Fimmtudagur, 25. september 2008
Ingibjörgu Sólrúnu líður vel.Heldur áfram störfum i New York
Á fundinum með Lavrov í höfuðstöðvum SÞ voru rædd ýmis hagsmunamál ríkjanna, meðal annars möguleikar á frekara samstarfi í menningar-, umhverfis- og orkumálum, segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Utanríkisráðherra gerði alvarlegar athugasemdir við flug rússneskra herflugvéla í kringum Ísland. Þá lýsti ráðherra afstöðu íslenskra stjórnvalda til átakanna milli Rússlands og Georgíu og sagði að óviðunandi væri að stór ríki neyttu aflsmunar gagnvart minni ríkjum.
Í samtali við S-vefinn í morgun sagði Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, að Ingibjörg Sólrún héldi nú nær óbreyttri dagskrá. Ingibjörgu Sólrúnu líður vel, sagði Kristrún, og lyfin sem hún fær virka ágætlega. Meinið er lítið og viðráðanlegt að sögn læknanna, en það verður að taka sem fyrst, og aðgerð af þessu tagi fylgir að sjálfsögðu nokkur áhætta.
Í dag sækir utanríkisráðherra fund kven-utanríkisráðherra sem Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur boðað til, og síðan taka við fundir með ráðherrum einstakra ríkja, einir þrír eða fjórir. Á morgun fer Ingibjörg Sólrún í frekari rannsóknir á Mount Sinai-sjúkrahúsinu, þar sem færustu sérfræðingar eru með í ráðum, þar á meðal íslenskur læknir þar, Kristján Ragnarsson. Eftir þær rannsóknir verða teknar ákvarðanir um næstu skref, sagði Kristrún, en þangað til væri dagskránni einfaldlega fylgt og þar á meðal gert ráð fyrir kvöldverði kven-ráðherranna í boði Ingibjargar annað kvöld og flugi heim á mánudaginn.
Ekki hefur verið ákveðið hvenær Ingibjörg Sólrún gengst undir aðgerð, en það verður væntanlega hér heima. Búast má við að eftir það þurfi hún að fara sér hægt nokkrar vikur en nái síðan fullri starfsorku.(S-vefur)
Það er ánægjulegt að heyra,að Ingibjörgu Sólrúnu líður vel þrátt fyrir veikindin og hún sýnir mikinn kjark og atorku að halda nær fullri dagskrá í New York.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 25. september 2008
Kópavogur styður Guðjón Arnar
Stjórn bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Kópavogi lýsir yfir eindregnum
stuðningi og trausti á störf Guðjóns Arnars Kristjánssonar formanns Frjálslyndaflokksins.
Guðjón Arnar hefur alltaf starfað af miklum heillindum að málefnum flokksins. Stjórnin hvetur Guðjón til áframhaldandi forystu," að því er segir í yfirlýsingu frá stjórn bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Kópavogi.(mbl.is)
Mér kemur ekki á óvart,að frjálslyndir í Kópavogi skuli styðja Guðjón Arnar. Guðjón er mjög vandaður maður og mér virðist hann hafa staðið sig vel sem formaður.En það er verið að undirbúa byltingu í flokknum.Nokkrir menn eru að reyna að ná völdum í flokknum og þeir vilja m.a. losna við Guðjón Arnar sem formann og þeir vilja líka losna við Kristin Gunnarsson.Flokkurinn er það lítill að hann þolir ekki hinn minnsta klofning. Hætt er því við því að mikil átök í flokknum og barátta um völd muni ríða honum að fullu.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Styðja Guðjón Arnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 25. september 2008
750 börn á biðlista fristundaheimila í Rvk.
Yfir 2.000 börn hafa fengið inni á frístundaheimilum ÍTR við grunnskóla Reykjavíkur en enn eru um 750 börn á biðlista og um 60 starfsmenn vantar til að fullnægja eftirspurninni.
Steingerður Kristjánsdóttir, verkefnisstjóri á skrifstofu tómstundamála hjá ÍTR, segir að hlutirnir gangi hratt fyrir sig þessa dagana og mörg frístundaheimili hafi tæmt biðlista sína. Því miður eigi það samt ekki við þau öll.
Ég hef fullan skilning á aðstöðu fólks, segir Steingerður um biðlistana. Ég skil þetta sérstaklega með yngstu börnin, sex og sjö ára, og sem fjögurra barna móðir get ég algerlega sett mig í þeirra spor.
Steingerður segir að meðan staðan sé svona hafi fólk almennt ekki mörg úrræði. Stundum geti foreldrar bekkjarsystkina í sömu aðstöðu komið upp einhverri tímabundinni skiptidagskrá. Rætt hafi verið um að fá dagmæður til að taka þessi börn að sér og hún hafi sjálf góða reynslu af slíku fyrirkomulagi. Sumir ráði framhaldsskólanema og aðrir hafi aðgang að ættingjum en þessi úrræði séu ekki allra. Vinnuhópur á vegum borgarinnar sé að reyna að leita nýrra leiða í þessu ástandi, sem skapist orðið á hverju hausti og foreldrar séu orðnir langþreyttir á.(mbl.is)
Með því að það er orðin venja,að báðir foreldrar vinni úti er þetta alvarlegt ástand og gerir foreldrum erfitt að stunda vinnu.Það vantar 60 starfsmenn á frístundaheimilin.Væntanlega leysast þessi mál fljótlega.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Um 750 börn á biðlista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 25. september 2008
Gengisfallið: Lán og afborganir hækka og hækka
Þetta er náttúrulega fáránlegt. Ég held að það finnist öllum sem þurfa að borga þetta, allavega, segir Þorkell Kristinsson en hann tók 12,9 milljóna lán hjá Íbúðalánasjóði árið 2005. Það ber 4,15% vexti og er til 40 ára en hefur síðan hækkað í 16,1 milljón.
Afborganir af láninu hafa á sama tíma hækkað úr 56 þúsundum í 71 þúsund á mánuði.
Sem betur fer fór maður ekki til bankanna. Vextirnir á þessu láni eru fastir út lánstímann, segir hann og bætir við: Þetta er eina lánið sem maður er með en finnst það nóg samt.
Annar viðmælandi 24 stunda hefur svipaða sögu að segja.
Ég tók lán í mars 2006 upp á 22,8 milljónir í Landsbankanum og vextirnir voru 4,45%. Núna er lánið komið upp í 27,7 milljónir og afborganirnar hafa hækkað úr 105 þúsundum í 125, segir hann.
Lánið er með fimm ára endurskoðunarákvæði en fyrstu lánin með slíku ákvæði verða endurskoðuð á næsta ári. Lánið verður ekki endurskoðað fyrr en 2011 sem betur fer. En það er sama, þetta er ótrúleg hækkun, fimm milljónir á 30 mánuðum. Það er ótrúlegt að borga 125 þúsund krónur í hverjum mánuði en lánið hækkar samt um 170 þúsund á mánuði.
Fyrir 25 árum fór Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og þingmaður VG, fyrir Sigtúnshópnum svokallaða.
Vorið 1983 var launavísitalan tekin úr sambandi en lánskjaravísitalan var látin halda sér þannig að lánin ruku upp úr öllu valdi en launin stóðu í stað svo fólk gat ekki staðið í skilum. Auk þess varð lánabyrðin meiri en verðmæti eignanna þannig að fólk lenti í miklum hremmingum, segir Ögmundur.
Hann segir sömu hættumerki á lofti nú og þá. Lausnina segir hann felast í að draga úr verðbólgunni, og kjarajöfnun.(mbl.is)
Það er skelfilegt,að heyra hvað lánin hafa hækkað mikið bæði höfuðstóll og afborganir. Þeir sem tekið hafa erlend lán fara verst út úr þessu. Talið er að gengið muni áfram lækka og munu afborganir af lánum því enn hækka.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
"Sem betur fer fór maður ekki til bankanna" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. september 2008
Gjaldskrá Orkuveitu hækkar um 9,5%
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, boðar harða launabaráttu í komandi kjarasamningum. 9,5% hækkun gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur sé tillaga um jafn mikla almenna launahækkun, og hann segir Alþýðusambandið líta á samninga við ljósmæður sem tillögu ríkisins um 21% launahækkun.
Guðmundur segir stjórnmálamenn verða að átta sig á að þeir geti ekki ætlast til þess, að launafólk axli ábyrgð með því að fá engar launahækkanir á meðan þeir vaði fram með hækkandi gjaldskrár. Margir kjarasamningar losna næstu daga og í næsta mánuði.
Miðstjórn Alþýðusambandsins kom saman á Egilsstöðum í gær. Efnahagsmálin og komandi kjarasamninga bar hátt í umræðum á fundinum, segir Guðmundur Gunnarsson, þar hafi ýmislegt nýtt komið fram. Borgarstjórn Reykjavíkur leggi til 9,5% launahækkun með tillögu sem lögð hafi verið fram í gær því með því að hækka gjaldskrá hitaveitunnar um 9,5% sé það tillaga um launahækkun. Fjármálaráðherra hafi lagt til 21% launahækkun um daginn og skálað hafi verið fyrir því í kampavíni í Karphúsinu. Mörgum launamönnum hafi verið ögrað með því, segir Guðmundur. Borgarstjórn leggi til meðaltillögu upp á 9,5% launahækkun og að það sé viðbúið að menn vinni út frá þessum tölum.
.
Ríkisstjórnin hafi hafnað því að tala við verkalýðsfélögin um það. Hún hendi bara út reyksprengjum, upphrópunum og fullyrðingum þegar menn leggi eitthvað til, segir Guðmundur. Þegar það komi síðan tillaga um launahækkun eins og þær sem fram hafi komið þá hlusti menn á það. (ruv.is)
Ég undrast hækkun gjaldskrár Orkuveitunnar um 9,5%. Ríkisstjórnin hefði átt að stuðla að því með samningum,að gjaldskrár yrðu óbreyttar,þar eð eins og Guðmundur segir er hætt við,að hækkanir gjaldskrár fari beint út í launin. Í öllu falli leiðir hækkunin til aukinnar verðbólgu. Ríkisstjórnin verður að beita handafli til þess að sporna gegn aukinni verðbólgu og það þarf að lækka verðbólguna hressilega.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. september 2008
Endurreisa þarf þjóðhagsstofnun
Það voru mistök að leggja niður Þjóðhagsstofnun, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir meðal annars í pallborðsumræðum um efnahagsmál á fjölsóttum flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á laugardaginn. Nú vantar þennan vettvang, óháða stofnun sem hægt er að treysta á og getur verið stuðningur fyrir stjórnvöld og aðra gerendur í efnahagslífinu. Endurreisn gömlu Þjóðhagsstofnunar óbreyttrar er þó varla ráðleg, en æskilegt væri að koma upp nýrri hagstofnun með formbundnu samráði helstu gerenda í efnahagsmálum, einkum verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda, sagði formaður Samfylkingarinnar, og minnti á að þessi leið hefði gefist einkar vel á Írlandi.(S-vefur)
Ég er sammála Ingibjörgu Sólrúnu um að það þarf að mynda óháða hagstofnun líka þjóðhagsstofnun.Ég tel að vísu,að það mætti gjarnan endurreisa þjóðhagsstofnun.Það voru alger mistök að leggja þá stofnun niður. Davíð Oddsson lagði stofnunina niður í reiðikasti.Honum mislíkaði eitthvað við forstjórann. Og ekki stóð á Halldóri Ásgrímssyni að hjálpa honum við að leggja stofnunina niður.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 25. september 2008
Verðbólgan 14%
Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í september 2008 er 315,5 stig (maí 1988=100) og hækkaði um 0,86% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 284,3 stig og hækkaði hún um 1,25% frá ágúst.
Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 0,7% (-0,11%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,14% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,03%. Verð á nýjum bílum lækkaði um 1,8% (-0,14%).
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 14,0% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 14,7%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,7% sem jafngildir 11,4% verðbólgu á ári (12,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í september 2008, sem er 315,5 stig, gildir til verðtryggingar í nóvember 2008. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 6.230 stig fyrir nóvember 2008.( hagstofa.is)
Verðbólgan hefur örlítið minnkað en hún var áður 14,5%. En ekki er talið að þetta standi lengi. Allt bendir til ,að verðbólgan aukist á ný vegna lækkunar á gengi krónunnar.Athuglisvert er,að það er lækkun húnnæðisverðs,sem nú lækkar verðbólguna.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 25. september 2008
Íhaldið og Össur ánægt með tillögu Helga Hjörvar
Össur Skarphéðinsson segir að öllu máli skipti að orkulindirnar sjálfar verði ekki seldar og það sé tryggt með nýju orkulögunum. Þetta er möguleiki, sem ég myndi skoða mjög nákvæmlega, ef tillögur kæmu upp um það, segir iðnaðarráðherra og bætir við að málið hafi ekki verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar.
Kristján þór Júlíusson segir að sjálfsagt sé að skoða þessar hugmyndir um sölu frá öllum hliðum. Þetta hljómi ágætlega við það sem komið hafi fram í umræðunni hjá forsætisráðherra og Pétri Blöndal á Alþingi. Hins vegar hafi hann fyrirvara á auðlindasjóði.(mbl.is)
Árni Mathiesen fjármálaráðherra er ánægður með tillöguna svo og Friðrik Sophusson fyrrverandi fjármálaráðherra og forstjóri Landsvirkjunar.Og ekki kemur á óvart,að Pétur Blöndal sé ánægður með tillöguna,mesti hægri maðurinn á alþingi.
En hugmynd eða tillaga um að selja rekstur virkjananna til einkaaðila hefur aldrei verið samþykkt í Samfylkingunni. En það skiptir kannski engu máli , ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir þetta!
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Össur: Áhugaverð hugmynd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 25. september 2008
Bush vill verja 700 milljörðum $ gegn fjármálakreppunni
George W. Bush bandaríkjaforseti segir að Bandaríkjamenn verði að styðja víðtækar aðgerðir til bjargar fjármálamörkuðum til að vinna gegn alvarlegri fjármálakreppu. Verði ekki brugðist við nú muni það kosta meira síðar. Þetta kom fram í sjónvarpsávarpi forsetans sem hann hélt í gærkvöldi að bandarískum tíma.
Í frétt BBC af ávarpi forsetans kemur fram að hann hafi boðið forsetaframbjóðendunum John McCain og Barack Obama í Hvíta húsið á fimmtudag til að ræða björgunaraðgerðir sem kosta munu 700 milljarða bandaríkjadala. Keppinautarnir hafa samþykkt að fresta sjónvarpskappræðum um efnahagsvandann.(mbl.is)
Bush sagði,að hann væri stuðningsmaður einkaframtaks og undir eðlilegum kringumstæðum andvígur íhlutun ríkisins i markaðinn en nú væru ekki eðlilegar kringumstæður. Markaðurinn væri ekki að virka eðlilega. Í fyrsta sinn er ég sammmála Bush. Ég tel,að þetta mikla fjárframlag bandaríska ríkisins geti rétt markaðinn af og afstýrt meiriháttar fjármálakreppu.. En þingið hefur efasemdir og ekki sér enn fyrir endann á því hvort tillögur Bush verða samþykktar á þinginu.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Efnahagslífið í hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 25. september 2008
Verður seta í Öryggisráðinu Íslandi til góðs?
Góðar horfur eru nú á því,að Ísland fái sæti í Öryggisráði Sþ. Kosið verður í ráðið í næsta mánuði.Þegar ákveðið var,að Island mundi bjóða sig fram til setu í ráðinu var það mjög umdeilt hér á landi. Margir töldu hér um hreint bruðl að ræða og að nota mætti peningana betur í annað en í kostnað við framboð.Málsmetandi sjálfstæðismenn tóku undir þessa gagnrýni. En þegar frá leið þögnuðu gagnrýnisraddir og nú virðist þjóðin nokkuð einhuga um málið.
En hvaða þýðingu hefur það fyrir Ísland að fá sæti í Öryggisráðinu. Það hefur mikla þýðingu.Ísland verður þar fulltrúi Norðurlanda og getur haft áhrif á mikilvægar áhvarðanir í alþjóðamálum.Ísland verður að gæta þess að láta ekki stórveldin ráðskast með sig þegar greiða á atkvæði í Öryggisráðinu. Sú var tíðin,að Bandaríkin höfðu Ísland í vasanum í alþjóðamálum. En það er liðin tíð. Ingibjörg Sólrún,utanríkisráðherra,hefur gert sér far um að móta sjálfstæða utanríkisstefnu og hefur hún ferðast til átakasvæða til þess að kynna sér málin frá fyrstu hendi. Hún hefur sérstaklega lagt áherslu á mannréttindamál og jafnréttismál og ef til vill getur Ísland látið að sér kveða í þeim málum eftir að Ísland er komið í Öryggisráðið.
Björgvin Guðmundsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)