Nokkur þúsund lífeyrisþega missa grunnlífeyrinn

Ef tillögur um endurskoðun almannatrygginga ná fram að ganga missa nokkur þúsund lífeyrisþegar grunnlífeyri sinn.Stjórnarflokkarnir lofuðu því fyrir kosningarnar 2013 að endurreisa grunnlífeyrinn,þ.e. láta hann ekki falla niður vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Það var samþykkt á sumarþinginu 2013 en það stendur ekki lengi, þar eð fella á grunnlífeyrinn aftur niður um næstu áramót nái tillögurnar fram að ganga. Miðað er við þá sem hafa lífeyrissjóðsgreiðslur 400 þús á mánuði eða meira.Þeir munu missa grunnlífeyrinn.Stjórnarflokkarnir hafa "gleymt" kosningaloforðinu. Raunar hafa þeir svikið flest kosningaloforðin,sem þeir gáfu öldruðum og öryrkjum og þar á meðal stærstu loforðin, leiðréttingu lífeyris vegna kjaragliðnunar krepputímans og afnám tekjutenginga almannatrygginga.Þetta eru mikil svik.

Björgvin Guðmundsson


Burt með tekjutengingar í almannatryggingum!

Ég verð alltaf ákveðnari og ákveðnari í því að efnema eigi allar tekjutengingar í kerfi almannatrygginga.Þessar tekjutengingar eru algert ranglæti og sérstaklega gengur fram af manni, að sparnaður fólks í lífeyrissjóðum skuli ekki fá að vera í friði.Þetta eru peningar,sem eldri borgarar eiga,hafa sparað á öllum atvinnuferli sínum en síðan rekast þeir á það,að þegar þeir hætta störfum og ætla að fara að nota eftirlaun sín,lífeyrissparnaðinn, að þá veldur hann stórfelldri skerðingu eins og það sé verið að taka hluta lífeyrisins traustataki!

Ég tel,að byrja eigi á því að afnema tekjutengingar lífeyrisgreiðslna algerlega.Það á ekki að vera að krukka neitt í lífeyrinn.Aldraðir eiga að njóta þessarar eignar sinnar að fullu.

Síðan þarf einnig að afnema tekjutengingar vegna atvinnutekna.Það er einnig út í hött að skerða lífeyri almannatrygginga vegna atvinnutekna.Á þann hátt er  verið að refsa öldruðum fyrir að vinna eftir að þeir eru komnir á ellilífeyrisaldur.Það kostar ríkið sáralítiðað  að hætta skerðingum vegna atvinnutekna,þar eð ríkið fær skatta af öllum atvinnutekjum.

Það er heldur flóknara að afnema  tekjutengingar vegnaa fjármagnstekna. En ég tel,að stefnan ætti að vera sú,að menn mættu  vera með ákveðna upphæð í banka án þess að hún ylli skerðingu  lífeyris hjá TR.Það er matsatriði hvað þessi upphæð ætti að vera há, en sennilega ekki lægri en 10 milljónir.

 

Björgvin Guðmundsson


Banna á starfsemi Íslendinga í skattaskjólum samhliða ráðstöfunum til að minnka snjóhengjuna

Ríkisstjórnin lagði í gær fram á alþingi frumvarp um útboð Seðlabankans á aflandskrónueignum (snjóhengjunni).Verður eigendum aflandskróna gefinn kostur á að skipta krónunum fyrir evrur fyrir 1.september en ella verða krónurnar settar fastar á reikninga með engum eða litlum vöxtum. Alls mun aflandskrónueignin nú vera 320 milljarðar.Útboð þetta er talið nauðsynlegur undanfari afnáms hafta.

En ekkert bólar á frumvarpi um bann við starfsemi Íslendinga í skattaskjólum á aflandseyjum. Stöðugt berast fréttir um fleiri Íslendinga,sem hafa komið fjármunum sínum þar fyrir til þess að losna við skatta til þjóðfélagsins.Nágrannaþjóðir okkar gera nú harðar ráðstafanir gegn slíkri starfsemi en ekkert bólar á frumvarpi hér um bann við slíkri starfsemi. Ríkisstjórnin dregur lappirnar í málinu enda þrír ráðherrar sjálfir flæktir inn í skattaskjól.Nauðsynlegt er að gera strax ráðstafanir til þess að banna með  öllu starfsemi íslenskra ríkisborgara í skattakjólum.

 

Björgvin Guðmundsson


Ef eldri borgarar hefðu verkfallsrétt...........?

Ef eldri borgarar  hefðu verkfallsrétt væru þeir allir komnir i verkfall í dag! Stjórnvöld hafa ekki orðið við kröfum eldri borgara um fullnægjandi kjarabætur og stjórnarflokkarnir hafa ekki  staðið við kosningaloforðin,sem þeir gáfu eldri borgurum og öryrkjum fyrir alþingiskosningarnar 2013.

Krafa eldri borgara var sett fram á þingi Landssambands eldri borgara 2015.Krafan var skýr.Hún var um að eldri borgarar fengju jafnmikla hækkun og verkafólk og frá sama tíma,1.mai 2015 og að lífeyrir hækkaði síðan í 300 þúsund um leið og laun. Og  á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík í febrúar sl. var bent á, að stjórnarflokkarnir væru eftir að efna stærsta kosningaloforðið frá 2013,að leiðrétta lífeyri aldraðra vegna kjaragliðnunar krepputímans. Og

 ný kjaragliðnun hefði orðið 2015,þar eð aldraðir fengu þá ekki sömu hækkun og verkafólk.Aðalfundurinn samþykkti,að hækka þyrfti lífeyrinn um 30% til þess að leiðrétta hvort tveggja.

Aðalfundurinn krafðist þess,að stöðvuð yrði þegar í stað skerðing lífeyris almannatrygginga vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Það var eitt af loforðum Bjarna Benediktssonar,að svo yrði gert en hann hefur svikið það.

Enda þótt aldraðir hafi ekki verkfallsrétt ber stjórnvöldum siðferðileg skylda til þess að samþykkja kröfur eldri borgara og þau verða að samþykkja þær fyrir kosningar.Verkfallsrétturinn er mikilvægur en kosningarétturinn er það ekki síður.

 

Björgvin Guðmundsson


Sjálfstæðisflokkurinn má muna fífil sinn fegri!

!

Óli Björn Kárason skrifar grein í Morgunblaðið i gær um uppáhaldsumræðuefni hægri manna, þ.e. slæmar fylgiskannanir Samfylkingarinnar að undanförnu.Meðal annars birtir hann línurit um þróun fylgis Samfylkingarinnar á ákveðnu árabili.Ég ráðlegg honum að birta til hliðsjónar línurit af fylgi Sjálfstæðisflokksins á ákveðnu tímabili. Óli Björn yrði hissa, ef hann gerði það. Fylgishrap Sjálfstæðisflokksins úr 40% fylgi í 20-25% kæmi vel út á linuriti og yrði Óla Birni til uppörvunar!.Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað 15-20 prósentustigum.Samfylkingin hefur tapað 4 prósentustigum frá síðustu alþingiskosningum.Sjálfstæðisflokkurinn var með 42,4% fylgi 1956, sama fylgi 1959.Árið 1999 var fylgið 40,7%.Árið 2009 hrapað fylgið í 23,7% og 2013 var fylgið 26,2%.Flokkurinn má því muna fífil sinn fegri.Það er er nægilegt verkefni að kanna orsakir fylgistaps Sjálfstæðisflokksins. Og ekki tekur betra við, ef athugað er fylgi flokksins í Reykjavík þar sem flokkurinn var áratugum saman með yfir 50% fylgi. En nú er Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavik orðinn smáflokkur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur vissulega átt sín erfiðleikatímabil. Þegar Albert Guðmundsson klauf Sjálfstæðisflokkinn og stofaði eigin flokk hrapaði fylgi Sjálfstæðisflokksins niður. Og nú eftir nokkra daga verður stofnaður nýr flokkur, sem að hluta til er klofningur út úr Sjálfstæðisflokknum , þ.e  Viðreisn. Þar eru i fyrirsvari menn, sem voru í Sjálfstæðisflokknum en hafa hrakist úr flokknum vegna þess, að flokkurinn hefur traðkað á gömlum gildum þess flokks. Meðal annars fóru þeir úr flokknum vegna þess, að Sjálfstæðisflokkurinn snérist gegn Evrópusambandinu og sveik kosningaloforð um að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB.Þessi nýi flokkur mun örugglega fá eitthvað fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Óli Björn ætti þvi að bíða með að hlakka yfir stöðu stjórnmálaflokkanna.Ef til vill ætti hann að taka til við að gera línurit yfir fylgishrap samstarfsflokksins, Framsóknar,þegar hann er búinn með línuritið yfir fylgistap Sjálfstæðisflokksins.Það gæti verip fróðlegt línurit.

 

Björgvin Guðmundsson


Aldraðir hafi sömu kjör og á hinum Norðurlöndunum

 

 

Leiðtogar rikisstjórnarinnar tala nú mikið um það hve allt sé hér í miklum blóma.Einkum benda þeir á mikinn hagvöxt en einnig góða afkomu ríkissjóðs.Peningar streyma inn.Undir slíkm kringumstæðum á að vera auðvelt að veita öldruðum og öryrkjum sömu kjör hér og á hinum Norðurlöndunum. En mikið vantar á, að svo sé.

Skerðingar lífeyris almannatrygginga vegna tekna lífeyrisþega af atvinnu þekkjast ekki á hinum Norðurlöndunum.Í Danmörku og Finnladi er 30 % skerðing atvinntekna eftir 490 þúsund króna frítekjumark.Við hljótum að geta fetað í fótsport hinna Norðurlandanna í þessu efni.Við  eigum raunar að ganga lengra og  afnema tekjutengingar með öllu eins og Bjarni Benediktsson lofaði í kosningunum 2013, að gert yrði.

Síðan á auðvitað að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja hér til samræmis við lífeyri á hinum Norðurlöndunum. Í Noregi fá allir grunnlífeyri þó þeir hafi tekjur.Lífeyrir er þar 124 þúsund krónur á mánuði,skattfrjáls. Grunnlífeyrir er svipaður í Svíþjóð og í Danmörku en tæpar 100 þúsuns krónur á mánuði  í Finnlandi.Hér er grunnlífeyrir innan við 40 þúsund krónur á mánuði.

Heildarlífeyrir aldraðra í Noregi er 185 % hærri en hér.Það verður að gera þá  kröfu til stjórnvalda,að þau tryggi öldruðum og öryrkjum sömu kjör og þessir aðilar njóta á hinum Norðurlöndunum. Þess vegna á lífeyrir aldraðra og öryrkja hér að hækka upp í það sem hann er á hinum Norðurlöndunum og afnema á tekjutengingar.-Það er ekki nóg að guma af góðu efnahagsástandi á Íslandi,ef þegnarnir njóta þess ekki. Þeir eiga fyrst og fremst að njóta þess,sem lögðu grundvöllinn að þjóðfélaginu.

Björgvin Guðmundsson

 


Staða aldraðra og öryrkja óásættanleg!

 

 

Hvernig er staða aldraðra og öryrkja í dag? Staða þeirra, sem eingöngu hafa tekjur frá almannatryggingum er óásættanleg, þar eð þeir geta ekki framfleytt sér á lífeyri almannatrygginga.Þessi hópur aldraðra og öryrkja verður því að treysta á ættingja eða hjálparstofnanir  eða neita sér um einhverja mikilvæga útgjaldaliði eins og læknishjálp,lyf eða mat. Þetta láta stjórnvöld viðgangast, þetta sættir alþingi sig við. Enginn í þjóðfélaginu hreyfir legg né lið til þess að laga þetta ástand. Ráðamenn segja einungis, að það megi ekki hafa lífeyri of háan, þar eð þá verði enginn hvati fyrir lífeyrisfólk að leita sér vinnu.Fjármálaráðherrann vill reka sjötuga og áttræða eldri borgara út á vinnumarkaðinn!

Einhleypur ellilífeyrisþegi, sem hefur eingöngu tekjur frá almannnatryggingum, hefur 207 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Húsnæðiskostnaður er 130-160 þúsund krónur á mánuði. Þegar búið er að greiða þann lið er lítið eftir fyrir mat,hreinlætisvörum,fatnaði,samgöngukostnaði,síma,sjónvarpi,tölvukostnaði og gjöfum fyrir barnabörnin.  Það er ekki unnt að lifa mannsæmandi lífi af þessari hungrurlús og raunar ekki unnt að framfleyta sér af henni. Ellilífeyrisþegi, sem er í hjúskap eða sambúð,  fær aðeins 185 þúsund krónur á mánuði eftir skatt.

Ef eldri borgari hefur 100 þúsund krónur  á mánuði úr lífeyrissjóði er staða hans lítið betri en þeirra, sem engan lífeyrissjóð hafa. Skattar og skerðingar eru miklar. Sá sem hefur 100 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði sætir 50 þúsund króna skerðingu  lífeyris TR eftir skatt. Samkvæmt tillögum endurskoðunarnefndar almannatrygginga mun skerðingin minnka um 5400 krónur á mánuði eftir skatt verði tilllögurnar samþykktar. Það breytir litlu.Ef viðkomandi hefur 200 þúsund krónur úr lifeyrissjóði  á mánuði verður skerðing óbreytt. Skerðingin er 90 þúsund krónur á mánuði í dag eftir skatt og hún verður áfram 90 þúsund krónur á mánuði  eftir skatt verði tillögurnar samþykktar. Ef eldri borgarinn hefur 100 þúsund króna atvinnutekjur sætir hann engri skerðingu í dag, þar eð frítekjumark er 109 þúsund krónur á mánuði en samkvæmt nýju tilllögunum verður skerðing 45 þúsund á mánuði við þessar atvinnutekjur.Með öðrum orðum: Staðan versnar um 45 þúsund krónur á mánuði. 3ja ára starf við endurskoðun almannatrygginga skilar engu í þessum tilvikum. Og það sem allra verst er: Lífeyrir aldraðra og öryrkja hjá þeim, sem eingöngu hafa tekjur frá TR hækkar ekkert, ekki um eina krónu.Til hvers var leikurinn gerður?

 

Björgvin Guðmundsson

viðskiptafræðingur

(Fréttablaðið 18.mai 2016)

www.gudmundsson.net


Aldraðir og öryrkjar fái sömu hækkun og launþegar

 

 

 

Þegar verkalýðshreyfingin setti fram kröfu sína á síðasta ári um, að  lágmarkslaun ættu að hækkla í 300 þúsund krónur á mánuði á 3 árum rökstuddi hún kröfuna með þvi að benda  á, að kjör þeirra lægst launuðu væru svo slæm, að það yrði að lyfta þeim myndarlega upp. Krafa verkalýðshreyfingarinnar náði fram að ganga.

Nákvæmlega sömu rök gilda fyrir nauðsyn þess að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja eins og fyrir því að hækka lægstu laun. Kjör aldraðra og öryrkja, sem eingöngu hafa tekjur frá TR, eru eins slæm og jafnvel verri en kjör lægstu launa voru fyrir hækkunina 1.mai 2015. Það er er þvi nákvæmlega jafn mikil nauðsyn á þvi að lyfta lífeyri aldraðra og öryrkja myndarlega upp eins og var fyrir því að lyfta lægstu launum ríflega.

Ýmsir þingmenn Framsóknarflokksins töluðu fallega um það á síðasta ári að hækka þyrfti lífeyri í 300 þúsund krónur á mánuði og sumir sögðu jafnvel, að lífeyrir væri að hækka í 300 þúsund krónur á mánuði.Guð láti gott á vita. Vonandi hafa þessir þingmenn einhver áhrif og geta stuðlað að því, að aldraðir og og öryrkjar fái jafn mikla hækkun og launþegar fengu. Það verður fylgst vel með því hvað gerist í því efni.

Björgvin Guðmundsson

www,gudmundsson.net

 


Davíð og Jón Baldvin komu okkur í EES

Það voru þeir Davið Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson sem komu okkur í Evrópska efnahagssvæðið, þegar þeir mynduðu ríkisstjórn saman( Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn).Margir telja þetta hafa verið framfaraspor en aðrir eru alveg á móti aðild okkar að EES og telja,að sú aðild hafi átt stóran þátt í bankahruninu.Ég tel,að þetta hafi verið rétt skref.

En sennilega hefði þurft að breyta stjórnarskránni,þegar við gengum í EES, þar eð Ísland verður að taka við tilskipunum frá Evrópusambandinu án þess að hafa átt aðild að því að semja þær.Tilskipanirnar renna í gegnum alþingi án athugasemda.

Samkvæmt  ákvæðum í EES eru fjármagnsflutningar frjálsir milli landa EES.Af þeim sökum  var unnt að hleypa erlendu lánsfé ótakmarkað inn í landið,þegar einkabankarnir tóku gegndarlaus erlend lán og gátu síðan ekki greitt til baka.Einu aðilarnir,sem hefðu getað stöðvað þessar lántökur, voru Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið. En þessir aðilar gerðu ekkert.

Davíð kveðst vera andvígur aðild að Evrópusambandinu. Guðni segist vilja,að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram áður en viðræður um aðild að ESB hefjist á ný, ef ríkisstjórn vilji hefja slíkar viðræður.Guðni segir einnig,að áður en vinstri stjórnin sótti um aðild að ESB hefði átt að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það. Það er gilt sjónarmið. En það hefur ekki verið venja á Íslandi,að leggja slík mál í þjóðaratkvæði. Við sóttum um aðild að NATO án slíkrar atkvæðagreiðslu og einnig sóttum við um aðild að EES án þess að leggja málið í þjóðaratkvæði. En tímarnir breytast og sennilega væri skynsamlegt að leggja málið í þjóðaratkvæði áður en sótt yrði um aðild á ný.

 

Björgvin Guðmundsson


Kvótakóngarnir hirða 33 milljarða árlega af sjávarauðlindinni!

 

 

Þegar kvótakerfið var lögleitt var ákveðið að láta tiltölulega fáa útgerðarmenn fá kvótana  og margir urðu útundan. Miðað var við veiðireynslu nokkur undanfarandi ár.Þetta þýddi, að þeir sem voru að byrja útgerð fengu enga kvóta. Það var því í upphafi lokað fyrir nýliðun.Þetta var mjög ranglátt kerfi. Menn fengu kvótana án endurgjalds. Það var því verið að úthluta til fárra gæðum,sem voru takmörkuð og eign allrar þjóðarinnar. Fljótlega var ákveðið að heimila framsal á kvótum.Það opnaði fyrir kaup og sölu kvóta og var þá farið að braska með kvótana.Síðan gerðist það, að eftir ákveðinn tíma seldu sumir útgerðarmenn kvóta sína og fóru út úr greininni.Með öðrum orðum : Menn,sem höfðu fengið úthlutað fríum kvótum,leigukvótum seldu þá eins og þeir væru þeirra eign og þeir stórgræddu á sölunni.

Í dag  „eiga“ innan við 100 manns alla kvótana og fá 33 miljjarða í arð af sjávarauðlindinni árlega , (2015)  enda þótt þessi auðlind sé sameign þjóðarinnar.  Þeir útgerðareigendur,sem fá stærsta skammtinn eru þessir: Þorsteinn Már Baldvinsson,Samherja,10 milljarðar, Kristján V.Vilhelmsson, Samherja,10 milljarðar,Helga S.Guðmundsdóttir,Samherja , 10 milljarðar,Guðmundur Kristjánsson,Brimi 10 milljarðar,Gunnar Tómasson,Þorbirni,5,6 milljarðar,Eiríkur  Tómasson,Þorbirni 5,6 milljarðar,Gerður Sigríður Tómasdóttir,Þorbirni,5,6 milljarðar,Guðbjörg Matthíasdóttir,Ísfélagið, 5 milljarðar.Kristján Loftsson,HB  Grandi,2,7 milljarðar og Birna Loftsdóttir,HB Grandi,2,7 milljarðar. (Byggt að hluta á upplýsingum úr Fréttatímanum)

Á sama tíma og framangreindir einstaklingar stórgræða á sjávarauðindinni, sem þjóðin á, hefur þjóðin ekki efni á að halda uppi sambærilegu heilbrigðiskerfi og grannþjóðir okkar  og  þjóðin  „ hefur ekki efni á „ að greiða öldruðum og öryrkjum mannsæmandi lífeyri ! Það eru nógir peningar til. Það þarf aðeins að skipta þeim réttlátlega milli þegnanna.

 

Björgvin Guðmundsson

www.gudmundsson.net


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband