Laugardagur, 23. febrúar 2008
VG ræðst á Samfylkinguna
Blikur eru á lofti í heilbrigðismálum, segir varaformaður Vinstri grænna og brýnir flokksmenn til að veita stjórnvöldum áfram aðhald. Hann gagnrýnir Samfylkinguna fyrir stóriðjustefnu og innantóm loforð um stóriðjuhlé.
Flokksráð vinstri grænna kom saman til fundar á Hótel Loftleiðum síðdegis í gær. Varaformaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, hélt setningarræðuna en skilaboð hennar voru að brýna flokkssystkini sín til að veita stjórnvöldum áfram aðhald og standa fyrir hugmyndafræðilegri endurnýjun.
En hún sendir stjórnarflokkunum líka tóninn og segir Samfylkinguna hafa flotið í gegnum stjórnarsamstarfið með því að benda á Sjálfstæðisflokkinn þegar miður fer og baða sig í nýjum ljóma ráðherradóms og valda án þess að taka ábyrgð á verkum ríkisstjórnarinnar. Á hverjum degi heyrist Samfylkingarfólk tala eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé höfuðandstæðingar, bætir Katrín við.
Hún spyr meðal annars hvað hafi orðið um kosningaloforðið fagra Ísland.
Það vekur athygli,að Vinstri grænir skuli gera harða árás á Samfylkinguna.Enda þótt Samfylkingin sé tímabundið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eru Samfylkingin og VG tvær greinar á sama meiði. Báðir flokkarnir eru í raun jafnaðarmannaflokkar og í raun ætti VG að vera í Samfylkingunni og svo hefði orðið ef innanflokksátök milli Margrétar Frímannsdóttur og Steingríms J. í Alþýðubandalaginu hefðu ekki leitt til annarrar niðurstöðu. En skynsamlegast væri fyrir VG að beina spjótum sínum að öðrum flokkum. Ef þessi flokkar eiga að geta starfað saman í framtíðinni er betra að þeir ráðist ekki harkalega hvor á annan.
Samfylkingin hefur ekkert breytt um stefnu í stóriðjumálum frá því í kosnningunum. Samfylkingin eða ríkisstjórnin hafa ekki samþykkt neinar nýjar álverksmiðjur eða aðra stóriðju. Umhverfisráðherra á enn eftir að úskurða um umhverfismat vegna álverksmiðju í Helguvík. Árás VG á Samfylkinguna er því gerð á rögum forsendum.
Björgvin Guðmundsson
Laugardagur, 23. febrúar 2008
Þorsteinn Már tekur til hendinni
Þorsteinn Már Baldvinsson, nýkjörinn formaður stjórnar Glitnis segir að meðan hann sitji sem formaður, verði ekki gerðir frekari starfslokasamningar. Því megi viðskiptavinir og hluthafar Glitnis treysta.
Þorsteinn útilokar ekki að síðar verði gerðir kaupréttarsamningar við starfsmenn bankans, en segir að slíkir samningar verði háðir því að raunverulegur árangur náist. Ég tel að starfsmenn eigi að hafa ávinning af því þegar fyrirtæki gengur vel, segir Þorsteinn Már.
Það ber að fagna því að Þosteinn Már taki til hendinni sem stjórnarformaður Glitnis.Hann hefur sýnt það sem framkvæmdastjóri og aðaleigandi Samherja,að hann er duglegur og hæfileikaríkur stjórnandi.Enginn vafi er á því að hann getur látið gott af sér leiða hjá Glitni. Háir starfslokasamningar og kaupréttarsamningar þar og hjá öðrum bönkum hér eru komnir langt
út fyrir eðlileg mörk og hafa rýrt trú almennings á bankana.Ekki veitir af að endurvekja tiltrú almennings hér og erlendis á
islenska banka.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Ekki fleiri starfslokasamninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Verum ekki með fordóma gagnvart útlendingum
Nokkuð ber á fordómum hér gagnvart útlendingum.Einkum virðast menn hræddir við Múslima og fólk frá Arabalöndunum.Að vísu er mjög fátt hér um slíkt fólk.En margir virðast telja, að flestir Arabar séu hryðjuverkamenn. Það er auðvitað fráleitt.Og margir vilja kenna útlendingum um allt sem aflaga fer hér í næturlífi. Ef útlendingar eru viðriðnir obeldi á almannafæri eru fjölmiðlar mun dómharðari í þeirra garð en ef Íslendingar eiga í hlut.Auðvitað eru útlendingar, sem setst hafa hér að misjafnir eins og Íslendingar.Það gengur ekki að dæma alla útlendinga, sem hér búa, eftir nokkrum svörtum sauðum.Margir útlendinganna eru ágætis fólk. Það er t.d. látið mjög vel af Pólverjum sem vinnukrafti í frystihúsum landsins og yfirleitt eru þeir ekki til neinna vandræða.
Við skulum ekki vera með neina fordóma gagnvart útlendingum.
Björgvin Guðmundsson
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Vilhjálmur situr áfram
- Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur ákveðið að sitja áfram sem oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og taka sæti borgarstjóra eftir rúmt ár. Stöð 2 fullyrti þetta í fréttum sínum í kvöld og sagði að Vilhjálmur hefði tilkynnt nánum samstarfsmönnum sínum þetta. Formlegrar tilkynningar væri hins vegar að vænta síðar.
Vilhjálmur sýnir mikið hugrekki með þessu. Það var nánast búið að afskrifa hann í pólitíkinni.Forustumenn Sjálfstæðisflokksins í landsmálum og borgarmálum voru búnir að afskrifa hann.Einhverjir úr forustu flokksins pöntuðu könnun hjá Gallup þegar nýbúið var búið að vera stórt viðtal við Hönnu Birnu á Stöð 2. Sú könnun sýndi Hönnu Birnu með langmest fylgi sem leiðtoga og Vilhjálm með mjög lítið fylgi. En Vilhjálmur lætur þetta sem vind um eyru þjóta og býður forustunni byrginn. Hann ætlar að sitja áfram. Nú er eftir að sjá hvort hann réttir sig af eða veldur Sjálfstæðisflokknum miklu fylgistapi.
Að mínu mati gildir einu hvort Vilhjálmur,Hanna Birna eða Gísli Marteinn eru leiðtogar íhaldsins í Rvk.Þau bera öll jafna ábyrgð á klúðrinu,Rei málinu og samstarfinu við Ólaf Magnússon sem kostaði borgarstjórastólinn. Þau keyptu Ólaf til fylgis við sig með borgarstjórastólnum. Þau bera öll jafna ábyrgð á því siðleysi. Það hefði því ekki dugað að fórna VilhJálmi. Það hefði þurft að láta þau öll 3 fara en íhaldið hefði ekki þolað það. Þess vegna verða Hanna Birna og Gísli Marteinn að sætta sig við það að Vilhjálmur sitji áfram.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Vilhjálmur ætlar að sitja áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Hugmyndin um byggðakvóta á uppboð fær neikvæðar undirtektir
Mörður Árnason skrifar um hugmynd Ingibjargar Sólrúnar um að setja byggðakvóta á uppboðsmarkað.Hann segir,að hugmyndin hafi fengið jákvæðar undirtektir: LÍU hafi brugðist ókvæða við og lagst gegn hugmyndiinni. Sjávarútvegsráðherra hafi sagt,að ræða mætti hugmyndina.Kristinn Gunnarsson þingmaður hafi sagt,að hugmyndin gengi alltof skammt,hún tæki aðeins til 3% veiðiheimilda,það yrði að bjóða upp mikið meira. Ekki geta þetta nú kallast jákvæðar undirtektir.
Sjávarútvegsráðherra sagði í blaðaviðtali, að byggðakvótinn hefði gagnast þeim vel sem verst stæðu að vígi. Vissulega væri slæmt að svipta þá lífsbjörginni. Engin trygging væri fyrir því að þeir fengju andvirði byggðakvótans,ef hann væri boðinn upp.Ég tek undir það.
Auk þess er hér um alltof lítið skref til þess að það dugi Mannréttindanefnd Sþ. Það verður að opna kerfið mikið meira til þess að svo verði.
Björgvin Guðmundsson
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Tekjutap Vestmannaeyja vegna stöðvunar loðnuveiða 4 milljarðar!
Bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum segir að tekjutap sveitarfélagsins vegna stöðvunar á loðnuveiði sé tæpir 4 milljarðar og vill að látið verði af öllum handaflsaðgerðum í sjávarútvegi, fræðasvið sjávarútvegs verði styrkt, hafrannssóknir efldar, hafnaraðstaða verði byggð upp í Eyjum og hvalveiðar verði hafnar af fullum þunga. Árni, fjármálaráðherra,segir að bæjarstjórinn í Eyjum hafi kynnt sér tillögurnar í gær og þeir muni ræða tillögurnar frekar.
Loðnuveiðar voru stöðvaðar í gær,þar eð litil loðna hefur fundist. Þetta er gífurlegt áfall fyrir útgerðina til viðbótar við þriðjungs niðurskurð þorskkvótans.Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa litlum árangri skilað fram að þessu. Nú virðist sem ráðherrar séu að átta sig á því. Geir Haarde segir að endurmeta verði mótvægisaðgerðir og Árni Mathiesen tekur í sama streng enda líst honum ekki á blikuna þegar loðnuveiðar hafa verið stöðvaðar og það eru fyrst og fremst Vestmannaeyjar,sem fá skellinn af því. Vestmannaeyjar eru mikilvægur staður í kjördæmi Árna og nú eru Vestmannaeyingar reiðir.
Björgvin Guðmundsson
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Breiðavíkurvistmenn fá bætur
Geir H. Haarde forsætisráðherra mun í framhaldi af kynningu skýrslu nefndar um Breiðavíkurmálið fjalla um skýrsluna á vettvangi Alþingis á næstunni. Þetta kom fram á kynningarfundi nefndarmanna með fulltrúum fjölmiðla í dag.
Fram kom á fundinum að nefndin leggi til að yfirvöld taki afstöðu til þess hvort greiða eigi fyrrum vistmönnum heimilisins skaðabætur, þrátt fyrir að lagaleg skaðabótaskylda sé fyrnd. Verði það ákveðið þurfi einnig að ákveða hvernig að því skuli staðið, hvort sett verði lög sem nái til allra þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli eða hvort fjallað verði um einstök mál fyrir dómstólum.
Mælt er með því að yfirvöld taki ákvörðun um aðgerðir til að tryggja það að Breiðavíkurmálið geti ekki endurtekið sig m.a. með því að setja skýrar reglur um eftirlit með barnaverndarmálum og samræmingu starfsreglna barnaverndarnefnda. Sérstaklega er einnig mælt með því að menntun rekstraraðila og starfsmanna meðferðarheimila fyrir börn verði efld.
Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að greiða fyrrum vistmönnum í Breiðavík bætur.
Fagna ber því,að loks skuli komin niðurstaða í þetta mál,sem er smánarblettur á þjóðinni. Mikilvægt er nú að athuga önnur slík heimili,sem rekin eru í dag.Slæm meðferð á börnum og unglingum og misnotkun getur gerst enn og því þarf að rannsaka önnur heimili og setja strangar reglur eins og mælt er með í skýrslu nefndarinnar.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Áframhald Breiðavíkurmálsins í höndum yfirvalda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Eru fjármagnstekjur mikilvægari en lífeyrissjóðstekjur?
Það mun hafa verið ákveðið að setja 90 þús. kr. frítekjumark fyrir fjármagnstekjur.Er það m.a. rökstutt með því,að þá muni draga úr ofgreiðslum Tryggingastofnunar,þar eð oft séu það fjármagnstekjur sem gleymist eða séu vanáætlaðar hjá öldruðum.Það kann að vera góð og gild röksemd. En skýtur það ekki nokkuð skökku við,að tryggingabætur séu fremur skertar vegna lífeyrissjóðstekna en vegna fjármagnstekna.Hvort tveggja er sparnaður í flestum tilvikum. Lífeyrissjóður er ævilangur sparnaður. Fólk hefur greitt í lífeyrissjóð alla ævi til þess að eiga eitthvað til efri ára að vinnudegi loknum.Fjármagnstekjur eru yfirleitt einnig tilkomnar vegna sparnaðar en þá er þar um viðbótarsparnað að ræða. Þeim sparnaði er gert hærra undir höfði en lífeyrissjóðs sparnaði. Það sama á raunar við um viðbótarlífeyrirssparnað. Frá og með næstu áramótum á að vera unnt að leysa hann út án þess að hann valdi skerðingu tryggingabóta. Viðbótarlífeyrissparnaður verður þá einnig tekinn fram yfir lífeyrissjóðssparnað. Stenst þetta? Er unnt að verðlauna viðbótarlífeyrissparnað og fjármagnstekjur en refsa mönnum fyrir að greiða í lífeyrissjóð. Ég held ekki. Það verður að afnema skerðingu tryggingabóta vegna lífeyrissjóðstekna.
jörgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Guðni skrifar Seðlabankanum um efnahagsmál
Guðni Ágústsson,formaður Framsóknar hefur skrifað Seðlabankanum og lagt fyrir bankann nokkrar spurningar um efnahagsmál. Spurningarnar eru þessar:
1. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að breytingar á fjármálamörkuðum hér heima fyrir og erlendis síðustu vikur hafi á tekjuöflun ríkisins?
2. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að nýloknir kjarasamningar hafi á þróun efnahagslífsins og tekjuöflun ríkisins?
3. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að nýkynntar tillögur ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjaramálum hafi á þróun efnahagslífsins, ríkisútgjöld og tekjuöflun ríkisins?
4. Hvað telur Seðlabankinn mikið svigrúm til frekari útgjaldaaukningar hjá ríkissjóði í tengslum við þá kjarasamninga sem ólokið er?
5. Hvort telur Seðlabankinn að fjárlög ársins 2008 hafi haft jákvæð eða neikvæð áhrif á það ójafnvægi sem við búum við í efnahagsmálum nú um stundir?
6. Telur Seðlabankinn að ríkisstjórn Íslands hafi gengið nógu langt í þá átt að draga úr þenslu í samfélaginu?
Guðni setur Seðlabankann í nokkurn vanda með spurningum sínum.Hætt er við að ágreiningur geti orðið milli Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar um nokkur þeirra atriða sem Guðni spyr um. Fróðlegt verður að sjá svör Seðlabankans.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 21. febrúar 2008
Á að reka alla ellilífeyrisþega út á vinnumarkaðinn?
Þess verður vart hjá mörgum,að þeir telja miklar kjarabætur fyrir aldraða felast í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að greiða fyrir því að eldri borgarar geti verið á vinnumarkaðnum,þ.e. með því að draga úr skerðingu tryggingabóta vegna atvinnutekna. Rétt eins og reka eigi alla eldri borgara
út á vinnumarkaðinn.Að vísu eru önnur atriði í þessu frumvarpi svo sem afnám skerðingar bóta vegna tekna maka og að þeir,sem ekki eru í lífeyrissjóði fái ei að síður 25 þúsund krónur úr lífeyrissjóði. Þeir eru að vísu aðeins 300,sem mundu verða þess aðnjótandi og eftir skatta og skerðingar verða aðeins 8 þús. kr.. eftir af þessum 25 þúsund kr.
Guðbjartur Hannesson,þingmaður Samfylkingarinnar sagði við umræðu um frumvarpið, að stórt skref væri stigið í kjaramálum aldraðra og öryrkja með þessum frumvarpi. Hann sagði raunar,að mest allt í stjórnarsáttmálanum um þessi mál væri með frumvarpinu komið til framkvæmda!Það er misskilningur. Það er ekkert í frumvarpinu um hækkun á lífeyri þeirra eldri borgara,sem ekki eru á vinnumarkaði. Aðgerðir til þess að hækka lífeyri aldraðra hljóta fyrst og fremst að beinast að þeim ellilífeyrisþegum,sem hættir eru að vinna. Það er um 70% eldri borgara. Þau 3oo manns,sem fá munu 25 þúsund krónur í lífeyri ( les: 8000 kr.) skipta litlu máli í þessu sambandi.
Það er vissulega gott að draga úr tekjutengingum eldri borgara en það dugar ekki til þess að bæta stöðu eldri borgara nægilega.Aðalatriðið er að hækka lífeyri eldri borgara það mikið, að hann dugi fyrir neysluútgjöldum og sómasamlegu lífi á efri árum.
Björgvin Guðmundsson