Færsluflokkur: Bloggar

Staðan í málefnum aldraðra og öryrkja hefur lítið sem ekkert lagast!

Alþingi er farið í sumarleyfi og kemur ekki saman fyrr en 12.september.Alþingismenn þurfa lengra sumarleyfi en aðrir landsmenn.Það væri í lagi,ef þingmenn ynnu vel á meðan þeir væru að störfum.En svo er ekki.

Ég hef margoft skorað á alþingi að taka rögg á sig og bæta kjör aldraðra og öryrkja það mikið,að þessir aðilir gætu ekki aðeins framfleytt sér heldur lifað með reisn. En því hefur ekki verið ansað.

" Leiðréttingin",sem gerð var á kjörum aldraðra og öryrkja um síðustu áramót var engin leiðrétting. Þetta var hungurlús,sem tekur ekki að nefna.Aldraðir í hjónabandu og sambúð hækkuðu þá um 12 þúsund krónur á mánuði og lífeyrir þeirra fór í 197 þúsund á mánuði eftir skatt.Það er brandari og furðulegt að löggjafarsamkoman skyldi bjóða öldruðum í hjónabandi upp á þessa hungurlús.Einhleypir fengu örlítið meiri hækkun eða um 23 þúsund kr á mánuði og hækkuðu í 230 þúsund á mánuði eftir skatt.Það er sama hvort við tölum um 197 þúsund kr eða 230 þúsund kr.Það er ekki unnt að lifa af þessu.Aldraðir og öryrkjar verða því eins og áður að neita sér um að fara til læknis eða að leysa út lyfin sín eða ef þeir  neita sér um það hvort tveggja verða þeir matarlausir síðustu daga mánaðarins.Þetta er mannréttindabrot; brot á stjórnarskránni. En stjórnarherrarnir láta sér það í léttu rúmi liggja.- Hér er verið að ræða um þá aldraða og öryrkja,sem eingöngu hafa tekjur frá almannatryggingum.

 

Björgvin Guðmundsson


Skerðing tryggingalífeyris: Mál gegn ríkinu þingfest í þessum mánuði!

Mikið hefur verið rætt um það undanfarin misseri,að skerðing á lífeyri aldraðra hjá almannatryggingum væri orðin svo mikil vegna greiðslna úr lífeyrissjóði,að líkast væri eignaupptöku.En síðan bárust fréttir af því skömmu eftir áramót,að Tryggingastofnun væri að skerða tryggingalífeyri aldraðra án lagaheimldar! Fallið hafði niður á alþingi við breytingar á lögum um almannatryggingar að setja inn lagaheimild  fyrir því að skerða tryggingalífeyri aldraðra.Í stað þess að flytja strax frumvarp til laga um þessa heimild eða jafnvel setja bráðabirgðalög um málið ákvað velferðarráðuneytið og Tryggingastofnun  að skerða lífeyri án lagaheimildar.Virðingarleysi þessara aðila fyrir lífeyrisréttindum eldri borgara er slíkt,að þeir töldu sig ekki lengur þurfa lagaheimild til þess að rífa lífeyrinn af þeim.Síðan gengur félagsmálaráðherrann fram og segir,að lífeyrissjóðirnir eigi að vera fyrsta stoðin í kerfinu(þegar ríkið er nánast búið að "stela" lífeyrissjóðunum" af eldri borgurum). Nei lífeyrissjóðirnur eru ekki fyrsta stoðin. Almannatryggingar eru fyrsta stoðin.Það var samþykkt við stofnun almannatrygginga.

Nú hefur verið ákveðið að stefna ríkinu vegna heimildarlausrar skerðingar tryggingalífeyris í janúar og febrúar. Málið verður þingfest í þessum mánuði.Það er Flokkur fólksins,sem stefnir ríkinu.

Björgvin Guðmundsson


Alþingi samþykkir,að mótuð verði heildstæð stefna í málefnum heilabilaðra

   Alþingi hefur samþykkt þingslályktunartillögu Guðjóns Brjánssonar þingmanns Samfylkingarinnar um að mörkuð verði heildstæð stefna í málefnum heilabilaðra.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að móta stefnu í málefnum einstaklinga með heilabilun sem feli í sér vitundarvakningu og fræðslu til almennings og aðstandenda, aukna áherslu á miðlæga skráningu, markvissar rannsóknir og átak til umönnunar fyrir ört stækkandi sjúklingahóp í samfélaginu.

Í greinargerð sagði svo m.a:.

    Heilabilun er þýðing á orðinu dementia sem notað er í flestum öðrum tungumálum en það er upprunnið úr latínu og þýðir bókstaflega „minnkuð hugsun“. Heilabilun er ástand sem getur stafað af sjúkdómi sem leggst á heilann eða skaða á heilanum og veldur því að hæfileiki til að muna, draga ályktanir, tjá sig og skipuleggja dvínar jafnt og þétt. Það er augljóslega mikið persónulegt áfall að greinast með heilabilun og enn er fátt vitað um raunhæfar forvarnir. Vandamálið kemur einkum upp á efri árum en einkenni birtast þó fyrr hjá u.þ.b. 10% sjúklinga. Þetta er heilbrigðisvandamál með miklar félagslegar afleiðingar. Oftast nær þróast heilabilun á löngum tíma, er lítt áþreifanleg í fyrstu en veldur svo vaxandi vanda. Rannsóknir á algengi vitrænnar skerðingar og heilabilunar gefa nokkuð misvísandi niðurstöður en almennt er gert ráð fyrir að um 10% þeirra sem eru 65 árs og eldri séu með vitræna skerðingu, liðlega helmingur þeirra sé með eiginlega heilabilun en aðrir með vægari einkenni og geti annast sig sjálfir.
    Einstaklingar með heilabilun þurfa því í auknum mæli á þjónustu samfélagsins að halda og á síðustu stigum duga ekki nema dýrustu samfélagslegu úrræðin, þ.e. sólarhringsvistun á hjúkrunarheimili. Kostnaður samfélagsins er því umtalsverður og eykst með auknum fjölda aldraðra. Beinn kostnaður vegna þessa sjúkdóms hefur ekki verið metinn hér á landi en er talinn vera að lágmarki um 5 milljarðar kr. og felst hann í nokkrum þáttum auk óbeins kostnaðar af ýmsu tagi. Gert er ráð fyrir að þriðjungur þeirra sem dveljast í hjúkrunarrýmum sé þar eingöngu vegna heilabilunar og afleiðinga hennar. Þá liggur fyrir að allt að 70% aldraðra í hjúkrunarrýmum eru með einhver einkenni heilabilunar. Það er því mikils um vert að nýta sem best öll úrræði samfélagsins sem geta gagnast einstaklingum með heilabilun og frestað sólarhringsvistun.
    Heilabilun er afleiðing nokkurra sjúkdóma þar sem alzheimer-sjúkdómurinn er algengastur og orsakar um 60%–70% heilabilunartilfella, en aðrir sjúkdómar eru t.d. Lewy body heilabilun og æðakölkun. Enn sem komið er eru engar leiðir til þess að lækna þessa sjúkdóma, en meðferð vegna heilabilunar er veitt með ýmsu móti, t.d. lyfjameðferð við undirliggjandi sjúkdómi, einnig fræðsla og umönnun einstaklinga með heilabilun og aðstandenda þeirra sem oftast sjá um umönnun innan heimilis. Sálfræðilegur og félagslegur stuðningur er veittur ásamt sérhæfðri hjúkrun og umönnun á seinni stigum.
    Margar rannsóknir sem varða einstaklinga með heilabilun hafa verið gerðar hér á landi. Um er að ræða rannsóknir af margvíslegum toga: grunnrannsóknir, erfðarannsóknir, rannsóknir í faraldsfræði og lyfjarannsóknir en niðurstöður úr þessum rannsóknum hafa almennt lítil áhrif á þjónustu. Einnig hafa verið gerðar minni rannsóknir sem eru nær daglegum vandamálum, svo sem á tækni við greiningu minnissjúkdóma og viðhorfum aðstandenda og einnig má nefna rannsóknir í umönnun. Nær undantekningarlaust hefur verið ráðist í þessar rannsóknir að frumkvæði fagfólks og stjórnvöld hafa sjaldnast átt hlut að máli. Stærstu rannsóknirnar hafa verið unnar fyrir atbeina sterkra einkafyrirtækja (Íslenskrar erfðagreiningar, Hjartaverndar) og sumar hafa verið í samvinnu við vísindamenn Háskóla Íslands. Nokkrar af þessum rannsóknum hafa verið unnar í nafni Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) eða í samvinnu við stofuna.
    
    Skráning einstaklinga með heilabilun er mjög brotakennd á Íslandi og enginn einn aðili getur á áreiðanlegan hátt tilgreint umfang heilabilunarsjúkdóma. Alzheimersamtök Evrópu (Alzheimer Europe) hafa áætlað að einstaklingar með heilabilun á Íslandi séu 3.922 talsins (2012) og byggja útreikninga sína á lýðfræðilegum aðstæðum. Þetta samsvarar 1,19% af heildarfjölda Íslendinga. Hlutfall íbúa á Íslandi með greinda heilabilun samkvæmt þessu er enn umtalsvert lægra en reiknað meðaltal Evrópusambandslanda, sem er 1,55%..

    Um sex milljónir einstaklinga í Evrópu eru greindir með alzheimer-sjúkdóminn og skylda sjúkdóma á ári hverju og nýjum greiningartilvikum fjölgar stöðugt. Ef horft er til greininga og framtíðarspár frá nágrannalöndum, m.a. frá dönskum og breskum greiningaraðilum, eru líkindi til þess að árið 2040 verði heildarfjöldi einstaklinga með heilabilun sem hlutfall af íslensku þjóðinni komið í 1,2–2,9%. Þetta hlýtur að teljast áhyggjuefni sökum þess hve mikla umönnun þeir þurfa sem hafa langt gengna heilabilun.
    Ísland er nú eitt örfárra Evrópuríkja sem ekki hafa mótað heildstæða stefnu í málefnum fólks með heilabilun, einstaklinga með alzheimer-sjúkdóm og aðra skylda hrörnunarsjúkdóma og eina norræna ríkið. Nefnd innan Evrópusambandsins lagði til á árinu 2016 að alzheimer-sjúkdómurinn og skyldir sjúkdómar yrðu skilgreindir sem forgangsverkefni í heilbrigðismálum í Evrópu, jafnframt því að samþykkt yrði stefna sem hefði það að markmiði að bregðast við afleiðingum þessara sjúkdóma og efla rannsóknir sem leitt gætu til markvissra meðferðarlausna.
    
 
Björgvin Guðmundsson
wwww.gudmundsson.net
 
 
 
 


 


Fjármálaáætlun afgreidd með eins atkvæðis meirihluta!

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára var samþykkt á Alþingi í nótt með 32 atkvæðum gegn 31.  Þingfundi var ítrekað frestað í gærkvöld á meðan formenn flokka, þingflokksformenn og þingflokkar funduðu um framhald þingstarfa en þingfundi var framhaldið klukkan hálfeitt í nótt.

Ekki einn einasti þingmaður stjórnarandstöðunnar treysti sér til þess að samþykkja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.Ástæðan var sú,að þessi áætlun gerir ráð fyrir minni framlögum að raungildi en áður til innviða þjóðfélagsins þrátt fyrir góðæri.Ríkisstjórnin neitar öllum óskum um aukin framlög til heilbrigðismála,menntamála,samgöngumála,velferðarmála og annarra innviða og vísar á fjármálaáætlunina. Fjármálaráð veitti umsögn um fjármáláætlunina og gaf henni falleinkunn. Benedikt fjármálaráðherra viðurkenndi,að áætlunin væri gölluð en lofaði bót og betrun næsta ár!!

Björgvin Guðmundsson

 


Almannatryggingar eru fyrsta stoðin

 

 

Í blaði LEB,Listinni að lifa,er viðtal við félagsmálaráðherrann,Þorstein Víglundsson.Þar segir hann,að lífeyrissjóðirnir eigi að vera fyrsta stoð tryggingakerfisins og almannatryggingar önnur stoðin. Þetta er alrangt.Almannatryggingar eru fyrsta stoðin,lífeyrissjóðir önnur stoðin og séreignalífeyrissparnaður þriðja stoðin.

  Það var ákveðið þegar lögin um almannatryggingar voru sett 1946-1947, að almannatryggingar yrðu fyrsta stoðin.Alþingi hefur ekki breytt því. En það er eðlilegt að ríkið vilji breyta þessu.Félagsmálaráðherrann vill að lífeyrissjóðirnir verði fyrsta stoðin til þess að ríkið geti velt greiðslum til kerfisins yfir  á eldri borgara sjálfa og látið þá borga lífeyri sinn gegnum lífeyrissjóðina. Að  þessu hefur verið unnið, m.a. með því að skerða lífeyri almannatrygginga hjá þeim,sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðum.Skerðingin er orðin svo mikil,að það er líkast eignaupptöku.

Á hinum Norðurlöndunum greiðir ríkið miklu stærri hlut  í lífeyri eldri borgara en hér.En samt er það svo,að lífeyrir almannatrygginga er miklu lægri hér en lífeyrir almannatrygginga á Norðurlöndunum.Þó ríkð sleppi með miklu lægri greiðslur hér en á hinum Norðurlöndunum getur það ekki sýnt manndóm í því að búa eldri borgurum jafn góð kjör og hin Norðurlöndin gera.Við rekum lestina á sviði almannatrygginga.

Björgvin Guðmundsson

 


Getum tryggt öllum öryggi og mannsæmandi kjör

 

Eldhúsdagsumræður fóru fram á alþingi í fyrrakvöld. Þær fóru fram með hefðbundnum hætti. Mörgum finnst þetta fyrirkomulag orðið úrelt og að taka ætti upp nýtt form á þessum umræðum.Að þessu sinni þóttu tvær ræður bera af, samkvæmt skoðunarkönnun,þ..e. ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar og ræða Katrínar Jakobsdóttur,formanns VG.Hér fer á eftir kafli úr ræðu Loga:

 Við fimm til sex ára aldurinn gerist svolítið ótrúlega fallegt í þroskaferli barnsins. Það byrjar að finna til samúðar með öðrum. Það lærir að setja sig inn í aðstæður annarra og finna til með öðrum. Hver hefur ekki reynt að stöðva grát barns sem uppgötvar og skynjar sorglega atburðarás í teiknimynd eða barnabók? En þegar við fullorðnumst öðlumst við hins vegar hæfileikann til að setja hluti í samhengi, horfa á heildarmynd hlutanna, en líka að hugsa abstrakt og brynja okkur fyrir tilfinningum gagnvart einstökum atburðum. Þá grípum við gjarnan til þess að réttlæta alla mögulega og ómögulega hluti út frá heimi meðaltalsins og vísitölunnar.

En við lifum ekki í þannig heimi. Við erum öll af holdi og blóði, fólk sem á rétt að lifa með reisn. Þótt almenn lífskjör Íslendinga hafi batnað gríðarlega og ójöfnuður sé minni en víðast hvar er markmiðum okkar hvergi nærri náð. Við verðum að stefna að því að skapa samfélag þar sem allir eru þátttakendur, hver á sínum forsendum. Ísland er nógu ríkt land, nógu auðugt af auðlindum, til að hægt sé að tryggja öllum ásættanleg kjör. Til þess þarf aðeins að jafna gæðunum betur og deila byrðum eftir getu hvers og eins.

Við getum auðvitað aldrei blandað pólitíska mixtúru sem gerir alla ánægða og hamingjusama, komið í veg fyrir sjúkdóma eða jafnvel mannlega breyskleika. En við getum tryggt öllum öryggi og mannsæmandi kjör. Meðaltölin fletja ekki bara út veruleikann heldur draga athygli okkar stundum frá aðsteðjandi vanda. Þau geta jafnvel leitt okkur á villigötur. Nýverið birti Menntamálastofnun tölfræði sem sýndi að nemendur á höfuðborgarsvæðinu stæðu sig betur í samræmdum prófum en börn utan af landi. Draga mátti jafnvel þá ályktun að börn landsbyggðarinnar væru verri námsmenn og hefði lélegri kennara. Eflaust eru einhverjir skólar í fámenninu verr búnir og í verri færum. En þegar niðurstöður eru krufnar má sjá að einkunnir ráðast miklu fremur af félagslegri stöðu barns en búsetu þess. Þau börn sem búa við lakari félagsleg skilyrði, hafa veikara bakland, minni hvatningu, þeim gengur verr. Og til að bregðast við þessu væri því nærtækast að auka jöfnuð, laga búsetuskilyrði, styrkja velferðarkerfið og ráðast gegn fátækt.

Fyrir þá sem ekki skilja eða viðurkenna þá mannfyrirlitningu sem felst í miklum ójöfnuði er kannski allt í lagi að tefla fram efnahagslegum rökum. Vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar þarf framleiðni að aukast ef við eigum að halda áfram að bæta almenn lífskjör. Tæknibyltingin fram undan mun kalla á vel menntaða, hugmyndaríka einstaklinga með mikið frumkvæði. Af þeim ástæðum einum höfum við ekki efni á að skilja nokkurt barn eftir. Við þurfum að þróa menntakerfi sem mætir ólíkum þörfum hvers og eins, byggir á styrkleikum þeirra en ekki veikleikum. Og það er sorglegt að þessi ríkisstjórn setji ekki menntamál í algeran forgang. Í því felst bæði virðingarleysi og skammsýni. — .

 

 Björgvin Guðmundsson

 www.gudmundsson.net

 

 


Tannlækningar: Hvað skuldar ríkið öldruðum mikið?

Eins og eldri borgarar vita hefur niðurgreiðsla á tannlækningum aldraðra og öryrkja verið miðuð við úrelta gjaldskrá um langt skeið.Haustið 2016 sagði þáverandi heilbrigðisráðherra,Kristján Þór Júlíusson,að ríkið skuldaði eldri borgurum um 800 milljónir vegna þess að niðurgreiðslur hefðu verið rangar (of litlar).Unnið var að endurgreiðslu á þessu fjármagni fyrir áramót en mér vitanlega er ekki farið að endurgreiða enn.Spurningin er einnig sú hvað  skuld ríkisins við eldri borgara vegna tannlækninga er orðin há í dag.

Samkvæmt reglugerð á að  endurgreiða af tannlæknakostnaði ellilífeyrisþega 75% af tannlæknakostnaði.En það verður að miðast við rétta og nýja reglugerð en ekki úrelta. Undanfarið hefur verið miðað við 13 ára gamla reglugerð sem stenst engan veginn.Það er því verið að bjóta á eldri borgurum með því  að láta þá borga alltof mikið fyrir tannlækningar og margir eldri borgarar hafa ekki efni á að fara til tannlæknis.

 

Björgvin Guðmundsson

www.gudmundsson.net

.

 

 


Fer Sigmundur Davíð fram á ný?

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra hefur stofnað framfarafélag.Var fjölsótt á stofnfundi félagsins,sem haldinn var fyrir 3 dögum.Um það bil 250 manns sóttu fundinn.Sigmundur Davíð segist ekki vera að stofna stjórnmálaflokk;heldur þjóðmálafélag,umræðuvettvang.Hann hafi ekki haft slíkan vettvang í Framsóknarflokknum.

 Ekki ber  mönnum saman um hver tilgangur Sigmundar er með stofnun félagsins.Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir,að stofnun félagsins sé snjallt framtak hjá Sigmundi Davíð.Hann geti látið félagið undirbúa framboð sitt til formanns i Framsóknarflokknum.Ef hann tapi slíkum formannsslag geti hann breytt framfarafélaginu i stjórnmálaflokk.Það er rétt hjá Eiriki Bergmann.

Sjálfur hefur Sigmundur Davíð minnst á það, að borgarstjórnarkosningar séu næsta vor og ýmsir hafa orðað Sigmund Davið við framboð þar.Hann hefur ekki tekið undir það sjálfur.En hefur þó mikinn áhuga á skipulagsmálum í Reykjavík.

 Líklegt má telja, að staða Sigmundar Davíðs sé sterkari núna meðal  Framsóknarmanna en  var á síðasta flokksþingi. Nokkur óánægja hefur verið með forustu flokksins.Sigmundur Davíð ætti því að hafa  þokkalega möguleika á að vinna formannskosningu, ef hann ákveður að bjóða sig fram.Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur einnig verið nefnd sem formannsframbjóðandi.Ég á ekki von á því, að hún bjóði sig fram gegn Sigurði Inga,sitjandi formanni. Raunar er mér einnig til efs, að hún mundi bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð.Hún gæti hins vegar orðið góður samkomulagskandidat í stað Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Björgvin Guðmundsson

 


Ekki er stjórn yfir A-hluta fyrirtækjum.Aðför að Landspítalanum!

Ráðuneytin,ríkisfyrtæki eins og Landspítalinn og fleiri fyrirtæki ríkisins eru svonefnd A-hluta ríkisfyrirtæki .Yfir þeim er ekki sérstök stjórn. B-hluta fyrirtækin njóta hins vegar meira sjálfstæðis og eru oftast með sérstaka stjórn.Það skýtur því skökku við,að nú vilji vissir stjórnarliðar setja stjórn yfir landspítalann.Þeir gætu alveg eins lagt til,að sett yrði stjórn yfir hvert ráðuneyti!

Svo virðist sem formaður velferðarnefndar og fleiri fulltrúar stjórnarmeirihlutans ætli sér að þagga niður í forstjóra og stjórnendum Landspítalans með því að setja sérstaka stjórn yfir spítalann. Formaður velferðarnefndar sagði í viðtali við Stöð 2 ,að forstjóri Landspítalans kæmi á hverju ári rétt fyrir afgreiðslu fjárlaga að betla peninga! Hún er einn helsti talsmaður þess,að sérstök stjórn verði sett yfir LSH.Hún vill greinilega losna við heimsóknir forstjórans!

Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra gagnrýndi hugmyndir um stjórn yfir LSH harðlega á alþingi í gær og kallaði þær svívirðilega aðför að Landspítalanum.Það verður að hnekkja þessari aðför.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


Aðeins broti fjármagns varið til Landspítalans miðað við framlög til sambærilegra sjúkrahúsa í Svíþjóð

Nýlega birti læknatímaritið Lancet könnun á heilbrigðiskerfi í ýmsum löndum.Samkvæmt þessari könnun var Ísland í næst efsta sæti og Andorra í því efsta. Kom mörgum þessi könnun á óvart miðað við fyrri kannanir,sem leiddu allt annað í ljós. Stöð 2 ræddi við Pál Mathíasson forstjóra Landspítalans um könnunina. Hann sagði að könnun Lancet fjallaði fyrst og fremt um ótímabær dauðsföll og þeim hefði fækkað meira hjá Íslendingum en hjá flestum öðrum  þjóðum (nema Andorra).Hins vegar fjallaði könnun Lancet ekki um rekstur heilbrigðiskerfa að öðru leyti.Páll sagði,að það væri varið 40% minna fjármagni til Landspítalans en til sambærilegra sjúkrahúsa í Svíþjóð. Rannsóknir á fjármálum LSH leiða í ljós,að spítalinn er fjársveltur og verður að skera niður þjónustu strax á næsta  ári  ef ekki verður bætt úr.

Formaður velferðarnefndar,Nichole Leigh Mosty, virðist ekki hafa mikinn skilning á vanda Landsspítalans.Hún virðist telja  það hlutverk sitt að finna rök gegn nægilegu fjármagni til Landspítalans. Hún sagði í viðtali við Stöð 2,að forstjóri Landspítalans komi hlaupandi á hverju ári,jafnvel á síðustu mínútu, að betla peninga! Ég minnist þess ekki,að formaður velferðarnefndar hafi áður talað af slíkri óvirðingu um yfirmenn Landspítalans.Nichole, formaður velferðarmefndar, telur sig geta sett sig á háan hest eftir að hafa búið tiltöltulega stutt á Íslandi.Hún leggur nú  einnig til,að sett verði stjórn yfir  Landspítalann og segir að þetta sé hennar tillaga (sic) og þetta sé fagleg tillaga en gefur til kynna,að stjórnendur LSH séu pólitískari! Þetta er óskiljanlegur málflutningur. Hún er stjórnmálamaður en ekki embættismaður.  Vissulega getur hún haft skoðanir á stjórnun LSH en ég tel,að ef hún vill fá stjórn yfir Landspítalann eigi hún að leggja fram tillögu um það sem þingmaður en ekki sem formaður velferðarnefndar.Með því að leggja fram slíka tillögu sem formaður velferðarnefndar tel ég,að hún sé að misnota aðstöðu sína.Mér finnst ólíklegt að hún leggi fram slíka tillögu án samráðs við ráðherra heilbrigðismála eða formann flokks sín. Þegar hún sem formaður velferðarnefndar neitaði Páli Matthíassyni forstjóra LSH um fund með velferðarnefnd sagði hún að hún hefði gert það samkvæmt fyrirmælum.Nú segist hún hins vegar hafa ákveðið það ein að styðja tillögu um stjórn yfr LSH!

 

Björgvin Guðmundsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband