Ríkisstjórnin hefur af öldruðum réttmætar kjarabætur

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag um kjaramál aldraðra. Þar segir svo:

Kjaranefndin minnir á, að kjaramálanefnd LEB og kjaranefnd FEB samþykktu 9.desember 2011, að markmið endurskoðunar laga um almannatryggingar ætti að vera að bæta kjör aldraðra ( og öryrkja).Sú tillaga,sem starfshópur um endurskoðun almannatrygginga hefur samþykkt um málefni aldraðra felur ekki í sér neinar beinar kjarabætur til handa öldruðum heldur sameiningu bótaflokka án kjarabóta og lítilsháttar breytingu á tekjutengingum.Kjaranefnd FEB óttast, að stjórnvöld ætli að hafa af öldruðum réttmætar kjarabætur og hyggist vísa í endurskoðun almannatrygginga í staðinn.Kjaranefndin bendir á, að enn hafa stjórnvöld ekki afturkallað kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja frá 1.júlí 2009 enda þótt því væri lýst yfir, þegar kjaraskerðingin tók gildi, að hún ætti að vera tímabundin. Þá hafa kjör aldraðra ekki enn verið leiðrétt vegna kjaraskerðingar og kjaragliðnunar krepputímans.En eins og kjaranefnd hefur áður tekið fram þarf lífeyrir aldraðra að hækka um a.m.k. 20% til þess að ná þeirri hækkun,sem varð á kaupi láglaunafólks á umræddu tímabili. Kjaranefndin krefst þess, að kjaraskerðingin frá 1.júlí 2009 verði þegar í stað afturkölluð og lífeyrir aldraðra hækkaður um 20% til þess að uppfylla ákvæði laga um, að lífeyrir aldraðra og öryrkja hækki hliðstætt hækkun launa og verðlags

 

Eldri borgarar drógust aftur úr launþegum

 

Þessi ályktun var samþykkt í kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík 7.september sl. Stjórnvöld vísa alltaf í endurskoðun TR, þegar þau eru innt eftir kjarabótum til handa öldruðum og öryrkjum.Allt bendir til þess, að ríkisstjórnin ætli að hafa af öldruðum réttmætar kjarabætur.Ríkisstjórnin hefur enn ekki afturkallað kjaraskerðinguna,sem tók gildi 1.júlí 2009 en þá var því lýst yfir,að sú kjaraskerðing væri tímabundin og voru 3 ár nefnd í því sambandi.3 ár voru liðin 1.júlí sl. Ríkisstjórnin hefur heldur ekkert gert til þess að leiðrétta þá kjaraskerðingu,sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir á krepputímanum.Frá ársbyrjun 2009 til 2012 urðu lífeyrisþegar fyrir verulegri kjaraskerðingu. Lágmarkslaun hækkuðu um 48 þús. kr. á mánuði eða um 33% en á sama tímabili hækkaði lífeyrir aldraðra um 23 þús. kr. á mánuði eða um 12,8%. Til þess að leiðrétta þessa kjaraskerðingu og kjaragliðnun þarf að hækka lífeyri eldri borgara um 20%.

 

Stór hópur aldraðra sviptur grunnlífeyri

 

Þegar kjör aldraðra og öryrkja voru skert 1.júlí 2009, var stór hópur lífeyrisþega sviptur grunnlífeyri.Yfir 5000 eldri borgarar urðu þá fyrir kjaraskerðingu.Það var farið að reikna greiðslur úr lífeyrissjóði með tekjum með útreikning grunnlífeyris.Þetta var mjög ranglát ráðstöfun.Hún þýddi það, að stór hópur lífeyrisþega,sem hafði greitt til almannatrygginga,beint og óbeint,alla sína starfsæfi,datt alveg út úr almannatryggingakerfinu og fær ekki krónu úr kerfinu síðan. Eldri borgarar og öryrkjar hafa litið svo á,að grunnlífeyrir væri heilagur og ekki mætti hreyfa við honum.Það var því mikið áfall, þegar hann var afnuminn.

 

 

Endurskoðun TR: Engar beinar kjarabætur- sáralitlar óbeinar

 

 

Færir endurskoðun almannatrygginga lífeyrisþegum einhverjar beinar kjarabætur? Svarið er nei. Endurskoðunin færir lífeyrisþegum engar beinar kjarabætur aðeins hagræðingu.Það verður örlítil breyting á tekjutengingum næsta ár en þær skipta litlu sem engu máli.Einhleypur ellilífeyrisþegi,sem hefur 70 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði fær 4000 kr. meira á mánuði frá almannatryggingum næsta ár vegna endurskoðunar almannatrygginganna.Það eru öll ósköpin.Hjá þeim,sem hafa atvinnutekjur er ávinningurinn enginn næsta ár.Hjá ellilífeyrisþega,sem hefur 30 þús. kr. á mánuði í atvinnutekjur er “ávinningurinn” 6 þús. kr. á mánuði næsta ár en það er minna en frítekjumarkið er í dag hjá þeim,sem hafa atvinnutekjur.Frítekjumarkið er 40 þús. kr. á mánuði í dag þannig að 6 þús. krónurnar skipta engu máli.Og frítekjumarkið vegna atvinnutekna var 110 þús.kr.á mánuði fram til 1.júlí 2009 þ.e. áður en kjaraskerðingin átti sér stað.Það er því mikilvægara að afturkalla kjaraskerðinguna frá 1.júlí 2009 en að fá niðurstöðu endurskoðunar almannatrygginga.Ef eldri borgari hefur 70 þús. kr. á mánuði í fjármagnstekjur er nettoávinningur 6 þús. kr. á mánuði.Það vigtar ekki mikið.

 

Svikist um að afturkalla kjaraskerðinguna

 

Það er alveg orðið ljóst,að ríkisstjórnin er að humma það fram af sér að veita eldri borgurum og öryrkjum réttmætar kjarabætur.Það er ekki einu sinni verið að afturkalla þá kjaraskerðingu,sem lofað var,að yrði afturkölluð.Og ríkisstjórnin skýtur sér á bak við endurskoðun almannatrygginganna og segir við lífeyrisþega, þegar þeir biðja um kjarabætur:Þið fáið endurskoðun almannatrygginga.Þið fáið færri bótaflokka.Aldraðir og öryrkjar kaupa ekki mat,klæði og húsnæði fyrir hagræðingu bótaflokka.En það hefur tekist að blekkja suma með því að gefa í skyn, að endurskoðun almannatrygginganna feli í sér beinar kjarabætur en svo er ekki eins og sýnt hefur verið fram á í þessari grein.

 

Björgvin Guðmundsson

www.gudmundsson.net


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Björgvin takk fyrir þína baráttu fyrir réttlæti til handa eldriborgurum. Mér datt í hug hvort ekki við ættum að færa ríkisstjórninni undirskritarlista í Jólafjöf frà eldriborgurum. Hvar getum við byrjað? Krafan er að afnema strax breytinga frá 1. júlí 2009, en þær voru settar tímabundið að sögn ríkisstjórnarinnar, árið 2013 að renna upp og þessi "velferðarríkisstjórn" skellir skollaeyrum við öllum réttlætismálum eldriborgara, lítilsvirðingin er algjörri. Það eru slæm skilaboð fyrir þá, sem borga í lífeyrissjóði að stór hluti lífeyris sé afskrifaður, þegar kemur að töku ellilífeyris.

Guðrún Norberg (IP-tala skráð) 3.11.2012 kl. 12:02

2 Smámynd: Björgvin Guðmundsson

Sæl Guðrún! Þetta er góð hugmynd hjá þér. Ég mun kanna það hvort vilji er fyrir því hjá Félagi eldri borgara að setja slíka undirskriftasöfnun í gang.

Með bestu kveðju

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson, 4.11.2012 kl. 07:41

3 identicon

Sæll Björgvin takk fyrir það, mun fylgjast með. Vonandi er FEB til í að rugga bàtum þótt innanborðs séu samherjar á hinu pólitíska sviði:)

Guðrún Norberg (IP-tala skráð) 4.11.2012 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband