Færsluflokkur: Bloggar

Lífeyrir aldraðra langt undir opinberum neysluviðmiðum!

 

 

 

Harpa Njáls  félagsfræðingur flutti erindi hjá Félagi eldri borgara í Rvk  21.nóvember sl. Hún varpaði fram spurningunni: Dugar lífeyrir almannartrygginga til mannsæmandi lífskjara? Hún svaraði spurningunni neitandi. Hún rakti öll þau neysluviðmið,sem  opinberir  aðilar hafa samið.Hún sagði,að velferðarráðuneytið hefði kynnt þrjú neysluviðmið 2011.Þau eru þessi: Dæmigert viðmið, grunnviðmið og skammtímaviðmið. Það siðastnefnda notar umboðsmaður skuldara í sínum útreikningum og nefnir framfærsluviðmið. Dæmigert viðmið byggist á gagnasafni neyslukannana Hagstofunnar, rannsókn Hagstofu  á útgjöldum heimilanna; sú rannsókn sýni  meðaltalsútgjöld heimila og einhleypinga í landinu.Harpa Njáls segir,að ætla megi, að dæmigert viðmið sé raunhæft viðmið til mannsæmandi lífskjara. Það er í samræmi við þá skoðun, sem ég hef sett fram hér, að neyslukönnun Hagstofunnar sé eðlilegur grundvöllur lífeyris aldraðra og öryrkja frá TR nú, þ.e. 400 þús kr á mánuði fyrir skatt eða 320 þúsund eftir skatt.Það eru allt aðrar tölur en þær sem ríkisstjórnin hefur samþykkt í nýjum lögum um almannatryggingar.En þar er kveðið á um , að lifeyrir skuli vera 227 þúsund kr á mánuði fyrir skatt hjá hjónum og sambúðarfólki en 280 þúsund á mánuði hjá einhleypum 2017  ( 195 þúsund og 227 þúsund á mánuði eftir skatt) Þessi munur, sem er á lífeyrinum eftir þvi hvort aldraður er einhleypur eða býr með öðrum er óeðlilega mikill og hefur ekki verið svona mikill áður. Þarna eru einhverjar kúnstir í gangi hjá ríkisstjórninni. Munurinn á lífeyrinum var áður 34 þúsund krónur en á að vera 53 þúsund kr á mánuði frá áramótum.Það er algerlega óeðlilegt og engin skýring hefur fengist á því tiltæki.Helst má ætla, að ríkisstjórnin sé að spara það að hækka lífeyrinn jafnmikið hjá þeim giftu eins og hjá einhleypum.Þetta er óeðlileg mismunun og spurning hvort hér er ekki um mannréttindabrot að ræða.

En hvernig  má það vera, að ríkisstjórnin skuli láta alþingi samþykkja miklu lægri lifeyri fyrir aldraða en dæmigert viðmið velferðarráðuneytisins og  einnig neyslukönnun Hagstofnnar segir til  um. Ríkisstjórnin samþykkir lífeyri fyrir aldraða, sem er langt undir opinberum neysluviðmiðum velferðarráðuneytis og Hagstofunnar.Það er engu líkara en stjórnvöld séu vísvitandi að ákveða upphæð lífeyris, sem mun halda öldruðum og öryrkjum  áfram við fátæktarmörk.Þar sem þessi neysluviðmið liggja fyrir verður ekki sagt, að ríkisstjórnin hafi ekki vitað hvað væri eðlilegt til sómasamlegrar framfærslu. Það liggur fyrir en samt ákveður  ríkisstjórnin að halda lífeyri aldraðra og öryrkja langt fyrir neðan þessi viðmið.Þetta er hrein skemmdarstarfsemi.Það er ekki unnt að kalla þetta neitt annað.

Björgvin Guðmundsson

pistlahöfundur

www.gudmundsson.net


Stjórnvöld erlendis eru jákvæð í garð eldri borgara!Hér eru þau neikvæð!

Fulltrúar samtaka eldri borgara á Íslandi,sem farið hafa í heimsókn til slíkra samtaka í Danmörku,hafa verið hissa á því hvað stjórnvöld þar í landi hafa verið jákvæð í garð eldri borgara.Þar leggja stjórnvöld sig fram um að bæta kjör og aðstöðu eldri borgara.Hér eru stjórnvöld mjög neikvæð i garð eldri borgara og raunar í garð öryrkja líka.Hér kostar það langa og harða baráttu sð knýja fram einhverjar kjarabætur og loks þegar stjórnvöld  hér láta undan þurfa aldraðir og öryrkjar að bíða mánuðum saman eftir að kjarabæturnar taki gildi enda þótt á sama tíma sé verið að láta embættismenn hins opinbera,alþingismenn og ráðherra fá miklar kauphækkanir,sem ekki þarf að bíða eftir í einn dag.Þær taka gildi strax og gilda stundum marga mánuði til baka.Þetta er gróf mismunun.Eðlilegra væri að þetta væri öfugt: Aldraðir og öryrkjar ættu að fá hækkanir sínar strax og jafnvel til baka en hinir,sem eru hálaunaðir gætu fremur beðið í nokkra mánuði.

Þannig er þetta núna.Alþingi samþykkti á síðasta starfsdegi sínum áður en þvi var slitið  ný lög um almannatryggingar,sem gera ráð fyrir örlítilli hækkun á lífeyri,hungurlús,sem ég hef kallað svo.Eðlilegast hefði verið að þessi litla hækkun hefði tekið gildi strax en  því er nú öðru nær.Hækkunin tekur ekki gildi fyrr en um næstu áramót og raunar er hækkuninni skipt í tvennt,helmingur kemur til framkvæmda 2017 en helmingur 2018.

Upphaflega ætlaði félagsmálaráðherra að  vísu ekki að láta lífeyri aldraðra og öryrkja hækka neitt.Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir óbreyttum lífeyri hjá þeim,sem einungis hefðu lífeyri frá almannatryggingum.Þegar ráðherra var spurður um það atriði á alþingi sagði hún: Það eru svo fáir á "strípuðum" lífeyri.Þarna kom neikvæðnin fram.Ég skrifaði þá: Þó það væri ekki nema einn lífeyrisþegi,sem ekki hefði nóg fyrir mat væri það einum of mikið. En það voru 5000. Og það hefur margtoft komið fram,að lífeyrir aldraðra og öryrkja dugar ekki fyrir framfærslukostnaði.Þó er dregið að leiðrétta hann.Það var ekki fyrr en eftir hávær mótmæli eldri borgara ,að ríkisstjórnin lét undan i þessu efni.En ekki ein króna af hækkuninni hefur verið greidd út enn og verður ekki greidd fyrir jól!.Stjórnvöld telja ekkert liggja á enn.Ráðherrarnir hafa sjálfir fengið sínar miklu hækkanir.Það dugar þeim.

 

Björgvin Guðmundsson


Píratar fá umboð til stjórnarmyndunar

Forseti Íslands,Guðni Th.Jóhannesson,veitti Birgittu Jónsdóttur,formanni þingflokks Pirata,umboð til myndunar ríkisstjórnar i gær.Mér kom það ekki á óvart þó ég reikni með því,að margir flokkar,.t.d. Sjálfstæðisflokkurinn, hafi mælt gegn því,að Piratar fengju umboðið.Mikil tortryggni hefur ríkt hjá hinum flokkunum í garð Pirata.Sumir "gömlu" stjórnmálamannanna líta á Pirata eins og holdsveika,sem best sé að koma ekki nálægt.Þetta stafar sumpart af öfund en sumpart af því,að Piratar eru ekki hefðbundinn stjórnmálaflokkur.Þeir eru allt öðru visi flokkur en allir hinir og fara eigin leiðir,beita nýjum vinnubrögðum.

Það er mjög eðlilegt,að Piratar fengju umboðið nú,þar eð þeir eru 3.stærsti flokkurinn og  miðað við þingstyrk eru þeir næststærsti flokkurinn með 10 þingmenn eins og VG.Fólk gleymir því oft,að þeir eru með jafnmarga þingmenn og VG.Dregið hefur úr tortryggni í garð Pirata eftir því sem flokkar og fólk hefur kynnst þeim betur.Ég hef kynnt mér stefnu Pirata og mér líst vel á hana. Þeir eru t.d með bestu stefnuna í málefnum aldraðra og öryrkja;eru eini flokkurinn,sem vill afnema alveg skerðingar tryggingalífeyris vegna lífeyrissjóðsgreiðslna eða annarra tekna.Piratar vilja setja aflaheimildir á uppboðsmarkað og fisk á markað eins og Samfylking og Viðreisn vilja og þeir vilja lögfesta nýju stjórnarskrána,sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012.Þetta eru allt róttæk og góð mál,sem hvaða félagshyggjuflokkur,sem er gæti verið fullsæmdur af. Samkomulag er komið hjá 5-flokknum um stjórnarskrána.Engin breyting verður á stjórnarskránni,ef Sjálfstæðisflokkurinn verður i stjórn.

Ég er bjartsýnn á að Piratar nái árangri í að koma á samkomulagi 5-flokksins  um ríkisstjórn.Það er besti kostur félagsghyggjumanna.Glutrum ekki því tækifæri niður.

Björgvin Guðmundsson


Gróf mannréttindabrot á öryrkjum!

Lífeyrisþegi hringdi í Tryggingastofnun og spurði um frítekjumark  vegna atvinnutekna.Svarið var: 109 þúsund kr á mánuði.En það vantaði í svarið,að þetta frítekjumark gildir aðeins til áramóta( í einn mánuð).En þá tekur gildi nýtt frítekjumark,kr. 25000 kr. á mánuði.En það frítekjumark gildir ekki aðeins fyrir atvinnutekjur,heldur fyrir allar tekjur.Þannig,að ef hann hefur aðrar tekjur,lífeyrissjóðstekjur eða fjármagnstekjur er ekki víst,að  hann megi vinna fyrir neinum atvinnutekjum án skerðingar.

Lækkun á frítekjumarki gildir fyrir aldraða en ekki fyrir öryrkja.

Krónu á móti krónu skerðingin gildir  áfram gagnvart öryrkjum enda þótt hún verði afnumin gagnvart öldruðum  samkvæmt nýju lögunum.Það þýðir að lífeyrir öryrkja hjá TR,framfærsluviðmið, verður skert  jafnmikið og atvinnutekjur öryrkja eða aðrar tekjur þeirra .Þannig verður öryrkjum mismunað miðað við aldraða.Það er gróft mannréttindabrot.Þannig verða nýju lögin,sem stjórnvöld og fleiri hafa dásamað svo mjög. Það er ekki nóg með að lægsti lífeyrir öryrkja eigi að hækka um áramót um algera hungurlús,heldur á að koma í veg fyrir,að öryrkjar geti unnið sér inn nokkrar krónur.Ef þeir gera það mun Tryggingastofnun rífa af þeim háa upphæð á móti.

Og til viðbótar við það sem nú hefur verið rakið á einnig að níðast á þeim öryrkjum,sem eru í hjónabandi eða búa með öðrum.Þeir eiga ekki að fá "jafnmikla" hækkun og einhleypir.Lífeyrir þeirra,sem búa með öðrum á að hækka um 10 þúsund kr á mánuði eftir skatt 2017 en lífeyrir einhleypra hækkar um 20 þúsund kr eftir skatt á sama tíma. Þetta er einnig gróf mismunun og mannréttindabrot af mínu mati.Þetta verður að leiðrétta.

Björgvin Guðmundsson

www.gudmundsson.net


Réttlætið:Þingmenn tvöföld laun; aldraðir enga hækkun strax

Í dag 1.desember á fullveldisdaginn er einn mánuður þar til aldraðir og öryrkjar eiga að fá greidda hungurlúsina,sem þeir munu fá í hækkun samkvæmt nýjum lögum um almannatryggingar.Ráðherrarnir fengu hins vegar sína hækkun strax og hún var tilkynnt.Og nýir þingmenn fá tvöfold laun greidd í dag þó þeir séu ekki byrjaðir að vinna!Þetta er réttlætið á Íslandi í dag.

Það hvarflaði ekki að fráfarandi ríkistjórn eða alþingi að láta hækkun til aldraðra og öryrkja taka gildi strax eins og hækkanir til embættismanna og stjórnmálamanna.Nei,það þurfti að undirtrika rækilega að það búa tvær þjóðir í,þessu landi: Forréttindastétt og hinir,verkafólk,aldraðir og öryrkjar.Þetta var eins fyrir rúmu ári; þá felldi alþingi að veita öldruðum og öryrkjum afturvirkar hækkanr fyrir jól þó aðrar stéttir fengju slíkar hækkanir og þar á meðal ráðherrar og þingmenn.Alþingi og ríkisstjórn taldi ekki að aldraðir og öryrkjar þyrftu neina hækkun fyrir jól í fyrra og það var eins nú!

Aldraðir og öryrkjar í hjónabandi eða sambúð eiga að fá sínar 10 þúsund krónur í hækkun eftir skatt 1.janúar 2017.Ríkiskassinn hefði ekki þolað að greiða þá hækkun út strax ofan á hækkun til ráðherra og þingmanna!Og einhleypir eigs að fá 20 þúsund króna hækkun eftir skatt 1.jan. 2017.Ríkisstjórnin ákvað að mismuna þeim sem eru einhleypir og þeim,sem búa með öðrum.Þess vegna eiga þeir,sem eru  í sambúð að fá minni hækkun.Engin skýring hefur fengist á því háttalagi.Þetta eru þær hækkanir,sem ég kalla hungurlús.Á sama tíma og raunar strax hækka laun þingmanna  í 1100 þús fyrir skatt og laun ráðherra í 2 millj. fyrir skatt.Það er siðlaust.Hækkun þingmanna er 44% en kennarar eiga að fá 11% hækkun í tvennu lagi!!.

Björgvin Guðmundsson


Á að verðlauna Sjálfstæðisflokkinn fyrir svikin?

Eftir að forseti Íslands gaf stjórnmálaforingjunum lausan tauminn og sagði,að hann ætlaði ekki að gefa neinum einum umboð til stjórnarmyndunar heldur mættu allir reyna,hefur Bjarni Benediktsson verið önnum kafinn að reyna að mynda stjórn.Fyrst  reyndi hann aftur við Viðreisn og Bjarta framtíð en það gekk ekki betur en áður.Viðreisn hefur séð,að það er enn verra að ná samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn  um sjávarútvegsmál og Evrópumál en við 4-flokkinn,sem vildi mynda 5-flokka stjórn með Viðreisn.Engin skýring hefur fengist á þvi hvers vegna Viðreisn hljóp frá 4-flokknum áður en nokkur málefnaágreiningur hafði komið upp.Ef til þurfti Benedikt að efna loforð við Bjarna Benediktsson.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú óskað eftir óformlegum viðræðum við Vinstri græna um stjórnarmyndun.Bjarni vill ólmur komast í stjórn með Katrínu og fá einhvern þriðja flokk með.Ég hef ekkki trú á,að það fáist einhverjar umbætur í skattmálum,sjávarútvegsmálum eða landbúnaðarmálum með Sjálfstæðisflokknum.Flokkurinn er á móti öllu þar.Helst geta flokkarnir orðið sammála um að gera ekki neitt í málefnum ESB.VG vill jöfnuð í skattamálum  en Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta á þeim efnameiri.

Sjálfstæðisflokkurinn sveik loforðin sem hann gaf öldruðum og öryrkjum 2013,fyrir kosningar, ( að leiðrétta lífeyri vegna kjaragliðnunar) og hann sveik einnig loforð Bjarna um að afnema tekjutengingu lífeyris aldraðra hjá TR.VG á ekki að verðlauna Sjálfstæðisflokkinn fyrir þau svik með því að lyfta honum í ríkisstjórn.Sjálfstæðisflokkurinn á að vera utan ríkisstjórnar vegna þessara svika og vegna Panamaskjalanna.Það er lágmarks refsing.

Björgvin Guðmundsson


Öryrkjum haldið við fátæktarmörk og refsað!

.

 

Eitt helsta markmið nýrra laga um almannatryggingar var að afnema krónu á móti krónu skerðingu almannatrygginga vegna atvinnutekna eða annarra tekna aldraðra og öryrkja.Þessi breyting náði fram að ganga gagnvart öldruðum en ekki gagnvart öryrkjum.Hvers vegna ekki? Jú,fráfarandi ríkisstjórn ákvað að "refsa" öryrkjum,þar eð þeir sáu sér ekki fært að samþykkja tillögu félagsmálaráðherra um starfsgetumat.Það er því þannig í lögunum,sem samþykkt voru á lokadegi þingsins fyrir kosningar,að ef öryrki hefur nokkrar krónur í atvinnutekjur, t.d. 10 þúsund krónur þá er lífeyrir öryrkjans hjá almannatryggingum skertur um 10 þúsund krónur.Það er refsingun fyrir að gegna ekki félagsmálaráðherra og ríkisstjórninni. Þetta er að sjálfsögðu klárt mannréttindabrot og fáheyrt.Maður gæti haldið,að þetta væri í Sovetríkjunum gömlu en ekki á Íslandi!

Öryrkjar fá 7,1% hækkun á lífeyri sínum um næstu áramót.Það er hungurlúsin sem þeir öryrkjar fá,sem eru í hjónabandi eða sambúð.Þeir fá 195 þúsund eftir skatt eins og eldri borgarar og þeir fá 227 þús fyrir skatt.Þetta eru öll ósköpin.Það er ekki nóg,að öryrkjar búi við sína örorku,sem getur verið af margvíslegum toga,heldur þurfa stjórnvöld stöðugt að halda þeim við fátæktarmörk þó hér eigi að heita að sé góðæri og nógir peningar séu til i þjóðfélaginu.

 

Björgvin Guðmundssin

 


Aldraðir slegnir út af vinnumarkaðnum!

 

 

 

Undanfarið hef ég rætt um  það hvernig lífeyrir aldraðra og öryrkja muni breytast um næstu áramót, eftir skatt.Ég tel það skipta mestu máli hvað lífeyrisfólk fær útborgað en ekki hver upphæðin er fyrir skatt.En lítum á þær tölur einnig:

1.janúar 2017 verður lífeyrir þeirra, sem eru i hjónbandi eða sambúð 227 þúsund kr fyrir skatt,195 þúsund kr eftir skatt.Sambærilegar upphæðir fyrir einhleypa eru þessar: Fyrir skatt 280 þúsund kr,eftir skatt 227 þúsund kr. Þessar tölur eru ekki til þess að hrópa hátt húrra fyrir.Hér er átt við þá,sem einungis hafa lífeyri frá almannatryggingum, en engan lífeyrissjóð.

Um áramótin tekur einnig gildi aukin skerðing tryggingalífeyris vegna atvinnutekna. Frítekjumark lækkar þá úr 109 þúsund á mánuði í 25 þúsund kr á mánuði. Það var mikið gagnrýnt, að ríkisstjórn Jóhönnu skyldi lækka frítekjumarkið vegna atvinnutekna úr 109 þúsund krónum í 40 þúsund á mánuði í kreppunni en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins bætir mjög um betur og lækkar frítekjumarkið í 25 þúsund kr í góðæri. Og ekki nóg með það: Þetta 25 þúsund króna frítekjumark er ekki bara fyrir atvinnutekjur heldur fyrir allar tekjur sameiginlega en það þýðir, að ef  eldri borgari  hefur fjármagnstekjur eða aðrar tekjur  áður en hann hefur atvinnutekjur getur hann verið búinn að ráðstafa fritekjumarkinu áður en til atvinnutekna kemur og þá skerðist tryggingalífeyrir hans um hverja krónur sem eldri borgarinn aflar í atvinnutekjur. Þannig stuðlar fráfarandi  ríkisstjórn að aukinni atvinnuþátttku eldri borgara! Aldraðir eru algerlega slegnir út af vinnumarkaðnum! Það er greinilega ætlast til,að þeir hætti að vinna um leið og þeir verða 67 ára!En sem betur fer eru sumir þá fullfrískir og geta unnið lengur.

Björgvin Guðmundsson


Nær 300 á biðlista eftir hjúkrunarheimili!

 

Tæplega 300  eldri borgarar bíða eftir rými  á hjúkrunarheimili samkvæmt skýrslu,sem heilbrigðisráðherra lagði fram eftir að að Erna Indriðadóttir óskaði eftir slíkri skýrslu, þegar hún var varaþingmaður Samfylkingarinnar.Þetta er svipaður biðlisti og hefur verið um langt skeið.Það ríkir með öðrum orðum ófremdarástand í þessu efnii auk þess sem hjúrunarheimilin sjálf búa við undirmönnun og fjárrsvelti eins og ég tók fram hér áður.Biðin eftir rými á hjúkrunarheimili er misjafnlega mikil eftir svæðum.Lengst er biðin eftir rými á  Suðurnesjum en þar er hún 138 dagar.

Það er mjög slæmt,að biðin eftir hjúkrunarheimili skuli vera þetta löng.Það þýðir,að í mörgum tilvikum eru sjúklingar orðnir of veikir,þegar þeir fá loks hjúkrunarrými.Best er að þeir fái hjúkrunarrými á meðan þeir geta farið allra sinna ferða..Þá njóta þeir betur vistarinnar á hjúkrunarheimilinu.- Nýlega var lögð fram áætlun um byggingu hjúkrunarheimila næstu 3 árin.Samkvæmt henni á,að byggja 3 ný heimili,á því  timabili,2 i Reykjavík og 1 á Suðurrlandi. Þetta er alltof lítið.Eldri borgarar höfðu gert sér vonir um að lögð yrði fram langtímaáætlun og skipulögð bygging margra hjúkrunarheimila  á  næstu árum.En það varð ekki

Björgvin Guðmundsson.


Er búið að mynda stjórn á bak við tjöldin?

Það vakti mikla athygli,þegar forseti Íslands ákvað að veita engum einum umboð til stjórnarmyndunar eftir að Katrín Jakobsdóttir skilaði umboðinu.Forseti veitti stærsta flokknum fyrst umboðið,síðan þeim næststærsta og þá var röðin komin að Pirötum,þriðja stærsta flokknum.En það féll ekki í kramið hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsókn og raunar heldur ekki hjá Viðreisn.Þessir flokkar munu örugglega hafa talað gegn því við forsetann,að Piratar fengju umboðið.Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru ennþá í stjórn,starfsstjórn .Þá  vantar bara góða hækju og hún er innan seilingar.Það er nærtækast fyrir Bjarna Ben að kippa frænda sínum,Benedikt, inn í stjórnina og þá er þetta komið.Það vakti athygli,þegar forseti Íslands sagði við fjölmiðla,að hann teldi að unnt yrði að mynda stjórn mjög fljótlega; er líklegt,að hann hafi haft eitthvað fyrir sér í því.Sennilega hefur Bjarni Ben sagt forseta,að hann gæti myndað stjórn á nokkrum dögum ( Með Framsókn og Viðreisn).Benedikt formaður Viðreisnar lýsti því margoft yfir,að hann ætlaði ekki að verða 3.hjól undir núverand ríkisstjórn og hann endurtók þessa yfirlýsingu eftir kosningar.En margir töldu,að hún mundi ekki gilda lengi.Og málefni mundu ekki lengi standa í veginum.Ráðherrastólarnir yrðu mikilvægari í augum Viðreisnar þegar til kastanna kæmi.

Viðreisn fær engar umbætur í landbúnaðar-eða sjávarútvegsmálum í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn; fær kannski loðna yfirlýsingu um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB ( aðildarviðræður),sem fram færi einhvern tímann á kjörtímabilinu.Ég spái því,að Viðreisn verði strax eins og gömlu flokkarnir,svíki öll kosningaloforðin strax. Viðreisn sleit viðræðum um 5 flokka stjórn áður en upp úr málefnum hafði slitnað.Benedikt þóttu viðræðurnar ganga of vel.Hann óttaðist,að samkomulag næðist.Þetta átti bara að vera leikrit.Hann sagði þess vegna: Ég hef ekki trú á þessu.Og gékk út.

Mín kennning er þessi: Það var alltaf meining Bjarna og Benedikts að mynda stjórn saman. Það þurfti aðeins að setja á svið leikrit áður til þess að kjósendur sæju ekki að Viðreisn hlypi beint í fangið á Sjálfstæðisflokknum.Nú er leikritinu lokið og þá er unnt að koma stjórninni á koppinn: Sömu stjórn og áður með Viðreisn sem hækju.Viðræður Viðreisnar við fjórflokkinn voru því aðeins til málamynda.Þær áttu ekki að takast!

Björgvin Guðmundsson

www.gudmundsson.net


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband