Baugsmálið komið fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur tók Baugsmálið svonefnda fyrir í morgun og verður málflutningur í dag og á morgun. Um er að ræða mál ákæruvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Baugs, Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs og Jóni Geraldi Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélaga Baugsmanna.

Hæstaréttardómarnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson dæma málið.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur var Tryggvi dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og þeir Jón Ásgeir og Jón Gerald í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Héraðsdómur vísaði upphaflega flestum ákæruatriðum málsins frá en Hæstiréttur ómerkti dóminn og gerði héraðsdómi að kveða upp efnisdóm.

Ákæra í málinu var í upphafi í alls nítján liðum en 1. ákæruliðnum, sem snerist um viðskipti með móðurfélag 10-11 verslananna á árunum 1998 og 1999, var vísað frá héraðsdómi sumarið 2006. Hæstiréttur staðfesti síðar þá frávísun.

Héraðsdómur vísaði síðan 10 ákæruliðum til viðbótar frá í maí á síðasta ári en dæmdi Tryggva í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi, aðallega fyrir að láta útbúa tilhæfulausar kreditnótur og rangfæra þannig bókhald Baugs. Jón Ásgeir var einnig fundinn sekur um að hafa látið Jón Gerald   útbúa tilhæfulausan kreditreikning fyrir upphæð að fjárhæð nærri 62 milljónir króna. Jón Gerald var sýknaður.

Hæstiréttur felldi  frávísun héraðsdóms að mestu úr gildi og sá angi málsins sem sneri að þeim var endurfluttur í júní. Í þeim hluta var Jón Ásgeir sýknaður en skilorðsbundin refsing Tryggva þyngd um þrjá mánuði. Þá var Jón Gerald dæmdur til þriggja mánaða skilorðsbundinnar refsingar.

Í greinargerð ákæruvaldsins sem send hefur verið til Hæstaréttar er lögð áhersla á að brotin hafi verið framin af tveimur æðstu stjórnendum almenningshlutafélags sem skráð hafi verið á almennum markaði.

Tryggvi og Jón Ásgeir hafi notað þekkingu sína á sviði bókhalds og endurskoðunar til að leyna brotlegri starfsemi sinni.

Ákæruvaldið telur brotin hafa beinst gegn mikilvægum opinberum hagsmunum, kaupendum og seljendum hlutafjár í félaginu, viðskiptamönnum, lánardrottnum og trúverðugleika verðbréfamarkaðar hér á landi í heild.

Hér er um að ræða eitthvað umfangsmesta dómsmál seinni tíma. Það er búið að vísa flestum uoohaflegu  sakarefnunum frá en ákæruvaldið hefur alltaf haldið áfram með málið og reynt að grafa upp fleiri og fleiri mál.Margir telja,að hér hafi verið um ofsóknir á hendur Baugi að ræða og ætlunin hafi verið að koma fyrirtækinu á kné. Forráðamenn Baugs telja,að Davíð Oddsson hafi staðið á bak við lögreglurannsóknina gegn fyrirtækinu og þess vegna hafi hún hlotið flýtimeðferð.Jónína Benediktsdóttir,fyrrum sambýliskona Jóhannesar í Bonus, skýrði frá því í tímaritsviðtali,að hún hefði farið fund Davíðs Oddssonar og  sagt við hann,að þeir Bonusfeðgar væru að " svindla" ´í Bandaríkjunum. Hún mun hafa hvatt Sullenberger til þess að kæra Bonusfeðga.Hvað rétt er í þessu er erfitt að átta sig á.

Björgvin Guðmundsson

 

 

 

 


mbl.is Baugsmálið fyrir Hæstarétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Án þess að ég telji það öllu máli skipta, er rétt að halda til haga, að Jónína Benediktsdóttir hefur margoft lýst yfir því, að hún hafi aldrei hitt Davíð Oddsson og aldrei talað við hann. Hún hafi margoft reynt að ná fundi hans, þegar hann var forsætisráðherra, en það hafi aldrei tekist. Jónína hefur sjálft líka margoft sagt, að upptök Baugsmálsins séu hjá Jóni Gerald Sullenberger og sjálfri sér, flóknara sé það ekki. Aðalatriðið er þó ekki, hvar upptök eru að máli, heldur hvert það er efnislega. Ég óska Baugsmönnum alls góðs í raunum þeirra fyrir dómstólum, en þeir eiga að hljóta sömu efnislegu meðferð og allir aðrir óháð því, hverjir eru vinir þeirra eða óvinir.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband