Laun hafa stórhækkað; lífeyrir aldraðra og öryrkja við fátæktarmörk!

 

Miklar umræður hafa átt sér stað í þjóðfélaginu undanfarið um kjaramál,einkum vegna úrskurðar kjararáðs um mjög miklar launahækkanir embættismanna,stjórnmálamanna,dómara og fleiri og mikla afturvirkni þeirra.Alþýðusamband Íslands segir, að umræddir úrskurðir spilli fyrir lausn í kjaramálum á almennum vinnumarkaði. Forseti ASÍ fer fram á, að úrskurðir kjararáðs um hinar miklu launahækkanir verði afturkallaðar.

Leiðrétting á kjörum aldraðra átti að hafa forgang

  Það er notað sem rökstuðningur fyrir óhóflegum launahækkunum, sem kjararáð hefur  úrskurðað, að laun stjórnmálamanna og embættismanna hafi verð fryst og lækkuð á krepputímanum.Aldraðir og öryrkjar máttu einnig sæta frystingu lífeyris og annarri kjaraskerðingu á krepputímanum en hafa ekki fengið neina leiðréttingu vegna þess eins og embættismenn og stjórnmálamenn.Það hefði verið brýnna að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja vegna fyrri kjaraskerðinga, þar eð lífeyrir þeirra lægstlaunuðu meðal þeirra dugar ekki til framfærslu.Stjórnmálamenn og embættismenn komust hins vegar sæmilega af áður en þeir fengu himinháar launahækkanir, sem kjararáð úrskurðaði þeim.

2015: Launahækkun 14,5%-40%- Hækkun lífeyris 3%!

Á árinu 2015 urðu miklar almennar launahækkanir í þjóðfélaginu.Lágmarkslaun hækkuðu þá um 14,5% frá maí á því ári; grunnskólakennarar fengu 33% launahækkkun á 3 árum og 11% til viðbótar  gegn afsali kennsluafsláttar, hjúkrunarfræðingar fengu 23,9% hækkun á 4 árum, BHM fékk 13% launahækkun á 2 árum, Mjólkurfræðingar 18% hækkun,  Blaðamenn 16%,Læknar 25-40% hækkun. Þetta er hvergi nærri tæmandi upptalning en aðrar launahækkanir ársins voru á svipuðum nótum og allar þessar hækkanir leiða í ljós hver launaþróun ársins var. En tekið er skýrt fram í lögum, að taka  eigi tillit til launaþróunar við ákvörðun á lífeyri aldraðra og öryrkja.Á þessu ári mikilla almennra launahækkana hækkaði lífeyrir aldraðra og öryrkja um 3%; segi og skrifa 3%! Er þetta eitt grófasta dæmið um valdníðslu gagnvart öldruðum og öryrkjum.Hér er skýrt dæmi um það, að lög eru brotin á öldruðum og öryrkjum.Nær allar stéttir fá miklar launahækkanir;lágmarkslaun hækka um 14,5% en önnur laun hækka miklu meira.Samt hækkar lífeyrir aðeins um 3%! Ekki þýðir að vitna í hækkun lífeyris næsta ár á eftir; þá hækkað hann meira en samt á svipuðum nótum og lágmarkslaun.

Stjórnmálamernn og embættismenn fá  21-48% 

Á árinu 2016 úrskurðaði kjararáð, að laun þingmanna skyldu hækka um 44%  og verða 1,1 milljón á mánuði, laun ráðherra hækka um 35% og verða 1,8 milljón á mánuði og laun forsætisráðherra hækka í rúmar 2 milljónir á mánuði. Þingmenn og ráðherrar fá síðan ýmsar aukasporslur,sem hækka laun þeirra enn.Laun biskups voru hækkuð 2017 um 21% og fóru í 1,5 milljón kr. á mánuði og afturvirk hækkun í 1 ár.Dómarar fengu einnig mikla launahækkun um áramótin 2015/2016.Laun dómara hækkuðu um 31,6%- 48,1%.Laun hæstaréttardómara hækkuðu í 1,7 mill.kr og laun forseta Hæstaréttar í 1,9 millj kr.Laun dómstjórans í Reykjavík hækkuðu í 1,5 milljón kr.Kjararáð ákvað einnig á árinu 2016 að hækka mjög mikið laun háttsettra embættismanna og nefndarformanna.Var hér um að ræða hækkun á bilinu 29-48% og afturvirka launahækkun 18 mánuði aftur í tímann! Kjararáð á að taka tillit til launaþróunar á almennum markaði.Er undarlegt, að ein ríkisstofnun, kjararáð,skuli komast að þeirri niðurstöðu, að launahækkun allt upp í 48,1% sé í samræmi við launaþróun en önnur ríkisstofnun komast að allt annarri niðurstöðu.Samkvæmt lögum á einnig á að taka tillit til launaþróunar við ákvörðun lífeyris.Ríkisvaldið taldi það í samræmi við launaþróun 2015 að hækka lífeyri aðeins um 3% þrátt fyrir alla hinar miklu hækkanir ársins.Og nú telur ríkisvaldið 4,7% hækkun í samræmi við launaþróun þó sú hækkun nái ekki einu sinni hækkun lágmarkslauna og himinháar launahækkanir hafi átt sér stað  í þjóðfélaginu, sbr hækkanir,þingmanna,ráðherra,embættismanna,dómara og biskups.

Ég tel það hreina valdníðslu gagnvart öldruðum og öryrkjum að halda lífeyri þeirra niðri við fátæktarmörk á sama tíma og laun í þjóðfelaginu hafa verið hækkuð eins mikið og lýst hefur verið i þessari grein.Er ekki kominn tími til þess að aldraðir og öryrkjar fái að njóta réttlætis og lifeyrir þeirra verði hækkaður svo mjög,að þeir geti lifað mannsæmandi lífi og átt áhyggjulaust ævikvöld.

 

Björgvin Guðmundsson 
Morgunblaðið 8.feb.2018
 


 


 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband