Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Helgi Hjörvar: Það verður að vera unnt að rekja allar færslur gömlu bankanna
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segist ganga að því vísu að Fjármálaeftirlitið tryggi með störfum sínum að hægt sé að rekja allar færslur og öll viðskipti gömlu viðskiptabankanna. Þetta sagði hann í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, vísaði í fregnir af því að unnið væri að sölu á útibúum viðskiptabankanna sem hrunið hefðu í síðasta mánuði. Sagði hann mikilvægt að viðskiptasaga útibúanna yrði tiltæk hinum sérstaka saksóknara og rannsóknarnefnd sem setja ætti á laggirnar vegna bankahrunsins. Spurði hann ráðherra hvort hann teldi ekki mikilvægt að áður en útibú gömlu bankanna erlendis yrðu seld að Íslendingar fengju aðgang að upplýsingum þar.
Dómsmálaráðherra benti á að skýr skil væru á milli ákæruvalds, lögreglu, skattrannsóknarstjóra og Fjármálaeftirlitsins sem hefðu þessi mál á könnu sinni. Benti hann á að Fjármálaeftirlitið væri farið af stað með rannsókn sína á bankahruninu og það væri stofnunarinnar að gera ákæruvaldi og lögreglu viðvart ef grunur vaknaði um lögbrot. Sagðist hann ganga að því sem vísu að Fjármálaeftirlitið tryggði að þessi saga, færslur og öll viðskipti gömlu bankanna, yrði rekjanleg. (visir.is)
Helgi hreyfði hér gífurlega mikilvægu atriði. Ef útibú bankanna erlendis eru seld fara þau úr vörslu og umsjá Íslendinga og þá getur orðið erfitt eða ókleift að ná þar í gögn við rannrókn á bönkunum.
Það geta leynst ýmis gögn í útibúi bankanna í Luxemborg og víðar. Það þarf að ná í þessi gögn strax.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Erlend orkufyrirtlki hafa áhuga á samstarfí um íslenska orku
Á orkuráðstefnunni GEO2 í Bilbao á Spáni í nóvember óskuðu fjórtán erlend fyrirtæki og rannsóknaraðilar eftir fundi með fulltrúa íslenskra orkufyrirtækja frá Enterprise Europe Network á Íslandi þar sem rætt var um möguleika á samstarfi.
Kristín Halldórsdóttir verkefnisstjóri Enterprise Europe Network (EEN) sótti fyrirtækjastefnumótið fyrir hönd níu íslenskra fyrirtækja, að því er segir í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Þar segir að á fyrirtækjastefnumóti EEN hafi verið lögð áhersla á sjálfbæra þróun, orku og umhverfi og að fundirnir hafi verið alls vel á annað hundrað. Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands leiðir starfsemi EEN á Íslandi en samstarfsaðilar eru Rannís og Útflutningsráð.
Það var gríðarlegur áhugi á íslensku orkufyrirtækjunum. Ég vonast til þess að út úr þessu komi samningar við erlenda aðila um að yfirfæra okkar tækni og þekkingu í orkugeiranum til annarra landa en það felur í sér mikil viðskiptatækifæri, segir Kristín Halldórsdóttir í tilkynningunni.
Enterprise Europe Network er einn stærsti vettvangur tækni- og viðskiptasamstarfs í Evrópu en netverkið var formlega opnað á Íslandi í október 2008. Með því opnuðust nýjar gáttir fyrir íslensk fyrirtæki sem vantar aðstoð við að stunda viðskipti og rannsóknir í Evrópu.
Íslensk fyrirtæki hafa nú aðgang að um 550 samstarfsaðilum netverksins í yfir 40 löndum. Boðið er upp á fjölbreytta þjónustu, m.a. leit að samstarfsaðilum í gegnum gagnagrunna fyrir tækni- og viðskiptasamstarf og veittur er aðgangur að upplýsingum um Evrópuverkefni og styrkjamöguleika. Einnig er hægt að fá margvíslegar upplýsingar t.d. um tolla og tollkvóta, skatta og ýmsar kröfur sem gerðar eru til vöru sem sett er á markað í Evrópu.
Í október var opnaður vefur EEN á Ísland á slóðinni www.een.is.(mbl.is)
Sjálfsagt er að efna til samstarfs við erlenda aðila en ekki að gera þá að eignaraðilum að ísl. orkufyrirtækjum.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Mikill áhugi á íslenskum orkufyrirtækjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Þarf samráðsvettvang ríkisstjórnar og almennings?
Borgarafundurinn í Háskólabíói í gær var fjölsóttur og að mörgu leyti góður. 2 ræðumenn fóru að vísu yfir strikið með óviðeigandi ummælum um ráðamenn.En Þorvaldur Gylfason prófessor flutti afburðagóða ræðu og sýndi, að það er unnt að vera með harða og málefnalega gagnrýni án þess að vera ókurteis.Benedikt Sigurðsson framkvæmdastjóri flutti einnig ágæta ræðu en var heldur langorður. Gunnar Sigurðsson leikari stýrði fundinum ágætlega en þó fannst mér hann ganga of langt þegar hann stillti ráðherrum upp við vegg og krafðist þess,að þeir svöruðu spurningu ( spurningum) frá honum með já eða nei.Einnig fannst mér út í hött þegar hann fór fram á að fundarmenn fengju 2 áheyrnarfulltrúa á fundum ríkisstjórnarinnar.Slík krafa er fráleit en nær hefði verið að Gunnar hefði farið fram á, að myndaður yrði samráðsvettvangur með ríkisstjórninni,t.d. þannig,að borgarafundurinn tilnefndi 2 fulltrúa og ríkisstjórnin 2 sem mundu hittast reglulega til þess að fara yfir mál,sem tengjast bankahruninu og fjármálakreppunni. Sannleikurinn er sá,að mál vinnast oft betur í litlum hópum og slíkur samráðsvettvangur gæti verið mjög gagnlegur.
Stemmningin á fundinum í Háskólabíó var góð og það var talsverður hiti í mönnum. Flestir vildu flýta kosningum og margir vildu að ríkisstjórn og stjórn Seðlabanka færi frá.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Darling vill endurskoða innistæðutryggingakerfið
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, vill að innistæðutryggingakerfi Evrópsambandsuríkja verði endurskoðað í ljósi deilnanna við Ísland um Icesave-reikninga Landsbankans.
Í umræðum um fjárlög næsta árs á breska þinginu í gær greindi Darling frá því að hann hefði þegar ritað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins bréf þar sem farið væri fram á endurskoðun á tryggingakerfinu sem nær einnig til Evrópska efnahagssvæðisins.
Benti hann á að ekki væri hægt að ætlast til þess að breska ríkisstjórnin kæmi breskum þegnum sem lagt hefðu peninga sína inn í erlenda banka alltaf til aðstoðar. Vísaði hann þar til Icesave-reikninganna. Það er ekki hægt að ætlast til þess að hinn breski skattgreiðandi verði tryggjandi til þrautarvara," sagði Darling og bætti við að hann ætti von á skýrslu um málið með vorinu.
Sagði hann enn fremur við að menn hefðu lært það af fjármálakreppunni að tryggja þyrfti betur innistæður fólks í bönkum og hraðari afgreiðslu mála ef bankar færu í þrot. (visir.is)
Við endurskoðun kerfisins þarf að taka sérstakt tillits til lítilla ríkja. Ekki er unnt að ætlast til þess að lítil ríki eins og Ísland beri ábyrgð á innstæðum erlendra sparifjáreigenda í ísl. bönkum við þrot þeirra. Sennilega væri skynsamlegt að lögbinda,að bankar erlendis væru alltaf dótturfyrirtæki en ekki útibú.
Björgvin Guðmundsson
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Útlán bankanna jukust um 3500 milljarða á einu ári!
Útlánasafn Landsbanka, Kaupþings og Glitnis óx um 3.541 milljarð króna frá júnílokum 2007 fram á mitt þetta ár. Gengisfall krónunnar í byrjun árs skýrir hluta af hinum mikla vexti. Raunaukning útlána var samt sem áður, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, um 1.300 milljarðar króna.
Á tímabilinu var mikil lausafjárkreppa í heiminum og margar lánalínur bankanna höfðu þegar lokast.
Frá miðju ári 2007 þar til í lok júní síðastliðins jukust útlán Landsbankans til viðskiptavina alls um 1.004 milljarða króna, eða um 64 prósent. Þau voru þá 2.571 milljarður króna. Hluti af þessum vexti skýrist af gengisfalli krónunnar en ef tekið er tillit til gjaldmiðlasveiflna jukust útlán Landsbankans á þessu tímabili um 31,3 prósent.
Útlán Kaupþings námu 4.169 milljörðum króna í lok júní síðastliðins og höfðu þá aukist um rúma 1.500 milljarða króna á einu ári. Þegar tekið er tillit til gengisfalls krónunar uxu útlán Kaupþings um rúma 550 milljarða króna, eða 21,2 prósent á tímabilinu.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að útlán Glitnis frá miðju ári 2007 fram á mitt þetta ár hefðu aukist um þúsund milljarða króna, eða um 62 prósent. Þar hafði veiking krónunnar einnig töluverð áhrif en raunaukning útlána var um 23,5 prósent.(mbl.is)
Þessar tölur koma nokkuð á óvart,þar eð talið var,að bankarnir hefðu lokað að mestu fyrir útlán
á þessu ári.Tölurnar sýna einnig,að útlánaaukning var ekki meiri í Glitni en í hinum bönkunum.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Útlánin jukust um 3.500 milljarða á einu ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Slegin skjaldborg um velferðarkerfið
Töluverður fjöldi fólks mætti á fundinn og voru um 600 manns á torginu á sama tíma er mest var.
Gerður A. Árnadóttir, formaður Þroskahjálpar, varaði þá sterklega við því að farið yrði í niðurskurð í velferðarkerfinu til að reyna að rétta af ríkisreksturinn. Minnti hún á að lítið hafi farið fyrir góðærinu hjá þeim sem hafa það minnst. Í góðærinu hafi tónninn hjá stjórnvöldum verið sá að alls ekki mætti auka ríkisútgjöld því að þá myndi þenslan aukast. Fatlaðir búi nú þegar við verulegan skort á þjónustu og nú blasi við að enn verði niðurskurðarhnífnum beitt. Niðurskurður í velferðarkerfinu bitni hins vegar verst á þeim sem að síst skyldi - öryrkjum, börnum, öldruðum og sjúkum.
Halldór Sævar Guðbergsson formaður Öryrkjabandalagsins, kom þá með hugmyndir að umbótum. Sagði hann að afnema þyrfti verðtryggingu, girða fyrir víxlverkun á milli almannatryggingakerfis og lífeyris. Það væri óþolandi þegar að aukin réttindi í almannatryggingakerfinu leiddu til skerðingar á lífeyri. Kallaði hann ennfremur eftir að stjórnmálamenn og embættismenn upplýstu almenning og vísaði þar í ræðu Davíðs Oddsonar í síðustu viku.
Björgvin Guðmundsson
+
![]() |
Bitnar á þeim sem að síst skyldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
"Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið"
Háskólabíó hefur reynst of lítil bygging fyrir borgarafundinn sem stendur yfir í kvöld. Stóri salurinn er troðfullur af fólki og sömuleiðis anddyrið. Fólk hefur þurft frá að hverfa vegna plássleysis.
Stjórnmál og viðskipti eru óholl blanda, eitt sinn voru helmingaskipti reglan á Íslandi. Kaup kaups, sagði Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor í framsöguræðu á opnum borgarafundi í Háskólabíó fyrir stundu. Hann sagði einkavæðingunni hafa verið ætlað að uppræta þessa skipan, skerpa skilin milli þessara greina, til að dreifa valdi á fleiri og hæfari handa.
Ríkisstjórnin brást þessu ætlunarverki, tók sjálfa sig fram fyrir og afhenti ríkisbankana mönnum sem voru handgengnir stjórnarflokkunum og höfðu enga reynslu af bankarekstri, sagði hann og bætti því við að stjórnvöld hafi ekki hafst neitt að þegar bankarnir fóru offari, stíflan hafi brostið.
Þá talaði Þorvaldur um peningamálastefnu síðustu ára og bankastjórn Seðlabankans. Þrákelkni yfirvalda fyrir hönd krónunnar hefur teflt fjárhagslegu sjálfstæði landsins í tvísýnu, a.m.k. um sinn. Ríkisstjórnina brestur þor til að skipta um stjórn í Seðlabankanum, þótt bankastjórnin hafi hvað eftir annað gert sig seka um alvarleg mistök, sem hafa ásamt öðru svert nafn Íslands í útlöndum. Bankastjórnin verður að víkja án frekari tafar, sagði Þorvaldur.
Að þessu mæltu hóf fólk í salnum að klappa. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra klappaði m.a. með, þar sem hann sat uppi á sviði. Standandi fagnaðarlæti brutust út í öllum salnum við þessa setningu svo Þorvaldur þurfti að gera hlé á máli sínu.
Fyrirhugaður flutningur Fjármálaeftirlitið til Seðlabanka herðir enn kröfuna á því að ríkisstjórnin víki, sagði Þorvaldur þá. Það vekur von að IMF vilji gera öryggisúttekt á Seðlabankanum.
Þorvaldur hélt áfram og talaði um kvótakerfið, sem hann sagði upphaf ófaranna. Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið, sagði hann. Sú rangláta ákvörðun að afhenda útvöldum aðilum auðlindir hafsins, skerti sýn stjórnvalda svo önnur brot fengu einnig að viðgangast að sögn Þorvaldar. Þá tók hann dæmi um pólitíska spillingu við einkavæðingu bankanna. Varaformaður Framsóknarflokksins hagnaðist svo á einkavæðingu Búnaðarbankans að hann keypti sér þjóðarflugfélagið í kjölfarið. Lét skipa sig Seðlabankastjóra í millitíðinni en entist ekki lengi í því láglaunabasli sem þar ríkti, sagði Þorvaldur. Hann sagði framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins einnig hafa orðið milljarðamæring við einkavæðinguna.
Nú býðst ríkisstjórnin sjálf til að rannsaka. Við þurfum enga hvítþvottarbók frá ríkisstjórninni. Frekar þarf sannleiks- og sáttanefnd með erlendum sérfræðingum. Við þörfnumst slíkrar nefndar til að endurheimta traustið sem við þurfum að geta borið hvert til annars, og traust umheimsins. Farsæl samfélagsþróun útheimtir að sagan sé rétt skráð og öllum hliðum hennar til haga haldið. Bankakreppa á Íslandi er ekki einkamál Íslendinga. Íslendingar og um heimurinn þurfa að vita hvort orðrómurinn á við rök að styðjast og hvað fór úrskeiðis, sagði Þorvaldur.
Í þroskuðu lýðræðisríki gæti það ekki gerst að formaður stjórnmálaflokks skipaði sig seðlabankastjóra án mótmæla, annarra stjórnmálaflokka eða fjölmiðla."(mbl.is)
Þorvaldur gagnrýndi kvótakerfið harðlega og sagði það upphaf ófaranna.Hann sagði,að það hefði verið ranglát ákvörðun að afhenda nokkrum útvöldum aðilum auðlindir hafsins.Mannréttindanefnd Sþ. hefði úrskurðað að kerfið fæli í sér mannréttindabrot.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Kvótakerfið varðaði veginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |