Þriðjudagur, 5. október 2010
Viðskiptaráðuneyti mælir gegn flötum niðurskurði
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið segir í skýrslu um efnahagsstefnuna, sem lögð var fram á Alþingi í gærkvöldi, að flöt niðurfelling skulda sé ekki skynsamleg leið til að tryggja aðlögun skulda fyrirtækja og heimila þar sem hún komi ekki fólki í neyð að neinu gagni og gæti gert fjárhagsstöðu ríkissjóðs og þar af leiðandi skattgreiðanda enn verri.
Ráðuneytið segir, að langstærstur hluti skulda almennings sé í eigu ríkissjóðs í gegnum Íbúðalánasjóð en lækkun á eignum Íbúðalánasjóðs þyrfti að fjármagna með eiginfjárframlagi ríkissjóðs sem væri fjármagnað að endingu með hærri sköttum á almenning.
Þá dragi flatur niðurskurður úr getu fjármálakerfisins og ríkissjóðs til þess að aðstoða þá sem raunverulega þurfa á fjárhagsaðstoð og niðurfærslu skulda að halda.
Hins vegar er ljóst að ósjálfbær skuldabyrði heimila og fyrirtækja hefur slæm áhrif á samfélagið, tefur endurreisn hagkerfisins og getur dregið úr hagvexti til margra ára ef ekkert er að gert. Það er því nauðsynlegt að sem flestir sem á þurfa að halda nýti þau skuldaúrræði sem stjórnvöld hafa kynnt og að fjármálafyrirtækin nýti það svigrúm sem myndaðist við stofnun þeirra til þess að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja," segir í þjóðhagsáætluninni.
Þar segir, að skuldaaðlögun muni verða öllum til góða þar sem hún styrki forsendur hagvaxtar. Aukinn hagvöxtur gefi heimilum og fyrirtækjum betra tækifæri til þess að standa undir skuldbindingum sínum þegar hlutfall þeirra af landsframleiðslu og tekjum lækkar á nýjan leik.(visir.is)
Það kemur lítið nýtt fram í tilkynningu efnahags-og viðskiptaráðuneytis.Andstaðan við flatan niðurskurð er ekki ný. Mér finnst ekki nægilega mikið koma fram um aðgerðir til þess að leysa skuldavanda heimilanna. Sennilega hefur þetta verið samið fyrir útifundinn i gær.En nú dugar ekkert hálfkák lengur. Það verður að gera róttækar ráðstafanir til þess að leysa vanda heimilanna.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.