Færsluflokkur: Bloggar

Misskilningur um frv um almannatryggingar!

Margir virðast telja,að hagur þeirra aldraðra og öryrkja,sem verst eru staddir,muni batna,ef frv um almannatryggingar verði samþykkt.En þetta er misskilningur. Stjórnmálamenn og sérstaklega fulltrúar ríkisstjórnarinnar eru búnir að klifa á því í langan tíma,1-2 ár,að hagur þeirra verst stöddu muni batna.En þetta er ekki rétt.Þetta er blekking. Þessi áróður hefur smogið alls staðar inn,þannig að ólíklegustu menn eru farnir að trúa þessu.Hverjir eru verst staddir meðal lífeyrisþega? Það eru þeir,sem hafa einungis lífeyri frá almannatryggingum og ekki aðrar tekjur; eru á strípuðum lífeyri eins og sagt er. Er verið að bæta hag þeirra? Nei ekki um eina krónu.Það var staðfest á alþingi í gærkveldi.Eygló ráðherra sagði,að hagur þeirra yrði bættur í framtíðinni! Það er mikil huggun í því,eða hvað? En hverra hagur batnar þá? Jú hagur þeirra,sem hafa lífeyrissjóð batnar nokkuð.En þó er grunnlífeyrir felldur niður þó eldri borgarar hafi alltaf lagt áherslu á,að halda honum.En lífeyrir TR skerðist meira en áður vegna atvinnutekna.Hagur þeirra versnar sem sagt.-Ég tel,að afnema eigi skerðingar vegna lífeyrissjóða alveg.Við eigum þennan lífeyri og ríkið á ekkert með að skerða hann hvorki beint né óbeint.Mál er,að linni.

Björgvin Guðmundsson


Stjórnvöld hér neikvæð í garð aldraðra og öryrkja!

 

Margir undrast það hve  neikvæð stjórnvöld hér  eru gagnvart eldri borgurum. Þessu er á annan veg farið í grannlöndum okkar. Þar eru stjórnvöld jákvæð í garð aldraðra og leitast við að fylgjast með því  á hvern hátt þau geti létt undir með lífsbaáttu þeirra. Hér standa stjórnvöld gegn kjarabótum aldraðra eins lengi og þau telja það nokkurn kost. Það má eiginlega segja, að neyða verði stjórnvöld hér til þess að veita öldruðum sjálfsagðar og eðlilegr kjarabætur í takt við launahækkanir launþega. Grunnlífeyrir er þrefalt hærri í grannlöndum okkar en hér. Og heildarlífeyrir er miklu hærri í  nágrannalöndum okkar.Þá þekkjast þar ekki þessar miklu tekjutengingar, sem hér eru.

 

Fyrir alþingiskosningarnar 2013  fór ég sem formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík  á fund  formanna allra þingflokka stjórnmálaflokkanna  og ræddi við þá um kjaramál aldraðra. Með  mér í för voru 2-3 fulltrúar kjaranefndar. Fundir þessir gengu nokkuð vel. Stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi voru áberandi jákvæðari  gagnvart erindi okkar um kjarabætur. Leiddu viðræður okkar við þá til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn  tóku upp í stefnuskrár sínar  2013 ýmsar óskir kjaranefndar um kjarabætur aldraðra. Hreyfingin tók erindi okkar svo vel, að  Margrét Tryggvadóttir þingmaður flokkksins flutti þingmál  í samræmi við okkar óskir.Það náði þó ekki fram að ganga.

 

En björninn var ekki unninn þó Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn tækju mikilvæg  kjaramál eldri borgara upp í stefnuskrár sínar. Við í kjaranefndinni fögnuðum þessu en gleði okkar stóð ekki lengi. Umræddir flokkar  stóðu ekki við fyrirheit þau, sem þeir gáfu öldruðum og öryrkjum í  stefnuskrám sínum. Þeir hafa ekkert  gert  í því að efna mikilvægasta fyrirheitið, þ.e. að leiðrétta lífeyri vegna kjaragliðnunar krepputímans. Hitt  fyrirheitið var að afturkalla kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja  frá árinu 2009. Þar var um 6 atrði að ræða. Aðeins 3 þeirra hafa verið afturkölluð og í rauninni aðeins 2, þar eð eitt rann úr gildi af sjálfu sér.Það var tímabundið.

 

Það er verkefni sálfræðinga að rannsaka hvers vegna  stjórnmálamenn og ráðamenn  hér hafa neikvæða afstöðu til eldri borgara . Það getur hver maður séð, að  kjör þeirra lífeyrisþega,sem hafa einungis tekjur frá almannatryggingum, eru óásættanleg. Það væri einnig eðlilegt og röklegt að stjórnvöld og stjórnmálamenn væru jákvæðir í garð eldri borgara vegna þess hve mikið eldri kynslóðin hefur gert til þess að skapa það þjóðfélag,sem við búum í.Vonandi verður breyting á.

 

Björgvin Guðmundsson

pistlahöfundur

Fréttablaðið 8.sept.2016

 

 

 

 

 

 


Eldri borgarar greiða sjálfir 60 % af ellilífeyrinum!

Ríkið vælir og vænar  hér yfir "miklum" útgjöldum til aldraðra og öryrkja.Rikisstjórnin sér ekki eftir neinum peningum eins mikið og því sem fer til aldraðra og öryrkja.En samt er það svo,að ríkið greiðir miklu minna hér í þennan málaflokk en gerist á hinum Norðuröndunum.Ástæðan er m.a. sú,að hér greiða aldraðir sjálfir stærsta hlutann af ellilífeyrinum eða 60%. Þetta gerist gegnum lífeyrissjóðina. En á hinum Norðurlöndunum verður ríkið sjálft að greiða megnið af  ellilífeyrinum. Þrátt fyrir þetta eru allar greiðslur almannatrygginga til aldraðra miklu lægri hér en á hinum Norðurlöndunum.Þannig er þetta þó hagvöxtur sé miklu meiri hér nú en á  Norðurlöndunum. Ráðherrarnir guma af því á hverjum degi hvað ástandið sé gott hér og sérstaklega í fjármálum ríkissjóðs.Hvenær kemur röðin þá að öldruðum og öryrkjum hjá þessar ríkisstjórn? Rétt er að halda því einnig til haga,að ríkið tekur fulla skatta af lífeyrinum til aldraðra og öryrkja!

 

Björgvin Guðmundsson


Til skammar að hafa ekki leiðrétt lægsta lífeyrinn fyrir löngu!

Á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins segir,að lífeyrir aldraðra,sem búa ekki einir, sé kr.212.776.Og í frumvarpi því sem félagsmálaráðherra var að leggja fyrir alþingi er tilgreind nákvæmlega sama tala; ekki krónu hærri.Hér er átt við þá,sem hafa engar aðrar tekjur en frá TR.Það tók nefndina,sem samdi frumvarpið, 3 ár,að komast að þeirri niðurstöðu,að ekki væri unnt að hækka lífeyri aldraðra um eina krónu. Þessi lífeyrir eigi að vera óbreyttur.Þó er það vitað,að ekki er unnt að lifa af þessum lífeyri.Hann er svo lágur.

Hvernig má það vera,að Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra skuli leggja frumvarpið fyrir alþingi með engri hækkun hjá þeim lægst launuðu.Það er í hennar verkahring að sjá til þess að lífeyrir aldraðra og öryrkja sé það hár,að unnt sé að lifa af honum.Félag eldri borgara í Reykjavík hefur upplýst,að mörg dæmi séu um það,að eldri borgarar hafi hringt til félagsins í lok mánaðar og skýrt frá því,að þeir ættu ekki fyrir mat.Þetta hefur engin áhrif á félagsmálaráðherra. Eftir sem áður sér hún enga ástæðu til þess að hækka lífeyri þeirra sem einungis hafa lífeyri frá almannatryggingum.

Það er til skammar,að félagsmálaráðherra skuli ekki fyrir löngu hafa hækkað lægsta lífeyrinn.Nóg er,að kosningaoforðin sem gefin voru eldri borgurum og öryrkjum fyrir síðustu kosningar skuli hafa verið svikin.Þó peningarnir flói út úr fjárhirslum ríkisins hvarflar ekki að ráðherra að lagfæra verstu kjörin.Það eina sem kemst að er að fjalla um kjör þeirra sem hafa greiðslur úr lífeyrissjóði.En þó aðeins sé dregið úr skerðingu lífeyris TR vegna þeirra er  það hvergi nærri nóg. Ég segi: Það á að afnema skerðinguna með öllu.Og það er krafa Félags eldri borgara í Reykjavik.Sjóðfélagar eiga þennan lífeyri og rikið á ekkert með að krukka í hann. Frammistaða félagsmálaráðherra varðandi skerðingu lífeyris TR vegna atvinnutekna er enn verrri. Þar er skerðingin aukin í stað þess að minnka hana.Um leið og ráðherrann hvetur til þess að eldri borgarar vinni meira eftir 67 ára aldur segir hann: Við ætlum að skerða lífeyri ykkar hjá TR meira, ef þið farið út að vinna.Og svo tökum við stóran hlut í skatt. Við hirðum sem sagt mest í skatt og skerðingu.Þannig eru trakteringarnar.Mín vegna má frumvarpið daga uppi.

Björgvin Guðmundsson 


Handbært fé ríkisins eykst um 72 millljarða milli ára!

Handbært fé ríkisins jókst um 72 milljarða á fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra,skv. upplýsingum RUV.Staðan hefur sem sagt batnað um þessa fjárhæð milli ára.Samt sér fjármálaráðherra enn enga leið til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja.Honum þykir enn nóg,að aldraðir og öryrkjar hafi 185-207 þúsund krónur á mánuði eftir skatt.Fjármálaráðherra mætti á fund fólksins um síðustu helgi og lamdi þar áfram hausnum við steininn í þessum málaflokki.Hann sagði,að aldraðir og öryrkjar hefðu fengið kjarabætur í samræmi við launaþróun. Þar á Bjarni Ben. við það,að lífeyrir hækkaði árið 2015 um 3 % á sama tíma og lágmarkslaun hækkuðu um 14,5% (l.mai).Þetta kallar Bjarn að hækka lífeyri í samræmi við launaþróun! Þetta var árið sem ráðherrarnir fengu 100 þús króna hækkun á mánuði og 9 mánuði til baka eða 900 þúsund í vasann rétt fyrir jólin! Öldruðum og öryrkjum var þá sagt,að þeir fengju enga meiri hækkun fyrr en 2016.Þeir fengu að bíða í 8 mánuði. Séu þessi 2 ár tekin saman nemur hækkun lágmarkslauna 20,7% og hækkun lífeyris 12,7%. Það vantar 8 prósentustig. Hvernig væri að  Bjarni og ráðherrarnir mundu hugsa um það eitt andartak hvað þeir lægst launuðu meðal aldraðra og öryrkja þyrftu mikið sér til framfærslu?Það þarf að hugsa um fleiri en þá,sem hafa nóg!

Björgvin Guðmundsson

 


Hálfónýtt frv.um almannatryggingar lagt fram.Engin hækkun fyrir þá lægst launuðu!

 

   

 

Frumvarp félagmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um breytingu á almannatryggingum hefur verið útbýtt á alþingi.Mig undrar það, þar eð það er lítið gagn í því frumvarpi fyrir aldraða og öryrkja.Alvarlegasti gallinn á frumvarpinu er sá, að það er engin hækkun í frumvarpinu á lífeyri þeirra aldraðra og öryrkja, sem eingöngu hafa tekjur frá almannatryggingum.Annar stór galli er sá, að skerðing lífeyrs TR eykst  hjá þeim sem hafa atvinnutekjur.Samt stendur í greinargerð með frv ,að ætlunin sé að greiða fyrir atvinnuþátttöku.Dregið er lítilsháttar úr skerðingu lífeyris TR vegna greiðslna úr lífeyrssjóði.

Öryrkjabandalagið lagðist gegn frumvarpinu í nefndinni,sem undirbjó frumvarpið.Lagt var til þar, að í stað þess læknisfræðilega örorkumats,sem gildir í dag, kæmi svokallað starfsgetumat, sem byggðist á því að  byggja matið á því hvað hver og einn gæti unnið mikið .Öbi sagði, að undirbúa yrði slíka breytingu miklu betur. Félagsmálaráðherra tók af þeim sökum út kaflann um starfgetumat og frestaði honum .Félag eldri borgara  í Reykjavik treysti sér ekki til þess að styðja frumvarpið, meðal annars vegna þess, að frv gerir ráð fyrir því , að grunnlífeyrir falli niður. Landssamband eldri borgara gerði margar alvarlegar athugasemdir við frv. Meðal annars gerði LEB athugasemd við það hvað skerðingarhlutfall ætti að vera hátt og benti á, engin skerðing væri í Noregi  og aðeins 30% á hæstu tekjum í Danmörku.

Frumvarpið gerir ráð fyrir,að  lífeyristökualdur  verði hækkaður úr 67 árum í 70 ár. Mér er til efs, að það sé rétt skref. Lífeyristökualdur er miklu  lægri  á hinum Norðurlöndunum en hér. Til dæmis er hann 63- 65 ár í Finnlandi og víða er hann  60-65 ár.Samt vinna Íslendingar miklu meira en gerist  í grannlönndunum.Lífeyristökualdur ætti því að vera lægri hér en ekki öfugt.Meiningin er að hækka aldurinn hér á löngum tíma, um 2 mánuði á ári á 24 árum; byrja hækkunina um áramót. Þetta verður heilmikill sparnaður fyrir ríkið.

Björgvin Guðmundsson

 


Ríkisstjórnin hundsar kröfur og tilmæli Landssambands eldri borgara!

 

 

 

Ríkisstjórnin hefur hundsað  óskir Landssambands eldri borgara um aðgerðir í kjaramálum. Síðasta þing sambandsins óskaði eftir því, að stjórnvöld gerðu átak í því að skapa eldra fólki atvinnutækifæri. En í stað þess gerir ríkisstjórnin nú tillögur um það, að skerðing ellilífeyris TR vegna atvinnutekna verði verulega aukin.Þá hefur ríkisstjórnin líka hundsað kröfu eldri borgara um að lífeyrir aldraðra hjá almannatryggingum taki að lágmarki sömu hækkunum og lægstu laun. LEB fór  fram á, að sett yrðu framfærsluviðmið,sem tæki mið af raunkostnaði (sbr neyslukönnun Hagstofunnar,sem segir 321 þúsund á mánuði fyrir einhleypinga).Á sama tíma og þessar tölur liggja fyrir skammtar ríkisstjórnin einhleypum öldruðum og öryrkjum 207 þúsund krónur á mánuði!

Lágmarkslaun hækkuðu um 14,5% 1.mai 2015 en lífeyrir aldraðra hækkaði aðeins um 3%.Þannig hundsaði ríkisstjórnin algerlega tilmæli eldri borgara um að lífeyrir tæki að lágmarki sömu hækkunum og  lægstu laun.Og útkoman er sú sama þó  árin 2015 og 2016 séu tekin saman.Lágmarkslaun hækka 8 prósentustigum meira en lífeyrir! En þá er eftir að taka með i reikninginn,að lægstu laun hækkuðu langt á undan lífeyri. Aldraðir og öryrkjar þurftu að bíða í 8 mánuði eftir hækkun  lífeyris eftir að lágmarkslaun hækkuðu  1.mai 2015.

Landssamband eldri borgara skoraði einnig á stjórnarflokkana að standa við gefin loforð  um að bæta öldruðum kjaragliðnunina sem varð á árunum 2009-2013. En ríkisstjórnin hefur einnig algerlega hundsað þau tilmæli. Ríkisstjórnin sýnir samtökum eldri borgurum algera lítilsvirðingu.

Björgvin Guðmundsson


Ríkið hirðir megnið í sköttum og skerðingum!

Undanfarið hefur Félag eldri borgara í Reykjavik unnið að því að eldri borgarar fengju að vinna lengur en til 67 ára aldurs.Hefur félagið meðal annars rætt við fyrirtæki í þessum tilgangi til þess að athuga hvort þau vildu ráða eldri borgara í vinnu,í hlutastörf eða fullt starf.Einhver fyrrtæki hafa tekið þessu vel. En það er einn hængur á: Ríkið,Tryggingastofnun, tekur svo mikið af lífeyri aldraðra hjá almannatryggingum í skerðingar  og ríkið skattleggur hverja krónu,sem eldri borgarar vinna sér inn.

Í dag er það svo,að eldri borgarar mega hafa 109 þúsund krónur á mánuði í tekjur án þess það skerði lífeyri þeirra hjá TR. Frítekjumark er 109 þúsund. En samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar breytist þetta.Þá falla öll frítekjumörk niður og í staðinn kemur 45% skerðingarhlutfall vegna allra tekna sem eldri borgarar hafa aðrar en tekjur almannatrygginga og séreignalífeyrissparnað.Það er þá lítið gagn í því að ellilífeyrisþegar fái vinnu lengur.Það  fer allt í skatt og skerðingar. Og það furðulega er, að skerðing vegna atvinnutekna eykst verði nýja frumvarpið um TR lögfest; þó segast stjórnvöld vlja stuðla að því,að eldri borgarar geti verið lengur á vinnumarkaðnum!Það er ekki heil brú í þessu. Raunar ættu atvinnutekjur eldri borgara að vera skattfrjálsar.

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um almannatryggingar halda skerðingar áfram. Þær minnka vegna lífeyrisgreiðslna í stað þess að falla  niður en þær aukast vegna atvinnutekna þó undarlegt sé.Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði eldri borgurum bréf fyrir síðustu kosningar og lofaði því að afnema allar tekjutengingar,allar skerðingar,kæmist hann til valda.Hann komst til valda og fékk óskastarfið,embætti fjármálaráðherra,valdamesta embættið.Hann hefur því haft alla möguleika til þess að efna loforð sitt við eldri borgara.En Bjarni sveik loforðið. Eldri borgarar og öryrkjar þurfa að muna það.Auk þess hefur Bjarni svikið loforðið um að leiðrétta lífeyri vegna kjaragliðnunar krepputímans. Það þarf að hækka lífeyri um 23% til þess að efna það.Bjarni hefur líka svikið það loforð.Það er eins og Kári Stefánsson segir: Það er ekki að marka eitt einasta orð hjá honum!

 

Björgvin Guðmundsson


Stjórnvöld hafa hlunnfarið aldraða og öryrkja um marga tugi milljarða!

Frá því sjálfvirk tengsl milli lágmarkslauna og lífeyris aldraðra og öryrkja voru rofin 1995 hafa stjórnvöld hlunnfarið aldraða og öryrkja um gífurlegar fjárhæðir,marga tugi milljarða króna.Þegar þessi tengsl voru rofin sagði Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra,að afkoma aldraðra og öryrkja mundi ekki versna við þessa breytingu.Í staðinn átti að miða við launaþróun en lífeyrir aldrei að hækka minna en vísitala neysluverðs.En það fór á annan veg.Fyrstu 10 árin eftir breytinguna stórversnaði afkoma aldraðra og öryrkja svo tugum milljarða skipti og sama þróun hefur haldið áfram.

Það er stöðugt verið að hlunnfara aldraða og öryrkja.Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur keyrt um þverbak. Það er ekki aðeins,að kosningaloforðin  við aldraða og öryrkja hafi verið svikin heldur hefur ný kjaragliðnun komið til sögunnar.Á árunum 2015 og 2016  hafa lágmarkslaun hækkað um 20,7% en lífeyrir hefur aðeins hækkað um 12,7% á sama tíma.Það vantar 8 prósentustig til þess að hækkun lífeyris sé jafnmikil og hækkun lágmarkslauna.Það er hreint lögbrot, þar eð í lögum stendur,að lífeyrir eigi að hækka í samræmi við launaþróun.Ríkisstjórninni þykir sér sæma að níðast á öldruðum og öryrkjum á þennan hátt. Þessum hópum er haldið við fátækramörk á sama tíma og ráðherrar,þingmenn og embætttismenn fá gífurlegar launahækkanir og marga mánuði til baka.

Stærstu sjávarútvegsfyrirtækin raka til sín peningum eftir að ríkisstjórnin stórlækkaði veiðigjöldin hjá þeim.Samherji hafði 13,9 milljarða í hagnað 2015 og Grandi hafði 6 milljarpða í hagnað.Ef ríkisstjórnin hefði ekki lækkað veiðigjldin hefðu verið nógir peningar til þess að hækka lífeyri strax 2013.Kári Stefánsson segir raunar,að peningar flói út úr fjárhirslum ríkisins í dag.Svo ekki vantar peninga til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Það vantar viljann. Það er kominn tími til þess að aldraðir og öryrkjar hætti að kyssa á vöndinn. En samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum eru enn nokkuð margir sem kyssa á vöndinn hjá Sjálfstæðisflokknum!

Björgvin Guðmundsson


Kjósum kjarabætur fyrir aldraða og öryrkja !Lífeyrissjóðirnir eru ekki samningsatriði.Við eigum þá!

Fyrir nokkru lagði ég til,að í væntanlegum alþingiskosningum mundum við kjósa kjarabætur fyrir aldraða og öryrkja.Með öðrum orðum: Við mundum kanna hvaða frambjóðendur og flokkar styddu kjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum,ekki aðeins í orði heldur á borði.Nú sýnist mér Kári Stefánsson vilja fara svipaða leið í heilbrigðismálunum.Hann boðar það,að ef Bjarni Ben og ríkisstjórnin  gera ekki nægilegt átak(sbr undirskriftasöfnun hans)í heilbrigðismálum muni hann vinna gegn því,að menn kjósi stjórnarflokkana.Það er ágæt lína; það er svipuð lína og ég hef boðað.

Eins og ég hef verið að benda á er komið í ljós,að stjórnarflokkarnur ætla ekki að efna hin stóru kosningaloforð,sem þeir gáfu öldruðum og öryrkjum fyrir síðustu kosningar 2013.Þeir ætla augljóslega að svíkja loforðið um að leiðrétta lífeyri vegna tímabilsins 2009-2013 en efndir á því loforði þýðir 23% hækkun lífeyris eða 56580 kr  á mánuði. Það er sú hækkun,sem koma þarf tik framkvæmda strax til þess að unnt sé að framfleyta sér af lífeyri almannatryggunga.Svar stjórnarflokkanna við kröfunni um efndir á þessu kosningaloforði er að segja,að draga eigi úr skerðingu lífeyris almannatrygginga vegna greiðslna úr lífeyrissjóði  og auka skerðingu vegna atvinnutekna ( nýtt frv um almannatryggngar).En annað stórt loforð stjórnarflokkanna ( Bjarna Ben) var að afnema ætti alveg tekjutengingar,afnema skerðingar að fullu.Það felast því engar efndir í kosningaloforðunum með því að draga úr skerðingum.Lífeyrisþegar eiga lífeyrinn,sem þeir hafa greitt i lífeyrissjóð.Það er ekki samningsatriði að þeir fái hann greiddan að fullu þegar þeir fara á eftirlaun.

Aldraðir og öryrkjar geta ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn eftir svik kosningaloforðanna.Þeir verða að kanna hverjir af hinum flokkunum standa með kjarabótum þeim til handa.

Björgvin Guðmundssin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband