatryggingar vantar mikið á, að svo sé.Lífeyrissjóðirnir valda miklum skerðingum á lífeyri sjóðfélaga úr almannatryggingum.Það er með öðrum orðum gert þveröfugt við það, sem var yfirlýst markmið, þegar sjóðirnir voru stofnaðir.

  Stjórnvöld,hver sem þau eru, standa föst gegn því, að sjóðfélagar fái að njóta lífeyrissparnaðar sins að fullu.Þau virðast staðráðin í því að skerða lífeyrinn gegndarlaust. Þetta sást vel á fyrstu 2 mánuðum yfirstandandi  árs.Enda þótt engin heimild væri í nýjum lögum um almannatryggingar  fyrir því að skerða lífeyri aldraðra hjá TR vegna greiðsna úr lífeyrissjóði var skerðing framkvæmd ei að síður i algeru heimildarleysi.Það er orðnn „kækur“ stjórnvalda að skerða lífeyri eldri borgara.Þau teja sig ekki þurfa lagaheimld til þess! Hvað er til ráða? Sennilega er ekkert til ráða annað en að borga hluta af lífeyrissparnaðinum beint til sjóðfelaga; þ.e. að gera lífeyrissjóðina að hluta til að gegnumstreymissjóðum. Þetta er róttæk tillaga, nánast byltingarkennd. En ég kem ekki auga á neina aðra leið vegna þvermóðsku stjórnvalda. Launþegar,sjóðfélagar verða að krefjast þess,að hluti lífeyrissjóðssparnaðar  verði greiddur beint til sjóðfélaga, í byrjun.Sjóðfélagar njóta þá þess hluta sparnaðar síns strax úr því þeir fá ekki að njóta hans að fullu ,þegar þeir eru komnir á eftirlaun.Sennilega yrði að semja um þessa breytingu við atvinnurekendur.

Undanfarið hefur ávöxtun lífeyrissjóðanna verið mjög góð. Hún var 7,2% 2014. Réttindi sjóðfélaga voru ekkert skert undanfarin ár en eftir bankahrunið töpuðu lífeyrissjóðirnir svo miklu ( yfir 500 milljörðum) að margir lífeyrissjóðir skertu lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga sinna verulega. Lífeyrissjóðirnir mega nú ávaxta fé sitt erlendis en auk þess eiga þeir orðið gifurlega mikið i innlendum fyrirtækjum.Er nú svo komið,að Bjarni forsætis er farinn að lýsa áhuggjum sínum af því hvað lífeyrissjóðirnir eigi mikið í innlendum atvinnurekstri!

Nauðsynlegt er að breyta stjórnarkjöri í lífeyrissjóðunum.Í dag er það  verkalýðshreyfingin og  samtök atvinnulífsins sem skipa fulltrúa í stjórnir  lífeyrissjóðanna. Þetta er úrelt fyrirkomulag og ekki í samræmi við breytta tíma. Það á að láta sjóðfélaganna sjálfa kjósa fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóðanna.Annað er gerræði.Sjóðfélagar eiga lífeyrinn í lífeyrissjóðunum.

Björgvin Guðmundsson

 


Eldri borgarar vilja,að almannatryggingalögin verði leiðrétt;þau skerða rétt aldraðra í dag

 

 

Velferðarnefnd alþingis boðaði fulltrúa Félags eldri borgara í Reykjavík og fulltrúa Landssambands eldri borgara á sinn fund til þess að ræða breytingu á lögunum um almannatryggingar vegna klúðurs við samþykkt laganna í oktober 2016.Á fundinum sögðu talsmenn FEB í Rvk að  lögin um almannatryggingar og frumvarpið um leiðréttingu fælu í sér annmarka,sem skertu rétt eldri borgara með einum og öðrum hætti.Fulltrúar FEB komu því til skila,að leiðrðétta þyrft lögin af framangreindum ástæðum. Þeir vildu að lögin í heild yrðu leiðrétt um leið og klúðrið væri lagfært en svo varð ekki.

 Eldri borgarar hafa gagnrýnt það harðlega, að frítekjumark vegna atvinnutekna skyldi skert með nýjum lögim og lækkað úr 109 þúsund krónum á mánuði í 25 þúsund krónur á mánuði.Þetta gerðist um leið og síðasta ríkisstjórn lýsti því yfir,að það væri eitt helsta markmið nýrra laga um almannatryggingar að greiða fyrir atvinnuþátttöku eldri borgara.Eftir,að nýju lögin hafa tekið gildi hljómar þetta eins og brandari : Ríkisstjórnin gerði þveröfugt við það sem hún boðaði.Nýja ríkisstjórnin hefur enn ekki áttað sig á því,að þetta sé vandamál. Hún er ekkert að flýta sér að leiðrétta þetta.Nýi félagsmálaráðherrann sagði, að þetta yrði leiðrétt einhvern tímann á kjörtímabilinu. En það á að leiðrétta þetta strax, þ.e. í næstu viku.

 Eldri borgarar vilja losna við allar skerðingar en fyrir utan afnám skerðinga vegna atvinnutekna er brýnt að  afnema skerðingar vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Eldri borgarar,sem greitt hafa í lífeyrissjóð á starfsævi sinni fengu innsýn  í það undanfarið hvað ríkið og tryggingastofnun er að hafa mikið af þeim með skerðingum.Það kom í ljós,að  með skerðingum, með því að velta fjárhagsvanda ríkis yfir á eldri borgara sparar ríkið  sér 2,5 milljarða króna á mánuði.Ríkið eða Tryggingastofnun hafði ekki lagaheimild í janúar og febrúar, til þess að skerða lífeyri aldraðra um þessar fjárhæðir en gerði það samt.Þegar einhver brýst inn í verslun og tekur peninga,sem hann á ekki, heitir það þjófnaður.En heitir það eitthvað annað ef ríkið eða Tryggingastofnun tekur fjármuni af eldri borgurum án lagaheimildar? Svari hver fyrir sig.Hér er um talsverða fjármuni að ræða eða 30 milljarða á einu ári. Eldri borgara munar um þessa fjárhæð.Þeir þurfa að fá hana.Þeir eiga rétt á henni. Ríkisvaldið ætti að eigin frumkvæði að endurgreiða öldruðum þessa 5 milljarða,sem það tók ófrjálsri hendi af eldri borgurum.Það mundi bæta samskiptin milli aldraðra og ríkisvaldsins..

Björgvin Guðmundsson


Algert virðingarleysi gagnvart eldri borgurum!

Alþingi samþykkti ný lög um almannatryggingar í lok þings síðasta haust en þinginu lauk í byrjun oktober vegna þingkosninga í lok oktober.Samþykktur var nýr lagatexti fyrir Tryggingastofnun og samkvæmt honum átti ekki að skerða lífeyri eldri borgara hjá almannatryggingum vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Skerðingarákvæðið féll út.Valdhafarnir segja,að það hafi verið mistök.En síðan eru liðnir rúmir 5 mánuðir.Gamla ríkisstjórnin var við völd í rúma 3 mánuði eftir að þingið afgreiddi lögin um almannatryggingar.Það þarf enginn að segja mér ,að enginn úr stjórnarliðinu,hvorki stjórnmálamaður né embættismaður  hafi tekið eftir því á öllum þessum tíma, að það var engin heimild í nýjum lagatexta um almannatryggingar til þess að skerða lífeyri eldri borgara frá TR.Ef þingmenn stjórnarliðsins hafa verið blindir á lagatextann hafa  a.m.k. fulltrúar velferðarráðuneytisins og TR  tekið eftir því,að í lagatextanum var ekki heimild til þess að skerða lífeyri eldri borgara frá TR.En hvers vegna var þetta þá ekki leiðrétt strax? Svarið er einfalt: Það var vegna virðingarleysis fyrir lagatextanum og vegna virðingarleysis fyrir eldri borgurum.Valdhafarnir,stjórnmálamenn og embættismenn, töldu sig geta komið fram við eldri borgara eins og þeir væru réttlausir.Þeir töldu sig geta skert lífeyri eldri borgara af gömlum vana þó engin heimild væri til þess í nýjum lögum um almannatryggingar.Og það var þetta sem þeir gerðu.Þeir skertu lífeyri aldraðra í 2 mánuði án heimildar,þ.e. um 5 milljarða króna.En til þess að kóróna ósómann var látið svo sem greitt hefði verið samkvæmt lögunum,þ.e. án skerðingar en sagt: Þið þurfið ekkert að greiða til baka. Það var beitt blekkingum.Ég tel þetta hámark ósómans.Þetta er hámark virðingarleysis gagnvart eldri borgurum og gagnvart þegnunum.Hvers vegna var þingið ekki kallað saman strax í byrjun janúar,ef nauðsynlegt var að leiðrétta lagatextann? Var það of óþægilegt fyrir þingmenn? Ef villa hefði varðað launafólk almennt,alla á almennum markaði eða alla opinbera starfsmenn þá hefði þingið verið kallað saman til þess að " leiðrétta" .En það var ekki kallað saman,þegar eldri borgarar áttu í hlut.M.ö.o.: Algert virðingarleysi fyrir eldri borgurum.

Björgvin Guðmundsson


Viðskiptavinir Tryggingastofnunar beittir blekkingum!

 

Eldri borgari nokkur fór á skrifstofur Tryggingastofnunar og leitaði skýringa eftir að hann hafði hlustað á umræður á alþingi um að gerð hefðu verið mistök á alþingi við afgreiðslu lagatexta um almannatryggingar.Fallið hefði út að gera ráð fyrr skerðingu lífeyris TR vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Eldri borgarinn hafði hug á að vita hvort ætlunin væri að láta hann borga til baka hluta af lífeyrinum sem hann hefði fengið vegna mistaka alþingis.Tryggingastofnun sagði við manninn: Nei,þú þarft ekkert að borga til baka. En stofnunin kom ekki hreint fram við eldri borgarann og sagði:Þú þarft ekki að borga til baka,þar eð við skertum lífeyri þinn strax frá áramótum þó ekki væri komin heimild frá alþingi til þess að skerða lífeyrinn.Eldri borgarinn var blekktur. Og mig grunar,að allir eldri borgarar hafi verið beittir blekkingum.Það er alltaf verið að segja við eldri borgara síðustu daga: Þið þurfið ekki að borga til baka.En það er aldrei sagður allur sannleikurinn.Það er beitt blekkingum.

Björgvin Guðmundsson

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband