Fimmtudagur, 20. desember 2018
Almannatryggingar áttu að vera fyrir alla
Árið 1944 tók við völdum ríkisstjórn,sem kölluð var Nýsköpunarstjórnin.Í ríkisstjórninni sátu þessir flokkar: Alþýðuflokkur,Sjálfstæðisflokkur og Sósialistaflokkur.Alþýðuflokkurinn setti það skilyrði fyrir aðild að stjórninni, að sett yrðu lög um almannatryggingar.Það var samþykkt.Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, var forsætisráðherra.Lög um almannatryggingar voru sett 1946 og sagði Ólafur Thors þá, að þau ættu að vera fyrir alla án tillits til stéttar eða efnahags. Ólafur sagði ennfremur, að almannatryggingalögin ættu að vera framsækin og íslensku almannatryggingarnar að verða í fremstu röð slíkra trygginga í Evrópu.Og þetta gekk eftir í fyrstu. Almannatryggingarnar íslensku voru fyrstu árin í fremstu röð slíkra trygginga í Evrópu.En síðan fóru þær að dragast aftur úr.
Íslendingar reka lestina í dag
Og í dag reka Íslendingar lestina, þegar slíkar tryggingar eru bornar saman.Hvað hefur gerst? Hvers vegna hefur Ísland ekki getað haldið í við hin löndin á þessu sviði? Er Það vegna þess að efnahagur Íslands sé í kalda koli?.Eða er það vegna þess að Íslendingar séu svo fátækir? Svarið er nei. Ísland er 11.ríkasta landið í heimi í dag.Og ráðherrarnir tala stöðugt um, að hagvöxtur sé mjög mikill hér, meiri en í grannlöndunum og efnahagsmál séu í mjög góðu lagi hér!
Stjórnmálamennirnir hafa brugðist
Það er íslenskum stjórnmálamönnum að kenna, að Ísland hefur dregist aftur úr öðrum þjóðum á sviði lífeyrismála aldraðra, þ.e. varðandi greiðslur ríkisins til eftirlauna aldraðra.Það er sama hvort litið er á Norðurlönd eða OECD. Framlög ríkisins til eftirlauna aldraðra eru miklu minni hér en á hinum Norðurlöndunum eða hjá OECD ríkjum. Það,sem á stóran þátt í þessari útkomu, er mikil skerðing ríkisins á lífeyri almannatrygginga til aldraðra vegna greiðslna til þeirra úr lífeyrissjóðum.Slíkar skerðingar eru miklu meiri hér en á hinum Norðurlöndunum.Stjórnmálamenn hafa fallið fyrir þeirri freistingu að grípa til slíkra skerðinga til þess að spara fyrir ríkið.
Lífeyrissjóðirnir áttu að vera viðbót við TR
Þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir var meiningin, að þeir yrðu hrein viðbót við almannatryggingar.Alþýðusamband Íslands lýsti því yfir 1969, að svo ætti að vera og margir verkalýðsleiðtogar staðfesta, að þessi hafi verið meiningin.Margir eldri borgarar á eftirlaunaaldri telja það hrein svik , að vikið skuli hafa verið frá þessu.
Stöðva verður skerðingu lífeyris!
Brýnt er að stöðva skerðingu lífeyris almannatrygginga til eldri borgara, sem fá lífeyri úr lífeyrissjóðum af tveimur ástæðum:1) vegna þess,að gert var ráð fyrir því í upphafi ,að lífeyrissjóðir yrðu hrein viðbót við almannatryggingar 2) vegna þess að það er réttlætimál að afnema umrædda skerðingu. Bæta má við þriðju ástæðunni.Hún er sú,að það kostar ríkið lítið sem ekkert að afnema þessa skerðingu
Staðan er misjöfn
Að mínu ,mati er staða margra eldri borgara mjög slæm í dag.Verst er staða þeirra, sem ekki hafa neinn lífeyrissjóð.Þar er um að ræða talsverðan hóp fólks ,t.d. heimavinnandi húsmæður,sem misst hafa maka sinn eða hafa verið einhleypar og hafa ekki greitt í í lífeyrissjóð, einyrkja, sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóð eða sáralítið,eldri borgara,sem misst hafa heilsuna og lífeyrisþega, sem greitt hafa í lífeyrissjóði, sem orðið hafa gjaldþrota.- Ófaglært verkafólk og ýmsir iðnaðarmenn eru í lélegum lífeyrissjóðum.Það bætist síðan við, að þessir aðilar sæta skerðingu tryggingalífeyris frá TR vegna lífeyrissjóða. Þessir aðilar eru nokkru betur settir en þeir sem hafa engan lífeyrissjóð en það munar ekki mjög miklu. En best eru þeir settir,sem hafa góðan lífeyrissjóð,hafa skuldlítið eða skuldlaust húsnæði eða varasjóð, t.d. vegna sölu eigna.
Brýnt er að bæta kjör þeirra,sem eru illa staddir.
Ég hef oft bent á,að staða eldri borgara er betri á hinum Norðurlöndunum en hér enda greiðslur ríkisins til eftirlauna mun minni hér ,ef miðað er við hlutfall ad vergri landsframleiðslu.Grunnlífeyrir er greiddur á hinum Norðurlöndunum en hér hefur hann verið lagður niður. Ljóst er að ráðamenn hér vilja breyta almannatryggingum í fátækraframfærslu sem er þverröfugt við það sem ákveðið var í upphafi og kom skýrt fram í yfirlýsingu Ólafs Thors 1946.Þessu hefur ekki verið breytt lögformlega.Athyglisvert er,að á hinum Norðurlöndunum og víða í Evrópu hlakka eldri borgarar til þess að komast á eftirlaun sem fyrst en hér vilja eldri borgarar fá að vinna sem lengst.Þeir telja sig ekki hafa efni á því að fara á eftirlaun!
Björgvin Guðmundsson
Mbl.20.des.2018
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.