Mánudagur, 19. maí 2008
Núverandi ríkisstjórn ekki jákvæðari eldri borgurum en sú fyrri
Það eru mikil vonbrigði,að núverandi ríkisstjórn er ekkert jákvæðari í garð aldraðra og öryrkja en fyrri ríkisstjórn var.Lífeyrir aldraðra sem hlutfall af lágmarkslaunum hefur lækkað á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar en ekki aukist eins og búast hefði mátt við.Það,sem er einnig slæmt er það,að ríkisstjórnin heldur því fram,að hún hafi bætt kjör aldraðra meira á skömmum tíma en dæmi eru um áður. Það er ekki rétt.Engin skýring hefur fengist á því hvers vegna ekki var byrjað á því að hækka lífeyri aldraðra frá almannatryggingum strax eftir valdatöku ríkisstjórnarinnar. Engin skýring hefur fengist á því hvers vegna byrjað var á því að bæta hag þeirra eldri borgara,sem eru á vinnumarkaðnum en hinir skildir eftir sem ekki geta unnið eða kjósa að láta starfsdegi lokið eftir að hafa unnið langan og strangan starfsdag.Það þýðir ekkert að leggja saman einhverjar upphæðir,sem það kostar að fella niður skerðingu bóta vegna atvinnutekna nú og í framtíðinni.Ríkið fær þá peninga alla til baka,þar eða það fást auknar skatttekjur af atvinnutekjum aldraðra,sem standa undir þessum kostnaði.
Björgvin Guðmundsson
Mánudagur, 19. maí 2008
Eiga Íslendingar að taka á móti flóttamönnum?
Nokkrar umræður hafa orðið um þá ákvörðun Íslendinga að taka á móti 30 flóttamönnum frá Írak. Eru það konur og börn frá Palestínu,sem dvalist hafa í mörg ár í flóttamannabúðum við erfiðar aðstæður.Ákveðið hefur verið að flóttamönnunum verði komið fyrir á Akranesi og hafa bæjaryfirvöld þar samþykkt að taka á móti flóttamönnunum.Á Akranesi hafa orðið miklar deilur um mál þetta. Magnús Þór Hafsteinsson formaður félagsmálaráðs Akranes og varabæjarfulltrúi frjálslyndra þar lagðist gegn móttöku flóttamannanna á Akranesi og taldi,að of skammur tími væri til undirbúnings þess að taka á móti þeim en auk þess biðu 25 fjölskyldur á Akranesi eftir húsnæði og nær væri að aðstoða þær. Mál þetta var rætt í Silfri Egils í gær og þar spurði Egill Helgason Magnús Þór hvort hann væri ekki að reyna að fá atkvæði út á það að vera á móti erlendum flóttamönnum. Magnús Þór neitaði því.
Nokkur sveitarfelög hér á landi hafa tekið á móti flóttamönnum,þar á meðal Ísafjörður og hefur það gengið vel. Ekki verður séð,að það ætti að vera neitt erfiðara fyrir Akranes að gera það. Ísland er eitt ríkasta land í heimi. Ísland getur því ekki skorast undan því að taka á móti heimilislausum flóttamönnum eins og önnur vel stæð ríki gera.
Björgvin Guðmundsson
Mánudagur, 19. maí 2008
Unga fólkinu gengur vel að fá vinnu í sumar
Atvinnuhorfur ungs fólks eru góðar og ekki virðist erfiðara að útvega því sumarstörf nú en á sama tíma í fyrra. Þetta segir Hildur Erlingsdóttir hjá Atvinnumiðlun stúdenta og í sama streng tekur Gerður Dýrfjörð hjá Vinnumiðlun ungs fólks hjá Hinu húsinu. Hún segir að meira sé um yngri umsækjendur í atvinnuleit en áður og þeir hafi áhyggjur af að fá ekki vinnu.
Þetta eru ánægjulegar fréttir i miðju krepputalinu.Þessi staðreynd bendir til þess að ástandið sé ekki alveg eins sæmt og menn hafa talið.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. maí 2008
Geir vill aukin útlán bankanna
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir í viðtali við norska viðskiptavefinn E24, að útlán íslensku bankanna heimafyrir séu of lítil um þessar mundir. Íslensku bankarnir verði að gæta þess að þjóna almenningi hvort sem vel eða illa árar.
Geir segir, að markaðurinn hafi nánast hætt útlánum til einkafyrirtækja og almennings. Við það getum við ekki búið til lengdar. Það sem er kallað lánsfjárþröng hefur einnig náð til Íslands. Það eru of lítil útlán," segir Geir.
Hann segist búast við að áhrifin af háum stýrivöxtum Seðlabankans fari að koma í ljós og að draga muni úr verðbólgu. Þá geti Seðlabankinn byrjað að lækka vexti á ný.
Geir segir, að grunnþættir efnahagslífsins séu sterkir þótt smá mótvindur sé um þessar mundir. Sá mótvindur stafi m.a. af atburðum á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði.
Ég tek undir þessi orð Geirs. Það gengur ekki,að bankarnir loki á öll útlán. Atvinnulífið þarf að ganga og fá sín rekstrarlán og almenningur þarf að eiga aðgang að lánum til Þess að kaupa íbúðir. Það má draga úr viðskiptum á fasteignamarkaði en það gengur ekki að stöðva þau viðskipti alveg.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Útlán of lítil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 19. maí 2008
Ríkið gefur auðmönnum eftir 60 milljarða í sköttum!
Kristinn Gunnarsson þingmaður frjálslyndra var í Silfri Egils í gær og skýrði frá þvíað ríkið ætlaði að gefa auðmönnum 60 milljarða með því að gefa eftir söluhagnað af hlutabréfum. Kristinn sagði:
Endanlega hefur verið afgreitt sem lög frumvarp frá fjármálaráðherra um breytingu á lögum um tekjuskatt sem fellir niður allar hugsanlega skattgreiðslur af 336 milljarða króna hagnaði af sölu hlutabréfa á árinu 2006. Sá skattur er 18% og getur numið um 60 milljörðum króna. Söluhagnaðurinn hefur verið talinn fram í reikningum fyrirtækjanna en beitt ákvæði laganna sem heimilar frestun á skattgreiðslum um tvenn áramót. Fresturinn rennur út um næstu áramót, í árslok 2008 og að öllu óbreyttu verða fyrirtækin að greiða skattinn við álagningu næsta árs.
Kristinn lýsti andstöðu sinni við þessa skatteftirgjöf og ég er sammála honum. Það er forkastalegt að á sama tíma og launafólk og eldri borgarar eru skattpíndir skuli auðmenn fá skatteftirgjafir svo tugum milljarða skiptir.Rökin eru alltaf þau,að ef ekki verði tekið með silkihönskum í skattamálum á stórfyrirtækjum og auðmönnum fari þeir úr landi. Sú röksemd gengur ekki upp. Það verða allir að boirga til samfélagsins,ekki bara launafólk.
Björgvin Guðmundsson
Mánudagur, 19. maí 2008
Skattar á láglaunafólki og barnafólki eru of háir
Nýlega kom út skýrsla um skattamál hjá OECD. Þar kemur fram, að skattar hér á landi hafa hækkað á láglaunafólki og barnafólki en lækkað á þeim hæst launuðu.Hlutfall skatta hækkaði hjá barnafólki á árunum 2000 til 2006 sem er þveröfugt við þróun í flestum ríkjum OECD. Þetta kemur skýrt fram í hinni nýju skýrslu stofnunarinnar.Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ sagði skýrsluna áfellisdóm yfir fyrri skattstefnu stjórnvalda og segir hana endurspegla að skattaumbætur á umræddum árum hafi ekki gagnast láglaunafólki.
Um þetta atriði var deilt fyrir fáum árum en þá hélt Stefán Ólafsson prófessor því einmitt fram, að skattar hefðu hækkað á þeim lægst launuðu hér en lækkað á þeim hæst launuðu. Fjármálaráðherra mótmælti þessu þá. En nú er sem sagt kominn úrskurður um þetta deilumál frá OECD. Stefán Ólafsson hafði á réttu að standa. Áður hafði komið fram hjá OECD, að heildarskattbyrðin hefði aukist á Íslandi miðað við Evrópumeðaltal.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)